19.04.1937
Neðri deild: 43. fundur, 51. löggjafarþing.
Sjá dálk 466 í C-deild Alþingistíðinda. (1741)

84. mál, sala mjólkur og rjóma o. fl.

*Forsrh. (Hermann Jónasson):

Herra forseti! Góðir hlustendur! Það verður ekki komizt hjá því, að rekja sögu þessa máls, því að hún sýnir betur en nokkuð annað trúnað flokkanna við þetta mál allt. Og þess vegna verða menn fyrst og fremst að hafa þessa sögu í huga, þegar dæma skal um málið við kjörborðið. —

Á enga af framkvæmdum núverandi ríkisstj. hefir verið ráðizt með jafngengdarlausu og þrotlausu offorsi sem mjólkurskipulagið. Þessar árásir á sjálfsbjargarviðleitni bændanna hófust í sjálfstæðisblöðunum, löngu áður en framkvæmd laganna byrjaði, og komu þannig fram sem bein andstaða gegn l. sjálfum, þótt annað hafi síðar verið látið í veðri vaka. Árásirnar komu fram í margskonar myndum. Það var ráðizt gegn samsölunni fyrir fækkun mjólkurbúðanna. Það var stofnað svokallað húsmæðrafélag til að beita sér gegn skipulaginu með blaðaárásum, með fundahöldum og mjólkurverkföllum. Það var heimtað, að þeir, sem áður hefðu haft atvinnu af mjólkursölunni, fengju að halda henni, enda þótt mjólkurbúðunum væri fækkað úr 105 niður í 38. Þess var krafizt, að mjólkurverðið yrði lækkað niður í 35 aura, og þegar ekki var orðið við þessum kröfum, voru sett á stað mjólkurverkföll. Það voru skrifaðar æsingagreinar í blöð sjálfstæðismanna, og bæjarmenn hvattir til að takmarka mjólkurneyzluna. Blað eftir blað af Morgunblaðinu var gefið út með leiðbeiningum til manna um „spónamat“, sem Reykvíkingum var ætlað að borða í staðinn fyrir mjólk. Á bak við þennan mjólkurverkfallsfélagsskap húsmæðranna stóð Sjálfstæðisfl. Og það varð uppvíst, að einn af þm. flokksins, Pétur Magnússon, tók virkan þátt í mjólkurverkfallinu með því að takmarka mjólkurneyzlu á heimili sínu. Þessar ofsóknir gerðu skipulaginu og bændastéttinni vafalaust mikið tjón. En margir af unnendum skipulagsins juku þá mjólkurneyzlu sína til að vinna upp á móti markaðstapinu, og að lokum tókst að sigrast á ofsækjendunum til fulls. Hversu langt þetta fólk gekk í ofsóknum sínum gegn skipulaginu sést nú á því, að nýlega er genginn dómur um þetta mál, þar sem verkfallsfélag húsmæðranna og 2 aðalblöð Sjálfstfl. eru dæmd til fjárútláta fyrir athæfi sitt. Það voru brotin landslög til þess að reyna að brjóta samsöluna niður.

Þegar sigrazt hafði verið á þessum ofsóknum, tóku við aðrir erfiðleikar úr sömu átt. Það sýndi sig á árinu sem leið, að mjólkurstöð sú, sem Mjólkurfélag Reykjavíkur rak, þar sem neyzlumjólkin var gerilsneydd, var rekin með slíkum eindæma sóðaskap, að tæpast er hægt að skýra frá því opinberlega. Árangurinn af þessum rekstri varð sá, að neytendur hættu í stórum stíl að kaupa mjólk, og á 2 mánuðum lækkaði mjólkursalan frá því, sem verið hafði á sama tíma árið áður, um rúmlega 19000 lítra, en hefði samkvæmt meðaltalssöluaukningu 1936 átt að aukast um rúmlega 25000 lítra. Raunveruleg minnkun sölunnar þennan tíma varð því samkvæmt meðaltalssölu 1936 rúmlega 44000 lítrar. Með þessum rekstri mjólkurstöðvarinnar, sem var í höndum eins aðalandstæðings mjólkurskipulagsins, var því óafvitandi eða vitandi verið að gereyðileggja mjólkurskipulagið á örstuttum tíma, þegar stöðin var tekin af hinum eldri umráðamönnum með bráðabirgðalögum og breytt um rekstur hennar, þannig að salan komst aftur í lag.

