16.04.1937
Efri deild: 42. fundur, 51. löggjafarþing.
Sjá dálk 421 í C-deild Alþingistíðinda. (1710)

83. mál, ríkisborgararéttur

*Sigurjón Á. Ólafsson:

Út af ummælum hv. frsm. um brtt. á þskj. 308, að hann mundi ekki setja sig á móti henni af þeirri ástæðu einni, að skjölin vantar, þá vil ég taka það fram, að ég hygg, að það geti orðið skiptar skoðanir um það innan n., hvort hér á að víkja þannig frá 10 ára takmarkinu. Og þó umræddur maður eigi ekki sök á því, að skjölin vantar, þá er þó sá möguleiki opinn fyrir hann að afla sér skjalanna aftur á þeim tíma, sem vantar á, að hann hafi dvalið hér 10 ár. Ef gengið er inn á að taka þennan mann inn í frv. nú, þá hygg ég, að liggi fyrir umsóknir frá fleirum, sem þá gæti komið til athugunar, hvort ekki ætti að taka upp líka. Um þessi skjöl skal ég ekkert segja; mér þykir ólíklegt, að þau liggi ekki einhverstaðar í skjalavörzlum þingsins, svo að með vandlegri leit ætti að vera hægt að hafa upp á þeim.

Ég óska, að málið sé tekið út af dagskrá nú, svo að n. gefist kostur á að athuga það á ný og taka afstöðu til, hvort nú á að brjóta regluna um 10 ára takmarkið, og hvort það getur þá ekki gilt um fleiri af þeim mönnum, sem liggja fyrir umsóknir frá.