19.04.1937
Neðri deild: 43. fundur, 51. löggjafarþing.
Sjá dálk 475 í C-deild Alþingistíðinda. (1743)

84. mál, sala mjólkur og rjóma o. fl.

*Pétur Ottesen:

Herra forseti! Góðir hlustendur! Hæstv. atvmrh. hélt, að starfsbróðir hans hæstv. forsrh., væri alveg búinn að gleyma mjólkurverkfallinu. Ég er dálítið hissa á þessu, svo lengi sem þessir menn hafa sveitzt blóðinu saman í þessum erfiðu stöðum þarna í hvíta húsinu. í stjórnarráðinu. En af öllu því, sem hæstv. forsrh. hefir haft til brunns að bera í þessu mjólkurmáli og borið fram — þá er það fyrst og síðast mjólkurverkfallsmálið. Það er sá atburður, sem hann hyggst að nota til þess að þvo sínar saurugu hendur í þessu máli. Af hverju varð mjólkurverkfallið? Af því að hæstv. landbrh. hélt verndarhendi yfir starfsemi þeirra manna í mjólkurmálinu, sem fóru svo hatramlega að ráði sínu, að friðsamir borgarar þessa bæjar urðu til þess að fá nokkura réttingu á þessum málum, að grípa til þessara örþrifaráða. Það er hæstv. landbrh. fyrst og fremst, sem ber ábyrgðina á þessu mjólkurverkfalli. Ef hann hefði ekki farið svo að ráði sínu sem hann hefir gert með því að virða að vettugi óskir bænda um það, að þeir mættu sjálfir hafa framkvæmd mjólkursölunnar með höndum, þá hefði aldrei komið til þessa mjólkurverkfalls. Það er þess vegna sektarmeðvitund þessa annars óviðkvæma ráðh., sem knýr hann út á þann hála ís, að tala um mjólkurverkfallið. Ég býst nú við því, að formaður Sjálfstfl., sem talar hér á eftir mér, muni nokkuð víkja að ummælum hæstv. forsrh., að því leyti sem ræða hans beindist að Sjálfstfl. í sambandi við þetta mál, En af því að hæstv. forsrh, gerðist svo djarfur, að minnast á það hermdarverk, sem hann vann, þegar hann tók mjólkurvinnslustöðina leigunámi í sumar, þá vil ég segja honum, að ég undrast, að hann skyldi minnast á það, vegna þess, hvaða verknaður þetta var, og ekki síður undrast ég þetta fyrir það, hvaða útreið hann fékk í hv. Ed. hér á dögunum út af þessu máli, því að slíka útreið hefir enginn þm., hvað þá heldur ráðh. fengið, þar sem hann var staðinn að skjalafölsun og ósannindum. Og svo langt var gengið í þessu efni, að innflutningsn. þorði ekki að láta af hendi gögn til upplýsinga í málinu, af því að hún óttaðist, að með því yrði komið upp lygum landbrh, Þannig er opinber stofnun höfð til þess að halda gögnum fyrir mönnum til þess að dylja svívirðingar valdhafanna í landinu. Jafnframt því, sem hæstv. landbrh. greip til þessara ráða, bar hann þær svívirðingar á bændur, að þeir hefðu svikið mjólkina til þess að gera samsölunni erfitt fyrir. Slíkar aðdróttanir gagnvart íslenzkum bændum hafa aldrei fyrr verið bornar fram, og enginn ráðh. hefir komizt nálægt því svona djúpt ofan í skarnið eins og þessi ráðh. í því, að kasta óþverra að íslenzkri bændastétt með blekkingum sínum, — þessi ráðh., sem telur sig þó alveg sérstaklega vera forsvarsmann þess flokks, sem styðst við fylgi bænda í þessu landi. Svona er innræti þessa ráðh. En það er gott fyrir alla, og ekki sízt bændur, að geta kynnzt hans innra manni sem allra bezt.

