02.04.1937
Neðri deild: 29. fundur, 51. löggjafarþing.
Sjá dálk 495 í C-deild Alþingistíðinda. (1758)

88. mál, atvinna við siglingar

*Sigurður Kristjánsson:

Ég get sparað mér að segja nokkuð verulegt um málið á þessu stigi þess. Það fer að sjálfsögðu til n., sem ég á sæti í, og ég geri ráð fyrir, að ég segi þar það, sem ég tel mig þurfa að segja um málið almennt. Ég vil aðeins láta í ljós, að ég tel það miður farið, þegar verið er að koma fram með gagngerðar breyt. á l., áður en þau hafa staðið eitt einasta ár, eins og farið er að tíðkast hér á Alþ. Nú má vel vera, að eitthvað megi betur fara í þessari löggjöf heldur en nú á sér stað. En mér virðist samt sem áður, að ákaflega lítil trygging muni vera fyrir því, að mikil þekking liggi á bak við frv., sem runnið er undan rifjum „mosaþingsins“ og fjallar um sjávarútvegsmál.

Skal ég ekki fjölyrða um einstök atriði frv. En ég tel alveg sjálfsagt, að það verði sent hlutaðeigendum til álits og umsagnar, hafði þeim starfsstéttum, sem það snertir sérstaklega, og líka þeim mönnum, sem eiga þarna fjárhagslegra og atvinnulegra hagsmuna að gæta, sem eru útvegsmenn.