19.04.1937
Neðri deild: 43. fundur, 51. löggjafarþing.
Sjá dálk 472 í C-deild Alþingistíðinda. (1742)

84. mál, sala mjólkur og rjóma o. fl.

*Atvmrh. (Haraldur Guðmundsson):

Herra forseti! Ég heyrði á ræðu hæstv. forsrh. nú síðast, að hann hefir enn ekki gleymt mjólkurverkfallinu, hvernig það var rekið og hverjir að því stóðu, en hann verður að afsaka mig, þótt ég láti það fylgja með, að ég hélt, að hann væri búinn að gleyma því, og veldur þar margt um. En ég vil láta ánægju mína í ljós yfir því, að hann er þó þetta minnugur ennþá. Ég man eftir því, að ráðleggingar voru um það í Morgunblaðinu, að ágætt væri að nota ýsusoð í stað mjólkur og að grábland væri bezti matur, að mjólkin, sem samsalan seldi, væri hreinasta samsull og að börnin í Reykjavík væru í hættu, fyrir það, að þau gætu ekki fengið Korpúlfsstaðamjólk, og fleira slíkt, sem kom fram í þessu sambandi. En þótt hæstv. forsrh. sé svo minnugur á þessa hluti, eins og ég heyrði, að hann er, sem sé afstöðu Sjálfstfl. og ýmissa hans mætustu manna til mjólkurskipulagsins, þá held ég, að hann sé ekki eins minnugur á, hverjum það var að þakka, að mjólkurverkfallið og allt það brölt sjálfstæðismanna endaði þann veg, sem það gerði — þeim sjálfum til minnkunar. Ef hæstv. forsrh. er búinn að gleyma þessu, þá ætla ég að minna á, hverjum það var að þakka. Það var fyrst og fremst að þakka verkamönnum, sjómönnum og almenningi þessa bæjar yfirleitt; þeir stóðu saman um þetta nýja skipulag og létu ekki á sig fá, þótt það væri rógborið, en voru vissir um, að lögin myndu koma að gagni. Þeir voru vissir um, að jafnframt því, að þeir hjálpuðu bændum til að fá verð fyrir sínar afurðir, væru þeir að styðja sjálfa sig. Ég vildi því óska, að hæstv. forsrh. væri einnig ríkt í huga, hverjir björguðu mjólkurverkfallinu.

Ég sé á skýrslu yfir mjólkurframleiðslu í grg. þessa frv., að mjólkurframleiðsla á verðjöfnunarsvæðinu hefir verið 11,7 millj. lítra árið 1936, og af því mun hafa verið selt hér í bænum 5 millj. lítra, auk þess sem gengur í gegn um samsöluna. Í þeim umr., sem hér hafa farið fram, virðist bera mikið á því, að flm. þessa tveggja frv. sjái ekki aðra leið út úr vandræðum bænda en að auka verðjöfnunargjaldið beint eða óbeint, en hækkun verðjöfnunargjalds hefir óhjákvæmilega í för með sér, að verð mjólkurinnar verður að hækka. Ef hver íbúi Reykjavíkur notar sem svarar hálfum lítra mjólkur í mál, sem mun vera hæfileg mjólkurneyzla, þá þurfa Reykjavíkurbúar um 12½ millj. lítra á ári, og þá þarf um 1 millj. lítra meiri mjólk á dag en framleitt er á verðjöfnunarsvæðinu, auk þess sem framleitt er í Reykjavík og nágrenni hennar. Mér finnst því, að það, sem fyrst og fremst beri að athuga, sé, hvernig hægt er að koma neyzlumjólkinni í verð. Það mun reynast bændum drýgst. En bezta leiðin til þess mun vera sú, að mjólkin sé góð og holl og verð hennar sambærilegt við verð á öðrum matartegundum, svo að hún sé vel kaupandi. Ég vil minnast á það í þessu sambandi, að ég hefi átt tal við mann um þessi mál, sem þekkir vel til þeirra ráðstafana, sem gerðar hafa verið í öðrum löndum í þessu efni. Ég vil nefna eina hugmynd, sem hann skaut fram. Hún er sú, að hafa mismunandi verð á mjólkinni eftir því, hver kaupandinn er. Hverjir þarfnast mjólkurinnar mest hér? Jú, það eru stóru og barnmörgu heimilin, sem hafa úr litlu að spila. Þau geta ekki keypt mikla mjólk, nema að hún sé miklu ódýrari, en þá geta þessi heimili aukið stórum mjólkurkaup sín. En allt hvað mjólkur verð er hærra en það, sem þarf í vinnulaun, er það vinningur fyrir framleiðendur, að selja við því verði. Víða kaupa barnaskólar mjólk handa börnunum, og þar vil ég láta athuga, hvort ekki er hægt að semja um sérstakt verð á mjólkinni, sem börnin fá þar. Í Rauðku er stungið upp á vinnslu þurrmjólkur, og sú hugmynd er tekin upp í frv. sjálfstæðismanna. að setja á stofn þurrmjólkurverksmiðju. Einnig hefi ég heyrt, að menn geti nú keypt föt, sem unnin eru úr ítalskri mjólk. Hvernig þeirri framleiðslu er háttað, veit ég ekki, — hvort hún borgar sig nema í svo stórum stíl, að við getum ekki hagnýtt okkur hana, en sjálfsagt er að athuga þetta.