Út af því, sem hér hefir fram komið um þá gagnrýni af hálfu Sjálfstfl. og afstöðu hans, sem fram hefir komið gagnvart þessu frv., sem hér liggur fyrir til umr., og þeirri lausn, sem þarf að fást á þessu máli, vil ég segja, að það hefir verið skýrt af hv. þm. G.-K., hvert það leiðir fyrir mjólkurframleiðendur, ef farið verður inn á þá braut, sem í frv. er gert ráð fyrir, að jafna verðið með þeim hætti, að það jafnist alltaf niður á við, þannig að eftir því sem framleiðslan vex á mjólkinni, eftir því lækki verðið, sem fyrir hana fæst. Og ef þær vonir manna rætast um aukna framleiðslu mjólkur hér á landi, sem tengdar eru við stofnun nýbýla í landinu, þá er ekki vafi á því, að þess verður ekki langt að bíða, að verðið með þessum hætti lækki svo á mjólkinni, að eigi verði við unað fyrir bændurna. Á þetta hefir verið bent. Og þarna kemur fram skammsýni þeirra manna, sem að þessu frv. standa. Þá er munur á frv. því, sem flutt var í Ed. af þeim hv. 2. þm. Rang. og hv. 10. landsk., því að eftir ákvæðum þess á að vera hægt að standa í þessum efnum á þeim grundvelli, sem við stöndum á nú, a m. k. um mjólkurverðið, þannig að það þurfi ekki að lækka frá því, sem það nú er, og þyrfti ekki að leiða af ákvæðum þess sú röskun, sem samkvæmt þessu frv. yrði að koma fram gagnvart vissum svæðum, sem ég vík að síðar. Það felst ekkert í umbótaátt í þessu frv. annað en það, sem yrði að grípa til, áður en langt liði. Ef þetta frv. verður lögfest, sem hæstv. landbrh. og hv. þm. Mýr. hafa verið að halda hér langar lofræður um, þá má það vera öllum ljóst, bæði bændum og öðrum, sem byggja framtíð sína á mjólkurframleiðslu, að í frv. þessu felst ekkert framtíðarskipulag. Og úr því svo er, þá er það ekkert áhorfsmál, að taka heldur það skipulagið í þessu efni, sem sýnilega leiðir til beztrar úrlausnar í þessu máli fyrir framtíðina, en vera ekki að taka það millispor, sem í þessu frv. felst, en ekki getur leitt til nokkurrar framtíðarlausnar á málinu, heldur hinsvegar þess umróts, sem hv. þm. Mýr. kom inn á og varð að viðurkenna, þar sem hann gerði ráð fyrir því, að stofna yrði sérstakan kreppulánasjóð handa bændum í námunda við Reykjavík og í nærsveitum Reykjavíkur, til þess að bjarga þeim bændum, sem kæmust á vonarvöl, þegar farið yrði að framkvæma þetta nýja skipulag. Það er þess vegna engin stefnubreyt. hjá sjálfstæðismönnum, sem kemur fram í þessu. Síður en svo. Því að það var einmitt á þetta minnzt hér í hv. Nd., þegar frv. þetta var til 1. umr., að eftir þessari leið, sem tekin er fram í frv. þeirra hv. 2. þm. Rang. og hv. 10. landsk., ætti að fara til að bæta úr því öngþveiti, sem þessi mál nú eru sýnilega að komast í. Og það var nú svo, að hv. flm. þessa frv., og þar með hv. 1. þm. Árn., tóku vel í að athuga líka þessa leið. Og ég ætla, að það hafi þá runnið upp fyrir hv. 1. þm. Árn., eins og líka vænta mátti, að þarna væri úrlausn, sem ekki einasta stæði ekki stefnu þessa frv., sem hér liggur fyrir, að baki, heldur væri miklu líklegri til góðrar niðurstöðu til úrlausnar í málinu heldur en ákvæði hans eigin frv. En svo fer hæstv. landbrh. smánarorðum um þessa till. þeirra hv. 2. þm. Rang. og 10. landsk., sem þó vitanlega á sínum tíma verður til þess að bjarga málinu, þegar Alþ. hefir rótað svo til í sínum sölum, að hér eru komnir menn, sem vit hafa á að lögfesta þær till., sem beztar eru fyrir framtíðina í þessu efni. Og þess er að vænta, að eftir næstu kosningar verði þá hér þannig umhorfs, að þá verði valin hin skynsamlegasta leið til þess að leysa úr þessu máli.

