31.03.1937
Neðri deild: 28. fundur, 51. löggjafarþing.
Sjá dálk 428 í C-deild Alþingistíðinda. (1724)

84. mál, sala mjólkur og rjóma o. fl.

*Pétur Ottesen:

Við hv. þm. Hafnf. eigum báðir sæti í landbn., sem að líkindum fær málið til meðferðar, og eigum við því auðvelt með að láta þar koma fram afstöðu okkar. Ég hefi heyrt um það í þingbyrjun eða fyrr, að í undirbúningi væru till., er miðuðu í þessa átt, sem frv. gerir ráð fyrir, og ná ættu til allra mjólkurframleiðenda á þessu verðjöfnunarsvæði, sem nær austur að Jökulsá á Sólheimasandi og allt vestur í Hnappadalssýslu, að undanteknum tveim hreppum ofan Hvalfjarðar, Akranesshreppunum, sem eru út af fyrir sig. Það er vitanlegt, að slík ákvæði gengju út yfir þá menn, sem hafa aðstöðu til að selja mjólk á Reykjavíkurmarkaðinn. Þeirra aðstaða er allmjög skert með ákvæðum frv., enda er þetta viðurkennt af einum flm., hv. þm. Mýr. Hann kvað svo ríkt að, að hann taldi með þessu vera svo hart gengið að ýmsum nærsveitum Reykjavíkur, svo sem Mosfellssveit, Kjalarneshreppi, Kjósarhreppi og hreppunum hér suður með sjó, að vafi væri á því, að búskapur þar myndi bera sig með þessu lagi. Svo hátt er reitt til höggs gegn þessum mönnum, að sjálfir flm. verða að viðurkenna, að það geti vel orðið rothögg á búskaparafkomu þeirra. Þá er frv. ekki síður þungt í garð þeirra, er flytja hingað mjólk ofan fyrir Hvalfjörð. Um þessa menn gildir það þó ekki, að þeir búi svo nálægt markaðinum, að það bæti allt upp, því að þeir verða jafnvel að greiða hærri flutningskostnað en þeir, sem búa hér austanfjalls, og eru því enn verr settir.

Það er auðvitað sjálfsagt, að löggjafarvaldið grípi inn í, þegar við á, um atvinnu og verzlunarháttu manna, en þá aðeins til þess að tryggja betur afkomu þeirra, en þegar það leiðir til skerðingar á hagsmunum þeirra, er löggjöfin komin of langt út fyrir takmörk þess, sem á að vera.

Mér þótti dálítið undarlegt, þegar við fyrra hluta þessarar umr. var verið að réttlæta þetta með allsherjarjöfnunarverði yfir allt svæðið, enda þótt í frv. sé gert ráð fyrir að veita einum flokki framleiðenda sérréttindi, þeim framleiðendum mjólkur, er búa innan takmarka Reykjavíkur og Hafnarfjarðar. Ég mótmæli ekki þessum hagsbótum þeim til handa, en sé þá ekki heldur ástæðu til að neita þeim um þessi réttindi, sem búa í næsta nágrenni þessara bæja, og er þetta fullkomin mótsögn. Mér virðist sem sagt, að með þessu frv. sé mjög harkalega gengið að þeim mönnum, er setið hafa að Reykjavíkurmarkaðinum og löggjafarvaldið er búið að viðurkenna, að hafi nokkurn sérrétt til að njóta hans. Auk þess er Alþingi búið að lögfesta fasteignamat á jörðum þessara manna, sem miðað er við þeirra sérstöku aðstæður til að geta selt mjólk hér á Reykjavíkurmarkaðinum.

Einn flm. frv., hv. 1. þm. Árn., sagði hér á dögunum, að þeir, sem búa í nágrenni Reykjavíkur og suður með sjó, hefðu ekki rétt til að bera meira úr býtum eða njóta hærra mjólkurverðs en hinir, því að ekki væru meiri erfiðleikar um ræktun og beitilönd og annað, er að búrekstri lítur, á þessu svæði en annarsstaðar. Ég þarf ekki að svara þessu, því að hv. þm. Mýr., sem líka er flm. frv., hefir svarað því. Hann benti á erfiðleikana við ræktun landsins á þessu svæði og öflun góðs sumarfóðurs. Þannig er hver höndin upp á móti annari meðal flm. frv., og það eitt nægir til að gera alla meðferð málsins tortryggilega.

Ég sé ekki ástæðu til að fara út í einstök atriði, því að frv. verður til meðferðar í n., og mun ég gera frekari athugasemdir við frv. í n. og svo síðar, er það verður aftur til umr. hér í deildinni.