Menn tala um það sem vandræði, að mjólkurframleiðsla hafi aukizt um 83%. Ég endurtek, að hagur bænda hefir batnað fyrir aðstoð Alþfl. við aukna mjólkurframleiðslu. En hitt er augljóst, að það væri að skapa sér hlekk um háls að ætla að auka verðjöfnunargjaldið; það myndi leiða til hækkaðs verðs á neyzlumjólk og þá myndi salan minnka. Það, sem gera þarf, er að auka söluna til fólksins, en vinna svo úr því, sem eftir verður og fært þykir að vinna. Alþfl. studdi mjólkurlögin með tvennt fyrir augum. Annað var að fyrirbyggja það heimskulega stjórnleysi, sem var á þessum málum, eins og það, að mjólk til neyzlu var flutt um langan veg, en mjólk þeirra framleiðenda, sem voru rétt við bæinn, var sett í vinnslu, gerð að ostum og skyri. En sjálfsagt er að nota þá mjólk, sem mest er til neyzlu, en hina, sem fjær er framleidd, til vinnslu. Ef mjólkurlögin hefðu ekki verið sett, eru líkur til, að vissa hluta ársins hefði streymt svo og svo mikið af ódýrri mjólk á markaðinn og mjólkurverð lækkað hér í Reykjavík um tíma. Það hefði að vísu verið vinningur fyrir þá, sem mest spara við sig af mjólk. En alþýðuflokksmenn settu þetta ekki fyrir sig. Þeir sáu nauðsyn þess, að bændur fengju gott verð fyrir sínar afurðir, og töldu sér hag í því, að styðja þannig að því, að bændur þyrftu ekki að flosna upp frá búum sínum. Í raun og veru er það svo, að með mjólkurlögunum hafa sjómenn og verkamenn tekið á sig hærri skattgreiðslur, til þess að bændur fái hærra verð fyrir vöru sína. Enda er það líka hagur kaupstaðanna, að bændur geti haldið áfram framleiðslu sinni og þurfi ekki að flytja til kaupstaðanna, og bezta trygging bænda fyrir því, að þeir geti haldið sínum bústofni, er, að hagur kaupstaðarbúa sé það góður, að þeir geti keypt vörur þeirra, Ég verð að segja, að mér urðu það vonbrigði, hvernig þeir menn, sem telja sig málsvara bænda hér á Alþ., hafa tekið þeim frv., sem við alþýðuflokksmenn höfum lagt fram um viðreisn sjávarútvegsins. Það er óendanleg skammsýni, því að með því eru þeir að gera mjólkurlögin og kjötsölulögin gagnslítil eða gagnslaus fyrir bændur. Ágreiningur sá, sem risið hefir á milli Alþfl. og Framsfl., stafar ekki af því, að Alþfl. hafi neitað að fylgja hagsmunamálum sveitabændanna. Hann stafar af því, að fulltrúar bænda, sem kalla sig framsóknarmenn, hafa neitað á sama hátt að viðurkenna nauðsyn og þörf manna, sem eiga afkomu sína undir sjávarútveginum. Þeir hafa neitað að styðja frv. okkar og spilla með því í raun og veru afkomu bændanna, sem þeir þykjast bera fyrir brjóstinu. Þeir eru með því að rýra kaupgetu mannanna, sem kaupa mjólk og kjöt, sem bændurnir framleiða.

Ég skal ekki hafa þessi orð mín fleiri, Ég býst við, að þetta verði í siðasta sinn, sem ég tala í útvarp frá Alþ. að þessu sinni, og vil ég að lokum beina þeim orðum til allra, sem mál mitt heyra, að nú, þegar dregur að kosningum og kjósendur eiga að leggja sinn úrskurð á þau mál, sem rædd hafa verið hér undanfarna daga, vil ég biðja ykkur að vera þess minnug, að þingrof, sem nú stendur fyrir dyrum, stafar ekki af því, að Alþfl. sé óvinveittur málefnum sveitanna, heldur af því að Framsfl. vill ekki taka tillit til réttlátra krafa þeirra, sem við sjóinn búa. Við kosningarnar verður kosið um þau viðreisnarfrv., sem Alþfl. hefir borið fram. En það eitt er víst, að hvort sem menn búa við sjó eða til sveita, þá styðja þeir sín málefni bezt með því að kjósa þann flokk, Alþfl., sem mest og bezt berst fyrir heill almennings. Að lokum vil ég segja við ykkur alþýðuflokksmenn: Heilir hildar til, — og býð góða nótt.