Hv. þm. Mýr. var í byrjun sinnar ræðu nokkuð líkur þeim fola, sem fer geyst af stað og er framhár, en afturlágur, Honum ferst illa, þeim hv. þm., að tala um, að menn geri sig seka um hringlandahátt í þessu máli. Hver hefir hringsnúizt í mjólkurmálinu, ef ekki hann? Hvað oft er hann búinn að breyta á móti sinni sannfæringu í þessu máli, þegar hæstv. landbrh. andar á hann? Á Alþ. 1935 hafði þessi hv. þm. tekið afstöðu með till., sem ég og hv. þm. G.-K. bárum fram. Þegar hv. þm. Mýr. svo bara sá framan í ráðh., þá rann hann á augabragði frá sínum eigin till. og laut ráðh. Þegar hann svo fer að tala um hringlandahátt hjá öðrum, þá ætti hann ekki að kasta steinum úr glerhúsi, vildi ég mega segja við hv. þm.

Þá hafa þeir smjattað mjög á því hér, hv. þm. Mýr. og hæstv. landbrh, ekki síður, að með till. þeim, sem felast í frv. þeirra hv. 2. þm. Rang. og hv. 10. landsk., væri verið að fara inn á ríkisrekstur. Þetta hafa þeir dregið út með töngum úr því ákvæði, sem í frv. stendur, að ríkið í einstökum tilfellum gæti hlaupið undir baggann. En eins og þessi verðjöfnunarsjóður er byggður upp samkvæmt þeirri tekjuöflunarleið, sem þar er gert ráð fyrir, þá er ekki líklegt, að til þess þurfi nokkurntíma að koma. Og ef til þessa þarf að koma, þá væri hægt að setja inn í frv. ákvæði um, að slík hjálp væri endurgreidd af þessum tekjum. Svo að þessi hvalablástur hér í útvarpinu út af þessu, er barasta út í loftið. En það má benda á annað í þessu sambandi, sem þessum mönnum flökraði ekki við og ekki hefir verið talað um, að væri nein þjóðnýting, og það var sá styrkur, sem af alþ. var veittur úr ríkissjóði sem uppbót á kjöt. Ætla ég þó, að það sé meira mál heldur en þessi styrkur, þó að frv. væri samþ. Hefir enginn talað um, að kjötuppbótin væri nein þjóðnýting. Þvert á móti hefi ég heyrt ýmsa framsóknarþingmenn hæla sér af því á hvert reipi, og enga meira en hv. þm. Mýr. og hæstv. landbrh., að hafa komið því til vegar, að sá styrkur var veittur. Svona er samkvæmnin og samhengið í þessu óskaplega rausi þeirra.

Hv. þm. Mýr. var eitthvað að tala um það, að sjálfstæðismenn og sósíalistar ættu helzt samleið í þessu máli. Já, hv. þm. er nú undir kosningarnar farinn að gleyma þeirri innilegu flatsæng, sem hann hefir legið í með sósíalistum, sem hefir leitt til þess, að þeir hafa komið í framkvæmd miklu af kenningum sósíalista um verzlun og annað, svo sem ýmis konar höft á atvinnuvegum manna í þessu landi. Og það er nú reyndar svo, að þessu innilega sambandi er ekki slitið, því að hvaða leið vilja þeir fara hv. þm. Mýr, og sósíalistar? Hv. þm. Hafnf. vill lækka útsöluverð mjólkurinnar. Hv. þm. Mýr. kom einnig inn á það áðan, að hann vildi lækka mjólkurverðið til framleiðendanna. Hann talaði jafnvel um að takmarka mjólkurframleiðsluna. Þannig var nú stórhugur þessara hv. þm. í velferðarmálum landbúnaðarins, að þeirra ráðstafanir eiga að vera til takmörkunar á útfærslu landbúnaðarins, hvað snertir mjólkurframleiðsluna. Það kvað þó nokkuð við annan tón hjá hæstv. landbrh., þegar hann talaði og breiddi sig út yfir þetta mál. En sannleikurinn er sá, að ef þessar till. hv. þm. væru samþ., þá mundi það leiða til þess að takmarka þessa framleiðslu og þá vitanlega afkomumöguleika landbúnaðarins að því leyti sem hann byggist á mjólkurframleiðslu.

