19.04.1937
Neðri deild: 43. fundur, 51. löggjafarþing.
Sjá dálk 486 í C-deild Alþingistíðinda. (1748)

84. mál, sala mjólkur og rjóma o. fl.

Hannes Jónsson:

Hæstv. forsrh. gerði enga tilraun til þess að skýra, eftir að hann var búinn að ræða till. Péturs Magnússonar og Þorsteins Briems um aukatillög verðjöfnunarsjóðs, hvernig hann ætlaði að framkvæma það, sem hv. þm. Mýr. var búinn að segja, að væri stefnumið Framsfl., að koma á löggjöf til þess að auka tekjur verðjöfnunarsjóðs. Hvernig ætlar Framsfl. að, gera þetta, ef hann ætlar ekki að gera það með því, að láta einhverja aðra greiða það? Þetta á hæstv. ráðh. eftir að skýra, ef þá á ekki að skoða þessa þögn hans sem nýja yfirlýsingu hans um, að það, sem hv. þm. Mýr. var að segja, væri ekki annað en orðin tóm, orð sem aldrei ætti að framkvæma af flokknum.

Hv. þm. Hafnf. neitaði því ákveðið, að Alþfl. hefði nokkurntíma átt tal við hv. 2. landsk. um lyfjabúðina eða nokkuð því tilheyrandi. Því getur hver trúað, sem vill. Hver sem veit, hver afstaða sósíalista var í þessu máli og hverjar upplýsingar þeir gáfu á þingi um, hvernig fyrirkomulag lyfjaverzlunar ætti að vera, og hvernig ætti að breyta þar öllu, þegar þeir kæmust til valda, — hver sem þekkir þetta getur trúað þessum orðum hv. þm., ef hann vill. Ég trúi þeim ekki. Það er sannleikurinn í þessu máli, að hv. 2. landsk. hefir selt sig fyrir hagsmuni þess fyrirtækis, sem honum er nákomið.

Um afstöðu Bændafl. til mjólkursölulaganna er það að segja, að frá því fyrsta hefir það verið stefna hans, að vilja vinna að því, að bændur fengju í þessu efni fullan umráðarétt yfir allri stjórn og starfsemi þessa fyrirtækis. Þessi lög eru að öllu leyti undirbúin af n., sem fyrrv, stj. skipaði til að gera till. um þessi mál og semja frv. Aðalbreyt., sem á því voru gerðar, var það, sem Bændafl. hefir alltaf verið þyrnir í augum, en það var, að framkvæmdin skyldi að öllu leyti vera tekin úr höndum hænda og fengin sósíalistum í hendur, til þess að þeir gætu haft hagsmuni af því fyrir flokk sinn. Þetta var sú óhæfilega meðferð þessa máls, sem Bændafl. vildi fá breytt í annað og betra horf, Bændafl. hefir alltaf viljað berjast fyrir, að framleiðendunum væri tryggt framleiðsluverð fyrir afurðir sínar. En með því að haga löggjöfinni eins og þetta frv. ætlast til, er fyrirsjáanlegt, að eftir því sem mjólkurmagnið eykst, sem á markaðinn kemur, hlýtur verðið að lækka. En í frv. Péturs Magnússonar og Þorsteins Briems er reynt að ráða bót á þessu, og þar er það a. m. k. tryggt, að verðið fari ekki lækkandi frá því, sem nú er, a. m. k. lækkar það ekki á meðan ekki er hægt að lækka framleiðslukostnaðinn frá því, sem hann er nú. Þetta er stefna Bændafl. í þessu máli og öllum þeim málum, sem við koma bændastéttinni. Bændafl. mun aldrei vilja framselja frumburðarrétt bændastéttarinnar, — þann rétt að ráða málum sínum. Þeir eiga heimtingu á, að þeim sé tryggð sú aðstaða, að þeim verði endurgreitt kostnaðarverð vara sinna. Það er sú stefna, sem Bændafl. mun berjast ötullega fyrir, og hann mun ekki ljá lið sitt neinum þeim mönnum, hvaðan sem þeir koma, sem vilja draga þessi völd bændanna úr höndum þeirra. Þessu mega bændur landsins trúa, og þessu trúa bændur landsins, þrátt fyrir hvað sem hv. 2. landsk. segir.

Ég hefi skemmri tíma yfir að ráða en ég bjóst við. Það var gert ráð fyrir, að þessum umr. yrði skipt í fernt, en þær verða í þrennu lagi, það kemur til af því, að það hafa allir etið yfir sig nema ég. En þótt svo sé, þá gerir það ekki svo mikið til, og einum manni getur þetta orðið til nokkurrar huggunar. en það er hv. 2. landsk., því að hv. þm. S.-Þ. var að hvísla að honum hér í hliðarherbergi, eftir að ég hélt mína ræðu, hvort hann ætlaði ekki að svara því. Þá var eftir ein umferð, svo að ég gat svarað honum, en nú, meðan á þessari umferð stendur, situr hv. þm. S.-Þ. við hliðina á hv. 2. landsk. og þylur í eyra hans, og hann skrifar eins hart og hv. þm. S.-Þ. hvíslar. Það verður sjálfsagt góður matur, sem verður borinn á borð fyrir ykkur, hlustendur góðir, en ef ekki verður eitthvert sengjubragð að því, eftir að það kemur úr potti hv. 2. landsk., þá er ég illa svikinn.

Ég skal svo ekki hafa þessi orð fleiri. Ég er búinn með þann tíma, sem mér er skammtaður. Ég vænti þess, að allir kjósendur, hvar sem er á landinu, hafi veitt því eftirtekt, hvernig afstöðu hæstv. forsrh. hefir tekið til þessa máls. Hann hefir látið flokksbræður sína flytja þetta frv., sem á að gefa ykkur von um að fá aukna möguleika fyrir tekjuöflun fyrir verðjöfnunarsjóð, sem svo eigi að bæta þeim með, sem örðugast eiga með að nota Reykjavíkurmarkaðinn, en sjálfur tekur hann það aftur með því að flytja fram alla annmarka, sem hann getur hugsað upp, fyrir því, að hægt sé að afla þessara tekna, af því að það verður að taka það af öðrum. Þið getið því ekki búizt við, að sú löggjöf, sem hv. þm. Mýr. talaði um, geti komið. Þið verðið að taka þetta frv. eins og það er, leggja það við hliðina á frv. Péturs Magnússonar og Þorsteins Briems og velja svo um, hvort þið viljið heldur. Ég efast ekki um, hvernig val ykkar verður. Í trausti þess, að þið veljið þá menn fyrir fulltrúa ykkar við þessar í hönd farandi kosningar, sem eru reiðubúnir að fylgja þessu máli til sigurs, býð ég ykkur góða nótt, árna ykkur alls góðs, óska ykkur gleðilegs sumars. Verið þið sæl!