22.03.1937
Neðri deild: 24. fundur, 51. löggjafarþing.
Sjá dálk 422 í C-deild Alþingistíðinda. (1716)

84. mál, sala mjólkur og rjóma o. fl.

*Flm. (Jörundur Brynjólfsson):

Við höfum flutt frv. þetta hér í hv. deild að tilhlutun hæstv. landbrh.

Ég sé ekki ástæðu til að hafa mörg orð um frv. og get um allt, sem máli skiptir, vísað til grg. þeirrar, sem því fylgir. Orsökin til þess, að lagt er til að gera þessar breyt. á mjólkurl., er sú, að aukning á mjólkurframleiðslu hefir orðið mjög mikil síðan l. voru sett upphaflega, en þau voru samin með það fyrir augum, að svo mikið mjólkurmagn myndi ekki berast til kaupstaða og kauptúna á þessu verðjöfnunarsvæði. Hefir orðið nokkur ágreiningur út af þessu hér á verðjöfnunarsvæðinu, þar sem hagsmunir manna hafa ekki farið að öllu leyti saman, en menn hafa ekki fyllilega áttað sig á því, að bezt fari á, að nokkur jöfnuður væri í þessum efnum manna í milli, þeirra er nálægt Reykjavík búa og njóta betri skilyrða, og hinna, er fjær búa. Þeim, sem í grennd við kauptúnin búa, hefir fundizt þeir eiga þennan markað og litið svo á, að aðrir hefðu ekki leyfi til að flytja þangað mjólk, nema ef mjólkurþörf væri svo mikil, að þeir gætu ekki einir bætt úr. Ég þarf ekki að fjölyrða um, hve þetta er mikill misskilningur. Hví skyldi framleiðendum landsins ekki frjálst að koma með þessar vörur sem aðrar inn á þetta svæði, sem löggjöfin hefir afmarkað, ef þeir brjóta ekki reglur þær, er hér að lúta? Ef búseta ætti öllu að ráða um þessa vöru, ætti það að vera eins um aðrar nauðsynjar, sem á þessum markaði eru seldar. Ef þeir, sem búa í nánd við Reykjavík og Hafnarfjörð, eiga að fá hærra verð fyrir mjólkur afurðir, ætti líka að færa þetta yfir á önnur svið, svo að þeir fengju t. d. hærra verð fyrir kjötið, en þessu hefir enginn haft orð á. En sama máli hlýtur að gegna um mjólkina og kjötið og raunar fleiri vörur, að því er þetta snertir. Ég held, að bezta leiðin til að koma þessum ágreiningi fyrir kattarnef sé að taka upp þann háttinn, að láta menn búa við sama verð, nema hvað það veitir mönnum hlunnindi að búa í grennd við kaupstaðina, þar sem flutningur á markaðinn er mun minni fyrir þá en hina, sem í fjarlægð búa. Á þessa hagsmuni er ekki gengið hér. Ég hefi ekki þung orð um það, þó að menn, sem búa í grennd við kaupstaði, líti á það, að hagsmunir þeirra séu skertir, þó að þeim finnist í fyrstu þungt að verða að sæta þessu. En ef þeir íhuga þetta betur, munu flestir sjá, að eðlilegt er, að þarna sé nokkurt jafnræði milli manna. Og það er betra að vinna að jafnaði með lagasetningu en stríði milli framleiðenda um markaði, sem öllum yrði til tjóns, en engum til hagsbóta.

Ég hefi ekki séð, að þeir, sem búa hér í grennd, í Mosfellssveit, á Kjalarnesi og suður með sjó, hafi verri aðstöðu en menn í fjarlægari sveitum. Þeir hafa minni kostnað af flutningi vörunnar á markað og aðdrætti nauðsynja til heimilis. Þeir, sem fjær búa, hafa ekki betri aðstöðu til að rækta jarðir sínar, og þeim verða kostnaðarsamari allir aðflutningar. En hér á ekki að snerta við þessum aðstöðumun.

Þó að af þessu frv. kunni að leiða, að nokkuð verði skertir hagsmunir þeirra, sem fengið hafa hæst verð fyrir mjólkina, vona ég, að hægt verði að vinna svo að málunum, að ekki þurfi að koma upp neinn misskilningur milli þessara tveggja hópa. Vil ég í því sambandi vísa til grg., en þar segir, að í undirbúningi sé lagasetning um innflutningstoll á fóðurbæti og um það, að mjólkursamsalan taki að sér sölu á smjörlíki. Er ætlazt til, að á þennan hátt geti skapazt tekjur, er numið gætu allt að 100 þús. kr. og renna eiga í verðjöfnunarsjóð mjólkursamsölunnar. Ef til vill má finna fleiri sem sjóðinum mætti áskotnast, og gæti þá farið svo, að í engu yrði skertur hagur þeirra, er í nánd við kaupstaðina búa. Erlendis, t. d. í Noregi, hefir svipað fyrirkomulag verið upp tekið. Ég held, að slík aðferð sem þessi sé hyggileg, því að með því einu móti er hægt að vinna að málunum öllum til hagsbóta og eyða öllum ágreiningi.

Sé ég svo ekki ástæðu til að fjölyrða frekar um málið, þar sem grg. gerir glögga grein fyrir því, og skírskota ég til hennar.