Þessi fjandskapur gegn mjólkurskipulaginu stafaði af ýmsum ástæðum, sem rétt er að draga fram og gera mönnum skiljanlegar. Í fyrsta lagi var verið að reyna að halda uppi sérréttindum, sem Mjólkurfélagssvæðið hafði sölsað undir sig og vildi ekki sleppa. Í öðru lagi var reynt að blása að eldinum með því að sýna fram á, að mjólkurskipulagið væri gegn hagsmunum Korpúlfsstaða og þá einnig gegn hagsmunum formanns Sjálfstfl., um leið og það væri gegn hagsmunum sérréttindasvæðisins hér vestan fjalls, sem Ólafur Thors er þm. fyrir, og ennfremur var það bersýnilega gegn hagsmunum hinna mörgu kaupmanna, sem höfðu milliliðagróðann af hinum mörgu búðum og Sjálfstfl. hefir fyrst og fremst umboð fyrir. Og inn í þessa hagsmuni var svo ofið pólitískri baráttu; það átti að eyðileggja mjólkurskipulagið, fyrst og fremst til að koma ríkisstjórninni á kné og um leið koma yfirráðum mjólkurskipulagsins í hendur Mjólkurfélags Reykjavíkur og Eyjólfs Jóhannssonar, til þess að geta skammtað bændum austan fjalls og í Borgarfirði eftir geðþótta þessara manna, eins og gert hefir verið áður en mjólkurskipulagið komst á. Þetta var hinn raunverulegi ásetningur bak við allar árásirnar, þó að þær á yfirborðinu hafi verið sagðar í þeim tilgangi gerðar, að bæta sölufyrirkomulagið hér í bænum, svo hlægileg sem sú ástæða er af vörum þessara manna.

En allar þessar árásir og ofsóknir hefir samsalan staðið af sér. Hún hefir orðið bændum stórkostleg fjárhagsleg hjálp. Það tókst að fækka mjólkurbúðunum, eins og áður er sagt, úr 105 niður í 38. Dreifingarkostnaðurinn, sem var 17 aurar á lítra, eftir uppgjöf E. J. í Mbl. 1933, komst árið 1935 niður í 7,49 aura pr. lítra og 1936 niður í 4,75 pr. lítra. Á þennan hátt hefir græðzt bændum til handa svo hundruðum þúsunda skiptir. Verðuppbót til fjarsveitanna, til mjólkurbúanna austan fjalls og í Borgarfirði. hefir á árunum 1935–'36 numið um 500 þús. kr., þar af 360 þús. kr. verðjöfnun og 140 þús. kr. hagnaður af rekstri samsölunnar síðastl. ár, sem náðst hefir vegna þess, að afgangur hefir orðið af því, sem samsölunni var ætlað til dreifingarkostnaðar. Árið 1933 var allt mjólkurmagn mjólkurbúanna 6,4 millj. lítra, en árið 1936 er það orðið 11,7 millj. lítra; aukning mjólkurmagnsins er því orðin 5,3 millj. lítra eða 83%. Árið 1935 er meðalhækkun á verði til bænda á þessu svæði, þrátt fyrir hina gífurlegu framleiðsluaukningu, 2,9 aurar á lítra. Árið 1933 greiddu mjólkurbúin öll á verðjöfnunarsæðinu til bænda 1 millj. 298 þús. kr. Árið 1936 greiddu þau sem næst 2 millj. og 600 þús. kr. Verðmætisaukning var því um 100% á þessari 83% mjólkurmagnsaukningu.

Samanburður skipulags og skipulagsleysis er því í stuttu máli þessi: Skipulagsleysisárin 1930–'33 er mjólkuraukning 16% og verðfall 14% — 1936, skipulag, er mjólkuraukning 83%, en verðhækkun 18%.

Tjónið, sem Þorsteinn Briem hefir unnið bændum með skipulagsleysi mjólkursölunnar árin, sem hann fór með völd, skiptir því mörg hundruð þúsund kr., en aðgerðarleysi hans í því máli á sína sögu, sem áður hefir verið rakin.