Hv. þm. Hafnf. fylltist öfundarkenndrar vandlætingar út af því, að í frv. þeirra hv. 2. þm. Rang. og hv. 10. landsk. væri farið fram á skatt á aðfluttar kjarnfóðurvörur til þess að leggja í verðjöfnunarsjóð fyrir mjólkurframleiðsluna. En þessi sami hv. þm. hefir, án þess að hneykslast, flutt sjálfur frv. á þessu þingi um að leggja skatt á aðfluttar vörur, sem á svo að nota á ýmsan hátt, en ekki á að hans till. einn eyrir af því að koma til góða fyrir bændur. Og þessi hv. þm. hefir ekki verið hneykslaður yfir því, að nær á hverju þingi hafa verið lagðir á nýir skattar á skatta ofan á aðfluttar vörur. Það er nú naumast hægt að benda á nokkra vöru, sem ekki hefir verið skattlögð mikið á þessum tíma, sem sósíalistar og framsóknarmenn hafa stjórnað. En af því að þessi skattur átti að koma til hagnaðar landbúnaðinum, mátti ekki nefna þetta.

Það er þá rétt að athuga dálítið afstöðu sósíalista til landbúnaðarins og lýsa þeirra eigin framkomu í þeim efnum. Í þeim útvarpsumr., sem fram hafa farið hér undanfarið, hafa bæði hv. 9. landsk. og hæstv. atvmrh. verið að gorta af því, að sósíalistar vildu veita stuðning við þær ráðstafanir, sem gerðar verða til þess að hefta útbreiðslu borgfirzku veikinnar í sauðfé. En hvað sagði fulltrúi þeirra sósialista í landbn., þegar hann talaði um þetta mál hér á dögunum? Hann sagði, að hann gengi í lið með okkur hinum í n. um þetta með samvizkunnar mótmælum. Hann sagðist ekki geta forsvarað það fyrir sjálfum sér að veita þessa hálfu milljón til þessa málefnis. Ég hefi ekki séð neinn annan þm. velta vöngum yfir því, hvort ætti að veita styrk til þess að hefta útbreiðslu þessarar voðaveiki til þess að varna því, að hún leggi í rústir landbúnað manna í heilum héruðum. Sama máli var að gegna, þegar hv. 2. þm. Reykv. var að hamast yfir því hér á dögunum — og þótti vald sitt yfir Framsfl. ekki vera jafnmikið og það hefði lengi áður verið —, að nú væri orðið nokkuð mikið frelsið í Búnaðarfélagi Íslands, þegar því hafði tekizt að brjóta af sér þann fjötur, sem sósíalistar og framsóknarmenn höfðu sett á það með jarðræktarl. á síðasta þingi. Þannig var nú hugur hv. 2. þm. Reykv. út af þessu máli. En hvað ætli Héðinn Valdimarsson segði, ef ætti að setja slíkan fjötur á Alþýðusamband Íslands? Þá er ég hræddur um, að mundi nú blása út á honum hanakamburinn.

