10.04.1937
Efri deild: 36. fundur, 51. löggjafarþing.
Sjá dálk 416 í C-deild Alþingistíðinda. (1698)

83. mál, ríkisborgararéttur

*Jón Baldvinsson:

Ég hefi við 1. umr. þessa máls látið það í ljós, að slík frv. sem þetta ættu að vera lögð fram af ríkisstj. Ég álít, að það standi ekki alveg á sama, hvort maðurinn geri gagn eða ekki, og til þess verður að taka tillit, þegar mönnum er veittur ríkisborgararéttur. Það er oft svo, að það eru teknir útlendir sérfræðingar til ýmsra fyrirtækja, og þá sérstaklega iðnfyrirtækja, og eru hér vel launaðir. En þótt þeir komist hér að einhverju starfi, verður það að vera tilskilið, að þeir hafi meðmæli frá mikilsmetandi mönnum, ef þeim á að verða veittur ríkisborgararéttur.

Ég vil benda á það, að þýzkir ríkisborgarar losna ekki undan ríkisborgararétti Þýzkalands, þótt þeir fái ríkisborgararétt annarsstaðar, Þeir þurfa að fá samþykki stj. til þess, annars tilheyra þeir þýzkum lögum og eru skyldir til að ganga í þýzka herþjónustu. Þetta er atriði, sem vert er að athuga.

Ég vil því með leyfi hæstv. forseta leggja hér fram svohljóðandi rökst. dagskrá:

„Með því að deildin lítur svo á, að frv. til l. um veiting ríkisborgararéttar skuli jafnan vera stjfrv. og undirbúið af ríkisstj., en svo er eigi um þetta frv., þá tekur deildin fyrir næsta mál á dagskrá.“