Sigur mjólkurskipulagsins, þrátt fyrir allar ofsóknir, hefir því orðið svo greinilegur sem verða má, enda eru ofsækjendurnir teknir að hafa hægara um sig nú upp á siðkastið. En eins og Bjarni Ásgeirsson rakti mjög ýtarlega þarf nú, vegna hinnar miklu aukningar á mjólkurframleiðslunni, að stíga ný skref í framhaldi af því, sem þegar hefir verið gert; það þarf í fyrsta lagi að koma á fullkominni verðjöfnun: sama verð fyrir sömu vöru á sölustað. En til þess þarf að auka tekjur verðjöfnunarsjóðs, sumpart með því að hækka verðjöfnunargjaldið að einhverju leyti með tollum á fóðurbæti, sem fluttur er inn í landið, og jafnframt kemur að því, að rétt muni að taka einkasölu á smjörlíki, sem mundi geta gefið verðjöfnunarsjóði á annað hundrað þús. kr. tekjur á ári án þess að hækka verðið. En jafnframt þarf að auka markaðinn, og það þarf fyrst og fremst að gera með bættum framleiðsluaðferðum á mjólkinni, nýrri eða endurbættri mjólkurstöð, með því að framleiða þurrmjólk, sem mjólkursamsalan hefir haft undir athugun nú um nokkurt skeið, og ennfremur kemur sennilega að því, að rekin verði smjörlíkisgerð í samstarfi við mjólkurbúin til þess að auðveldara sé að minnka smjörlíkisframleiðsluna að sama skapi sem smjörframleiðslan eykst og þarfnast aukinna markaða. Frv. um þessi efni hefi ég haft í undirbúningi, og sum þeirra eru fullgerð, enda þótt ég hafi ekki séð ástæðu til að leggja þau fram hér á Alþingi, eftir að séð varð, að til þingrofs mundi koma.

Frv. þetta, sem hér liggur fyrir, mætti þegar mjög mikilli mótstöðu hér á Alþ., og var þá farið um það ákaflega hörðum orðum í blöðum Sjálfstfl. Regluna um sama verð á öllu verðjöfnunarsvæðinu, miðað við vöruna komna á sölustað, töldu sjálfstæðismenn stórkostlegt eignarán gagnvart þeim mönnum, sem búa á Mjólkurfélagssvæðinu. Bjarni Ásg. hefir, eins og einnig var gert við 1. umr. málsins, sýnt fram á, að þessi mótbára hafi við engin rök að styðjast. Og sú regla, sem tekin er upp í frv., er í alla staði réttlát, enda styst hún við rannsóknir og reynslu Norðmanna í þessum efnum, og er beinlínis tekin upp af Jónasi Kristjánssyni eftir utanferð hans til að kynna sér mjólkurmál í nágrannalöndunum, á vegum ríkisstjórnarinnar í haust. En hin hatrama andstaða gegn réttlátum kröfum austanfjallsmanna og Borgfirðinga í þessu máli nú er í fullu samræmi við baráttu þeirra gegn mjólkurskipulaginu frá því fyrsta. En þessi mótstaða sjálfstæðismanna hefir fengið skyndilegan og næstum skoplegan endi. Allt í einu kemur upp sá kvittur meðal þm., að þingrof sé framundan og kosningar á mestu grösum. Og þá fyrst rumskar samvizka sumra sjálfstæðismanna. Nú eiga þeir að koma fram fyrir kjósendur og gera grein fyrir afrekum sínum í þágu bændastéttarinnar, sem þeir þurfa að biðja um að kjósa sig aftur á þing. Og þessir menn, sem í baráttu undanfarinna ára algerlega hafa gleymt hagsmunum bændanna, eru nú allt í einu orðnir glaðvakandi, þegar þeirra eigin hagsmunir um þingsetu eru í veði og reikningsskilin frammi fyrir bændum framundan. Í frv. frá Þorsteini Briem og Pétri Magnússyni, sem nú í nokkra daga hefir legið fyrir Ed., er nú allt í einu gengið inn á þá hugsun, að allir eigi að fá sama verð. Því er þó slegið föstu í þessu frv., að Mjólkurfélagssvæðið eigi eitt að sitja að markaðinum í Reykjavík. En bændur austan fjalls og í Borgarfirði eigi að fá verðjöfnun með skatti á fóðurbæti, háu verði á mysu og þurrmjólk og afganginn úr ríkissjóði. Kjarni málsins er þannig, að samkv. frv. Péturs Magnússonar og Þorsteins Briems eiga bændur á Mjólkurfélagssvæðinu að eiga Reykjavíkurmarkaðinn, með þeirri 8% verðjöfnun til bænda í Borgarfirði og austan fjalls, sem nú er. Mjólkurfélagsbændur eru því tryggðir með hátt verð. En svo eiga aftur bændur í Borgarfirði og á Suðurlandsláglendinu að eiga á hættu, hvort það tekst að fá verðjöfnunargjald handa þeim af mysudufti og fóðurbætistolli og tillagi úr ríkissjóði. Við framsóknarmenn viljum hinsvegar fyrst með hækkuðu verðjöfnunargjaldi fá jöfnuð fyrir alla bændur á verðjöfnunarsvæðinu og jafnframt afla verðjöfnunarsjóði tekna á þann hátt, sem ég hefi sýnt, og láta alla bændur á verðjöfnunarsvæðinu bera jafna áhættu af því, hvernig tekst að afla þessara tekna. Við viljum ekki, eins og PM og ÞBr fyrst tryggja Mjólkurfélagsbændurna alveg, en láta alla hina bændurna bera alla áhættuna af því, hvort tekst að afla tekna í verðjöfnunarsjóð. ÞBr, sem hefir skaðað bændurna um hundr. þús. kr. meðan hann var landbrh., með því að láta Jón Þorláksson fyrir hönd milliliðastéttarinnar eyðileggja fyrir sér hina eldri skipulagstilraun, og hefir sýnt mjólkurskipulaginu allan fjandskap, eftir að hann hrökklaðist frá völdum, og PM, hv. 2. þm. Rang., sem hefir orðið uppvís að því, að hafa tekið virkan þátt í mjólkurverkfalli, og hefir reynt að verja hið óverjandi sleifarlag í mjólkurstöð Reykjavíkur, sem var á góðum vegi með að eyðileggja mjólkurskipulagið til fulls, — þessir tveir herrar fá nú skyndilega óstöðvandi áhuga fyrir mjólkurskipulaginu, nú, þegar þeir hafa verið látnir vita um andúð og fyrirlitningu bænda á framkomu þeirra, — núna, þegar þeir hafa verið látnir vita, að það sé gagnslaust að koma aftur til bændanna og biðja um fylgi þeirra, þá kemur iðrunin og yfirbótin. Og nú segjast þeir skulu bæta fyrir þátttöku sína í mjólkurverkfallinu, ekki aðeins með því að þamba meiri mjólk, heldur skuli þeir líka þvinga alla til að eta mjólk í fastri fæðu, ef hún vill ekki fara fljótandi ofan í þá. Og þeir vilja lofa því, að jafnvel hver mysudropi skuli fara ofan í neytendur, og það fyrir verð svo hátt sem bændur biðja um.

