19.04.1937
Neðri deild: 43. fundur, 51. löggjafarþing.
Sjá dálk 488 í C-deild Alþingistíðinda. (1749)

84. mál, sala mjólkur og rjóma o. fl.

Magnús Torfason:

Ég hafði ekki búizt við, að ég þyrfti að taka aftur til máls. Ég þóttist hafa hagað þannig ræðu minni, að hún meiddi engan, og því síður hafði ég búizt við, að ég yrði að bera af mér sakir, maður, sem á að vera kominn á grafarbakkann, því að það hafa verið ómælt lög, að láta þá fara í friði.

Hv. ræðumaður Bændafl., sem vissulega er honum samboðinn, byrjaði á að segja, að enginn ágreiningur hefði verið í mjólkurmálinu milli mín og Bændafl. Nú get ég vitanlega ekki sannað, hvað milli okkar hefir farið í samtölum. en það vill svo vel til, að ég get vísað í blað Bændafl., Framsókn. Þar stendur skýrum orðum, að einmitt afstaða mín til þessa máls hafi orðið til þess, að þeir ætluðu að reka mig úr flokknum. Þetta er sannleikurinn í málinu, og ekkert annað.

Þá vildi sami hv. ræðumaður bera það á mig, að ég hefði verið keyptur af Alþfl. til að skipta um skoðun í þessu máli. Ég vissi ekki það, að þetta væri sérstakt mál Alþfl., en ég hélt, að það hefði verið mál Framsfl., svo að það hefði verið miklu nær, að hann hefði keypt mig en Alþfl.; þegar af þessari ástæðu er þetta bull og rakalaus ósannindi, eins og ræðumaður Alþfl., hv. þm. Hafnf., lýsti yfir. En vitanlega er slík yfirlýsing ekki talin nein sönnun af Bændafl.

Sannleikurinn er sá, að enginn maður úr Alþfl. né öðrum flokki nefndi neitt við mig um lyfjabúðina Iðunni, nema form, íhaldsflokksins, Ólafur Thors. Hann gekk um þvert gólf í þessum sal til mín og spurði mig, hvernig mér litist á, ef Sjálfstfl. bæri fram frv. um einkasölu á lyfjum. Ég sagði honum blátt áfram, að hann skyldi tala um það við form. Bændafl. Síðan hefi ég ekki heyrt neitt um þetta mál, og enginn maður hefir nefnt það við mig síðan. Þetta kom til tals á fundi við Ölfusá, sem ég boðaði til eftir að ég var knúður til að segja mig úr Bændafl. Þar átti ég orðastað við Svavar Guðmundsson og Jón í Dal, og urðu þeir þar alveg að láta í minni pokann, sem von var að.

Nú hefir þessi ræðumaður látið sér sæma, að taka það hér upp aftur, og ég skil nú ósköp vel, að hann hefir gert þetta. Hann hefir fyrr og síðar sýnt það, að hann er trúr þjónn Ólafs Thors, en það vita allir, að engum manni var verr við mjólkurlögin en einmitt þeim hv. þm., enda hefir hann lýst yfir hér á fundi, að þeir Korpúlfsstaðamenn töpuðu á mjólkurmálinu, og þá var það sjálfsagt, að hv. ræðumaður Bændafl. tæki það upp og fylgdi honum trúlega að þessu eins og öðru. Annars hefir hann haft það embætti á hendi að svívirða mig, hvenær sem hann getur komizt að því, án þess að ég hafi nokkurntíma sagt eitt einasta styggðaryrði til þessa manns, og get ég sagt ykkur ástæðuna til þess. Það er blátt áfram af því, að mér hefir verið það hreinn viðbjóður að eiga orðastað við þennan þm., og ég mundi telja það alveg þýðingarlaust að reyna að hafa nein áhrif á þennan hv. ræðumann Bændafl. til hins betra, því að það er satt, sem gamall orðskviður segir: Seint er afglapa að snotra. — Góða nótt!