Eina ráðið, sem fulltrúi sósíalista í þeirri n., sem á að vera sérstakur velunnari landbúnaðarins, nefnilega landbrh., — eina ráðið, sem þessi fulltrúi sósíalista þar sér til hjálpar bændum í sambandi við mjólkurmálið, það er að lækka útsöluverðið. Hann hefir þegar komið á einni mjólkurlækkun í þessu efni. Nú vill hann meiri lækkun. Það er bezt að athuga þetta dálítið með hliðsjón af því, hvernig viðhorfið er um þessa hluti. Þeir vilja lækka mjólkurverðið, sósíalistarnir. En í því sambandi er rétt að líta á það, að hér í Reykjavík er mér sagt, að tímakaup sé 1,36 kr. Þær kröfur, sem sósíalistar gera nú um kaupið, eru, að það hækki upp í 1,87 kr. á klst. En eftir þessum kröfum, ef þær næðu að ganga fram, gæti dagkaupið orðið miklu hærra en eftir núgildandi taxta, því að þetta 1,87 kr. tímakaup miðast í kröfum sósíalista við það, að vinnudagurinn sé 8 klst., þannig að fyrir eins til fjögurra klst. vinnu séu borgaðar ca. 7,50 kr., sem er sama sem 1,87 kr. á klst. í 4 tíma, en fyrir 5 klst. vinnu til 8 klst. vinnu séu borgaðar ca. 15 kr. Fyrir 5 tíma vinnu ætti eftir þessum kröfum að borga 15 kr., eða sama sem 3 kr. á klst. Nú hafa verið haldnir búreikningar á nokkrum stöðum á landinu undir handleiðslu Guðmundar Jónssonar, kennara á Hvanneyri. Þeir, sem hafa haldið þá, eru nálægt 20 menn úr 8 sýslum á landinu. Hvað kemur þar í ljós um það kaup, sem þessir bændur bera úr býtum fyrir sína vinnu? Þeir fá fyrir sína vinnu sem meðalkaup á hverja vinnustund 46 aura um tímann. Nú ætlar hv. þm. Hafnf. og aðrir sósíalistar að fara að lækna meinsemdir landbúnaðarins með því að lækka mjólkurverðið, sem þýðir sama sem að lækka þetta 46 aura tímakaup, samtímis því sem þeir fara fram á kauphækkun til annara borgara þjóðfélagsins. Þarna er umhyggju hv. sósíalista fyrir landbúnaðinum alveg rétt lýst. Það hefir lítið skort á, að þeir hafi mælt hvorir öðrum, framsóknarmenn og sósíalistar, fyrir þá sameiginlegu umhyggju, sem þeir hafi borið fyrir velferð bænda, á því kjörtímabili, sem nú er að renna út. Og sósíalistar gera þetta áreiðanlega með ráðnum hug, ekki aðeins til þess að afla sér kjörfylgis, heldur líka til þess að afla Framsfl. kjörfylgis. Þetta, sem slettst hefir upp á vinskapinn nú fyrir þessum flokkum, er ekkert annað en tilbúinn ágreiningur, en bak við er sama vináttusambandið; vináttan er bara grímuklædd. Því að sósíalistar geta ekki hugsað sér meira sæluástand í hinu pólitíska lífi en að geta notað Framsfl. og gert hann meðábyrgan um að knýja fram stefnumál sósíalista í verzlunarmálum og hvers konar höftum og hömlum á sjálfsbjargarviðleitni einstakra borgara í þjóðfélaginu.

Þetta er að slá 2 flugur í einu höggi með þessu skjalli og skrumi sósíalista um þetta.

Þessi ágreiningur milli stjórnarfl. er ekkert annað en tilbúningur, sem sést bezt á því, að þrátt fyrir allan þennan árekstur sitja ráðh. beggja fl. allir saman í ráðherrastólum. Nei. það skreppa ekki sessurnar undan þeim í ráðherrastólunum fyrir þennan ágreining, Þeir skilja ekki, ráðh., að borði og sæng, hvað þá að sterkari tengsl hrökkvi í sundur.

Hæstv. forseti sendir mér miða, sem á stendur, að minn ræðutími sé búinn, og býð ég því öllum hlustendum góða nótt.