Það er víst ekki ástæða fyrir kjósendur að efast um, að hér séu frelsaðir menn á ferð. um blátt áfram kunna sér engin læti í því, að vitna um frelsun sína. Af fyrstu gr. í frv. þessara frelsuðu manna má sjá, að þeir vilja láta öll mjólkurbúin greiða sama verð fyrir mjólkina. Hér er því tekin upp reglan úr frv. framsóknarmanna, sem sjálfstæðismenn hér á þingi og sjálfstæðisblöðin, áður en vitað var um kosningarnar, höfðu fordæmt með öllu. En svo nær þetta nú ekki lengra, ef betur er að gáð. Og reglan í frv. okkar framsóknarmanna er hin eina færa leið, til að jafna milli bændanna því verði, sem fæst fyrir mjólkina og mjólkurafurðirnar á hverjum tíma, eftir því sem fært þykir. Frv. okkar er byggt upp með það fyrir augum, að knýta hagsmuni allra mjólkurframleiðenda á verðjöfnunarsvæðinu saman með sömu réttindum, sömu skyldum, sömu áhættu og sömu ágóðavon. Svo langt þora hinir nýfrelsuðu ekki að stíga; þeir lifa auðsjáanlega ennþá í þeirri trú, að félögin vestan heiðar eigi mjólkurmarkaðinn í Reykjavík og eigi að ráða yfir honum og hirða það, sem hann gefur af sér. Þeir halda, að fyrir kosningarnar sé nóg að segja við bændur á suðurláglendinu og í Borgarfirði: Þið eigið að fá sama verð og bændur í Reykjavík og grennd. En Þorsteinn Briem og Pétur Magnússon eiga eftir að gera grein fyrir því, hvort þetta sé raunverulega framkvæmanlegt eftir þeirra frv. Í frv. segir, að bændur vestan heiðar eigi að hafa mjólkurmarkaðinn með sama verðjöfnunargjaldi og verið hefir, en bændur austan fjalls og í Borgarfirði eiga að mynda sér verðjöfnunarsjóð sjálfir með því að selja dýrt mysu og undanrennu frá mjólkurbúum sínum. Ég hefi aldrei verið í neinum vafa um það, að tollur á fóðurbæti, sem yrði tekinn af bændum með annari hendi, en réttur að þeim með hinni, yrði ekki nema lítil upphæð, vegna minnkandi innflutnings á erlendum fóðurbæti, og þess vegna hrekkur þetta mjög skammt. Um sölu á mysu, undanrennu og mjólkurdufti liggur hér fyrir frv. frá hv. þm. Hafnf., Emil Jónssyni, og verður það sjálfsagt tekið til greina, eftir því sem fært er, undireins og mjólkursölunefnd hefir rannsakað það til fulls, en það er ekki til neins, að færa mönnum neinar gyllivonir um, að þessi framleiðsla geti gert meira en tekið við nokkrum hluta af þeirri stórkostlegu aukningu á mjólkurframleiðslunni, sem hlýtur að vera á næstunni, bæði á Suðurlandsundirlendinu og ekki sízt Borgarfirði vegna sauðfjárpestarinnar. Þorsteinn Briem og Pétur Magnússon eru líka auðsjáanlega vantrúaðir á það, að bændur geri sig ánægða með loforð mu gott verð á mysu og gjald af fóðurbæti sínum eingöngu. Þess vegna eru ákvæði um það í frv., að það, sem á vantar, og það verður vitanlega megnið af allri upphæðinni, skuli greitt úr ríkissjóði. M. ö. o. það á að stefna að því, að öll verðuppbótin og meginverð mjólkurinnar til bændanna á Suðurlandsláglendinu og í Borgarfirði verði greitt úr ríkissjóði. Og þetta bera þessir herrar á borð líka fyrir þann hluta bændastéttarinnar, sem býr utan við verðjöfnunarsvæðið, utan við beztu markaðsskilyrðin, — þeir virðast eiga að bera hluta af tollinum á fóðurbætinn, og þeir eiga enga ríkissjóðsuppbót að fá, þótt þeir séu að berjast við að framleiða mjólk við miklu verri skilyrði. Þessa stórkostlegu þjóðnýtingarhugmynd á allri mjólkurframleiðslunni á verðjöfnunarsvæðinu bera þeir nú hér fram, hv. 10. landsk. og hv. 2. þm. Rang., sömu mennirnir sem ekkert tækifæri láta ónotað til að lýsa andúð sinni á þjóðnýtingarstefnunni og stöðugt eru að tala um hinn tóma ríkissjóð og hina þungu skatta. Hvar og af hverjum á að taka skatta í þennan tekjuhallarekstur? Á að taka þá af bændum, sem eru utan við verðjöfnunarsvæðið og búa við lakari markaðsskilyrði? Á að taka þá af sjálfum bændunum á verðjöfnunarsvæðinu? Eða á e. t. v. að taka þá af sjávarútveginum, sem sjálfstæðismenn bera nú fram kröfur um, að sé létt af sköttum, svo skiptir þúsundum króna, og sé varið stórkostlegum fjárhæðum til úr ríkissjóði, svo að maður ekki tali um tillögur jafnaðarmanna um framlög ríkisins til sjávarútvegsins.

