02.04.1937
Efri deild: 30. fundur, 51. löggjafarþing.
Sjá dálk 65 í B-deild Alþingistíðinda. (173)

13. mál, Kreppulánasjóður

*Atvmrh. (Haraldur Guðmundsson):

Það er ekki allskostar rétt, sem hv. frsm. sagði, að á síðasta þingi hefði verið ákveðið að veita sveitarfélögum 1½ millj. til skuldaskila. Hann man það, að gert var ráð fyrir að nota í þessu skyni það, sem eftir var af skuldabréfum kreppulánasjóðs, og var gert ráð fyrir, að það mundi nægja. En á síðasta ári kom í ljós, að það, sem eftir var af þessum skuldabréfum, var miklu minna en ráð hafði verið fyrir gert. Þá var með bráðabirgðalögunum, sem hér liggja fyrir, gefin heimild til að gefa út skuldabréf fyrir allt að 1½ millj. kr. Að þessi upphæð var tekin, var af því, að þá var ekki búið að kynna sér svo efnahag og grundvöll til skuldaskila hjá sveitarfélögum, að hægt væri að segja, að sú upphæð, sem gert var ráð fyrir síðasta vetur, mundi nægja, því að sú aukning, sem fengin hafði verið heimild fyrir, var gerð með bráðabirgðalögunum, en ekki á síðasta þingi, þar sem það sýndi sig, eins og skýrsla skuldaskilasjóðsstjórnarinnar ber glögglega með sér, að fullnægt hefir verið að öllu leyti umsóknum hlutaðeigandi sveitarfélaga, og svo langt í því gengið, að það var ekki einu sinni bundið við þau, sem sóttu á tilsettum tíma, heldur líka þau, sem síðar komu. Sé ég því ekki ástæðu til að auka þessi útgjöld, þegar þingviljinn í fyrravetur sýndi líka, til hvers var ætlazt. Ég hefi viðurkennt viðvíkjandi læknishéraðasjóðsskuldunum, að þar sé rétt að veita hjálp, en það tel ég alveg fullnægjandi fyrir þau héruð, sem þar um ræðir. En hv. 1. þm. Skagf. veit vel, að þörfin fyrir þessi lán er enn ríkari í kaupstöðum en fyrir sveitarfélög, og þá er eðlilegt að bæta helzt úr þar, sem þörfin er mest, þar sem ekkert hefir heldur verið dregið úr því, sem ætlazt var til vegna sveitarfélaganna.