20.03.1937
Neðri deild: 23. fundur, 51. löggjafarþing.
Sjá dálk 407 í C-deild Alþingistíðinda. (1675)

83. mál, ríkisborgararéttur

*Garðar Þorsteinsson:

Mér finnst það dálítið undarlegt, þegar menn úr allshn. leggja á móti því, að manni, sem uppfyllir hin lagalegu skilyrði, sé, gegn viðtekinni venju, sem gilt hefir til margra ára, synjað um íslenzkan ríkisborgararétt. Það má vera öllum hv. þdm. ljóst, að hver sá maður, er hlýtur þennan rétt, hann hefir komið inn á eitthvert starfsvið, þar sem aðrir eru fyrir. Ég veit ekki, hvað það ætti að vera, sem sá maður tæki sér fyrir hendur og væri utan við þau svið, sem Íslendingar störfuðu eða gætu starfað á. Ég vil t. d. taka fyrsta manninn á listanum. Hann vinnur við fyrirtæki hér í bæ verk, sem margur Íslendingur gæti að sjálfsögðu leyst af hendi. Ef aðeins á að veita þeim mönnum ríkisborgararétt, sem ekki útrýma öðrum mönnum frá starfi, þá verður þess vegna að breyta l. frá 1935 um ríkisborgararétt. Ef hv. 2. þm. Reykv. er tekinn með almennum rökum og skilinn svo, að ekki megi veita öðrum þennan rétt en þeim, er ekki komi inn á verksvið íslenzkra borgara, þá verður víst að líta svo á, að hann geti aldrei mælt með neinni slíkri umsókn nema af persónulegum ástæðum.

Allir þeir, sem í frv. eru nefndir, standa jafnt að vígi. Þeir uppfylla allir skilyrði l. og eiga því allir að fá ríkisborgararétt.