02.04.1937
Neðri deild: 29. fundur, 51. löggjafarþing.
Sjá dálk 492 í C-deild Alþingistíðinda. (1757)

88. mál, atvinna við siglingar

*Páll Þorbjörnsson:

Hv. þm. Barð. gat þess í ræðu sinni, að á síðasta flokksþingi framsóknarmanna hefði verið gerð ályktun vegna sjávarútvegsmála og að frv. væri flutt í framhaldi af þeirri ályktun. Ég verð að segja, að mér kemur það dálítið spánskt fyrir sjónir, að þessi mikla óánægja og slæma reynsla af l. um atvinnu við siglingar, sem hv. flm. talar um, skuli ekki hafa komið fram annarsstaðar en á flokksþingi framsóknarmanna; þar sem sjávarútvegsmenn hafa með sér ýmsan félagsskap í hinum ýmsu verstöðvum, svo og Fiskifélag Íslands, furðar mig, að engin aths. skuli koma frá þeim félögum, heldur kemur umkvörtun frá flokksþingi framsóknarmanna. Það liggur við að mig gruni, að svipuð ástæða muni vera fyrir því, að þetta frv. er flutt, og sú, sem lá til flutnings till. til þál., sem hv. þm. Mýr. flutti á síðasta þingi og gekk í sömu átt, að skerða öryggi á sjónum, en hún var flutt vegna eins skips, sem Framsfl. telur skipta sig miklu, það er „skandalaskipsins“ Laxfoss. Mér þykir nokkuð hart, að þegar lög hafa verið sett fyrir 8 mánuðum um atvinnu við siglingar og þau byggð á reynslu, sem fengizt hefir af eldri lögum, sem búin voru að standa í nær 22 ár, og á reynslu nágrannaþjóðanna, að þá eigi eftir 8 mánaða reynslu að umturna lögunum vegna eins skips í flotanum. (BJ: Á þetta við frv.?) Já, en ég skal taka það fram, að mér þykir sennilegt, að hv. flm. viti ekki, hvaða ástæða lá til, að þetta mál kom inn á flokksþing framsóknarmanna. Ég þykist sjá, að hv. flm. hafi ekki verið einn í ráðum við samningu frv., því að það er kastað svo höndum að samningu þess, að ég er viss um, að hann hefir ekki samið það. Hann mun hafa tekið við því sömdu og ekki farið nægilega vel í gegn um það, en gengið út frá því, að það væri rétt, sem stendur í grg., að það ætti að létta undir með útveginum, lækka kröfur um mannahald og bæta úr þeim ágöllum, að ekki væri kostur nægra réttindamanna. En þetta er alveg skakkt. Frv. eykur stórkostlega kröfurnar, svo að eftir nokkur ár mundi mótorbátaflotinn verða í stökustu vandræðum með að fá yfirmenn á skipin. Þetta mun þó ekki hafa vakað fyrir þeim, sem samdi frv., en það er svo úr garði gert, að óvart verður afleiðingin sú, að þeir, sem hafa rétt til að vera skipstjórar, verða 15–20 á flotanum samanlagt, vegna þess, að ef frv. þetta yrði að lögum, eru þær kröfur, sem maður þarf að uppfylla til að verða skipstjóri, þessar:

Vera 36 mánuði á fiskiskipi, 18 mánuði á skipi yfir 75 sl. og 2 vetur á stýrimannaskóla í Reykjavík, Með þessu eru hin svokölluðu minni próf alveg þurrkað út, svo að í stað þess, að þeir, sem vilja verða yfirmenn á vélbátum, geta nú látið sér nægja nám um 3–4 mánaða tíma, verða þeir eftir þessu frv. að ganga 2 vetur á stýrimannaskóla í Reykjavík. Eftir að hafa lokið þar prófi, verða þeir að sigla í 18 mánuði á skipi yfir 75 rúmlestir, en það eru varla nokkur skip yfir 75 lestir, sem stunda samskonar veiðar og þessir menn ætla að stunda síðar meir. Ef þetta frv. verður að lögum, verða skipstjórar mótorbátaflotans að fá uppeldi sitt á fiskiskipum togaraflotans. Ágalli frv. er sá, að um leið og þurrkaðir eru út stýrimennirnir, þá er ekki gert ráð fyrir, hvernig menn eiga að geta orðið skipstjórar, því að í lögunum er gerð sú krafa, að skipstjórar hafi verið stýrimenn fyrst. Verði þetta frv. að lögum, er loku skotið fyrir, að hægt verði að fá formenn á vélbáta. — Flm. gat um í framsöguræðu sinni hina miklu erfiðleika, sem sjávarútvegurinn ætti við að stríða, og að ekki næði nokkurri átt að íþyngja honum með auknum kröfum um mannahald fram yfir það, sem aðrar þjóðir gerðu. Lögin um atvinnu við siglingar, sem samþ. voru á síðasta þingi og voru til umr. á 2 þingum eru ekki fyrstu lögin um þetta efni. Þau eru byggð á reynslu undanfarinna 22 ára og á reynslu nágrannaþjóðanna og þeim lagaákvæðum, sem þær eru nú að koma á hjá sér, og það mun alls ekki vera talið neitt happ fyrri sjávarútveginn, að dregið sé úr þeim kröfum um mannahald, sem lögin gera. Um vélstjóra á gufuskipum er svo stórt spor stigið aftur á bak, að skip Eimskipafélags Íslands eiga að hafa færri vélstjóra en krafizt var 1914.

