22.03.1937
Neðri deild: 24. fundur, 51. löggjafarþing.
Sjá dálk 424 í C-deild Alþingistíðinda. (1717)

84. mál, sala mjólkur og rjóma o. fl.

Ólafur Thors:

Það er nú í rauninni svo komið, að íslenzkir þjóðfélagsþegnar vita, að af þessari háu samkundu hér er á hverri stund allra tíðinda von. Hér hafa verið samþ. frv., sem brjóta í bága við ákvæði sjálfrar stjórnarskrárinnar um eignarrétt o. fl. Og nú kemur þetta frv., sem er þannig úr garði gert, að ef hver maður sem veit yfirleitt, að Ísland er til, vissi ekki jafnframt, að löggjafarvaldi þjóðarinnar er í engu treystandi, þá myndi þetta frv. vekja slíka athygli, að um annað mundi ekki vera rætt í langan tíma. Ég ætla ekki að þessu sinni að gera málinu þau skil, sem ég hefði ætlað að gera við 2. umr., en ég ætla að segja að þessu sinni, að það er að bæta gráu ofan á svart, er hæstv. forseti þessarar deildar gerist 1. flm. að slíku frv. og lætur fylgja því úr hlaði önnur eins háðuleg blíðmæli og þau, að kindin skuli leggjast niður og ekki sprikla, meðan verið sé að skera hana, því að það sé allt gert í bróðerni.

Það verður ekki af neinum dregið í efa, og sízt af hæstv. forseta eða hæstv. landbnrh. eða hv. þm. Mýr., sem kunnugir eru högum þessara manna, að hér er verið að ríða niður efnahag fátækra manna í öllu nágrenni Reykjavíkur. Ég efa ekki, að þeir sem eiga að hafa hag af þessu frv., hafi mikla þörf þeirra fríðinda, þó að það gildi ekki um þá alla. En ég tel það brot gegn friðhelgi eignarréttarins, þegar leikur er gerður að því, að gera heilar sýslur öreiga, til þess að aðrar sýslur geti hagnazt af. Það er eins og ekki eigi að vera ein báran stök í aðgerðum stjórnarflokkanna gagnvart þessum mönnum.

Ég ætla ekki að þessu sinni að koma inn á þá ráðstöfun hæstv. landbnrh., er hann tók eignarnámi mjólkurstöð Kjalnesinga. En svo framarlega sem ákvæðin um landsdóm eiga að vera nokkuð annað en orðin tóm, ætti að kæra þetta fyrir landsdómi; og hæstv. ráðh. myndi verða dæmdur sekur. Það hlífir honum ekki annað en það, að landsdómur er ekki annað en pappírsform.

Ég held, að öllum viti bornum mönnum hljóti að skiljast, að verðmæti jarðeigna, bæði í þessum sýslum og öðrum, veltur á tvennu, annarsvegar ræktunarskilyrðum og beitarskilyrðum á jörðunum, en hinsvegar legu jarðanna. Það, sem jarðir í nágrenni Reykjavíkur hafa umfram aðrar jarðir, er sérstaklega legan, sem gerir ábúendum fært að geta selt daglega öðrum fremur framleiðsluvörur sínar til þessa stærsta neyzlustaðar landsins. Með þessu frv. er verið að gera upptækan þann hluta af verðmæti jarðanna, sem liggur í legunni. Þegar athugað er, hvað búið er að gera í þessum efnum, og hverju það hefir valdið, en hinsvegar, hvernig þeir standa að vígi, sem nú eiga að missa spón úr aski sínum, er ég sannfærður um, að þó að frv. verði að l., muni það ekki ná tilgangi sínum, þeim að færa bændum austanfjalls þann hagnað, sem til er ætlazt. Því að ég verð að ætla, að aðaltilgangurinn sé ekki sá að skaða bændur vestanfjalls. Mér finnst því ástæðuminna að grípa til þessara ráða, þar sem hægt er að benda á aðrar leiðir til að létta undir með bændum austanfjalls án þess að ríða niður búskap bænda vestanfjalls. Eyjólfur Jóhannsson framkvæmdarstjóri hefir í opinberum blaðaskrifum bent á leiðir til að tryggja jöfnunarsjóði fé, — betri leiðir en þær, sem hér er bent á.

Ég hefi heyrt, að þessu frv. eigi að fylgja annað, þar sem bændum vestanfjalls eigi að veita nokkrar ívilnanir á skuldum. En við það er að athuga, að mikill hl. þessara bænda fengi þó ekki þessar ívilnanir, en þeir eiga hinsvegar samkvæmt stjórnarskránni rétt á friðhelgi eignarréttarins. Ég harma framkomu þessa frv., ekki aðeins vegna þeirra bænda, sem nú á að fara að ríða niður með frv. þessu, heldur líka vegna þeirrar spegilmyndar af ábyrgðarleysi löggjafarvaldsins, sem fram í því kemur, þó að það sé ekki samið af verri mönnum en standa þó að því. Það sýnir, hvernig komið er, að menn skirrast ekki við að ríða niður lífsmöguleika annara manna sér og pólitískum hagsmunum sínum til framdráttar. Það má segja, að það sé ógæfa, en ekki þjóðarógæfa, að bændur í hundraðatali fari á vonarvöl. En það er þjóðarógæfa, að löggjafar þjóðarinnar skuli með fullkomnu blygðunarleysi bera fram tillögu um að koma hundruðum manna á kné, eingöngu í því skyni að afla sjálfum sér pólitísks fylgis.