Það virðist þá vera komið svo hér á Alþ. núna fyrir kosningarnar, að boðið er upp á það annarsvegar, að reka landbúnað með þjóðnýtingu á kostnað sjávarútvegsins, og sjávarútveginum hinsvegar boðið upp á fjárframlög og þjóðnýtingu á kostnað landbúnaðarins. En það er algerlega þýðingarlaust að bera svona tylliboð á borð fyrir íslenzka bændur, og það jafnvel þótt mennirnir, sem bera það fram, hefðu ekki sína ljótu fortíð í mjólkurmálinu. en þeim, sem þá fortíð þekkja, getur enganveginn dulizt, hvað hér er á ferð. Og bændur hér á suðurláglendinu og í Borgarfirði munu heldur ekki láta þessi kosningafrv. ÞBr og PM, fram borin á síðustu dögum þingsins, villa sér sýn. Frá hinum aðgerðalausa uppgjafalandbrh. frá 1933 og frá mjólkurverkfallsmönnum í Reykjavík munu þeir engra gagnlegra úrræða vænta. Þeir munu skipa sér saman um það frv., sem hér liggur fyrir og fram er borið af þeim mönnum, sem á undanförnum árum hafa staðið með núverandi mjólkurskipulagi og borið það fram til sigurs. Undir framgangi þessa frv. er það komið, hvort bændur í Borgarfirði, Árnessýslu og Rangárvallasýslu geta haldið áfram eðlilegri aukningu framleiðslu sinnar á næstu árum. Framsfl. mun standa með bændum í þessu mikla hagsmunamáli þeirra, eftir því sem hann hefir orku og vald til. Og við framsóknarmenn vitum, að bændurnir muni standa með sínum eigin málstað.