Ég mun að sjálfsögðu ekki setja mig á móti því, að mál þetta komist til n., og býst ég við, að það verði sjútvn., en í henni eigum við hv. flm. báðir sæti, en annars vona ég, að frv. fái hægt andlát annað hvort í n. eða utan hennar.

Annars verð ég að segja viðvíkjandi því, sem hv. þm. sagði, að meiri kröfur væru gerðar hjá okkur um mannahald á skipum heldur en meðal þeirra þjóða, sem við eigum við að keppa um siglingar, hjá Norðmönnum, Dönum og Svíum, að ég held, að þetta sé ekki rétt hjá honum Hann sagði, að hjá okkur væri einum manni fleira bæði á þilfari og í vél heldur en á skipum hjá þessum þjóðum. Mér er kunnugt um, að Sameinaða gufuskipafélags skipin hafa nákvæmlega eins marga menn á þilfari og í vél eins og við á okkar skipum. Þar eru 3 vélstjórar og 3 stýrimenn. Ég skal ekki fullyrða, hverju dönsk löggjöf gerir ráð fyrir í þessu efni, En þetta félag, sem hefir reynslu af hinum erfiðu og hættulegu siglingum við Ísland, veit, að nauðsyn krefur þetta mannahald til þess að sæmilegs öryggis sé gætt.

Þá var hv. þm. að tala um þann aðbúnað, sem togaraútvegurinn íslenzki ætti við að búa hér í þessu þjóðfélagi og hinsvegar hjá Bretum. Sagði hv. þm., að vaxtakjörin væru 3—3½% þar, en hér hjá okkur 7—7½%. Og hann sagði, að íslenzkir togarar yrðu að greiða 10% toll af fiski á brezkum markaði, en brezkir togarar þyrftu þess ekki. Og mér skildist hann segja þetta til stuðnings því, að fækka þyrfti mönnum bæði á þilfari og í vél á ísl. togurum. Mér er kunnugt um það viðvíkjandi starfsmannahaldi á þilfari á togurum t. d., að það væri alveg sama, hvaða löggjöf yrði sett um það, hún mundi ekkert draga úr kostnaðinum við það. Það er alls ekki svo, að stýrimenn eða skipstjórar á togurum séu eins og einskonar stássstúlkur. Þeir vinna eins og aðrir skipverjar. Annar stýrimaður er raunverulega ekki annað en háseti. Hann gengur að verkum eins og hásetar og mun ekki hafa hærra kaup en hæsta netamannskaup. Þótt því löggjöfin færi að skipta sér af því, mundi slíkt ekki hafa nokkurn sparnað í för með sér fyrir útveginn. Það er nauðsynlegt fyrir togaraútgerðina að hafa á þilfari á togurum, auk fyrsta stýrimanns, 2 menn, sem hafa það mikla kunnáttu og leikni í störfum sínum, að þeir geta í viðlögum unnið verk stýrimanns, svo að þeim verður að borga það kaup, er þeir fá nú sem stýrimenn. Þess vegna kemur alveg í sama stað niður, hvort þeir heita beztu netamenn eða annar stýrimaður og bátsmaður. En viðvíkjandi því, sem hv. þm. Barð. sagði um vaxtakjörin, vil ég taka fram, að Alþfl. hefir flutt 2 frv. til stuðnings togaraflotanum. Vil ég þá, að þeir, sem standa að þessu frv., sem hér er til umr., sýni vilja sinn á því að reisa þennan atvinnuveg úr rústum með því, að taka vel undir þessi mál með okkur alþýðuflokksmönnum