02.04.1937
Neðri deild: 29. fundur, 51. löggjafarþing.
Sjá dálk 500 í C-deild Alþingistíðinda. (1762)

88. mál, atvinna við siglingar

*Pétur Ottesen:

Ég veit nú satt að segja ekki, hvort ég á að áræða að blanda mér inn í þennan heimiliskrít á kærleiksheimili sósíalista og framsóknarmanna, sem er að risa upp hér í hv. d. í dag. Það kemur bezt fram í þessum umr., að þeir sósíalistar, sem tekið hafa til máls í dag, kunna ákaflega illa að sætta sig við það, að framsóknarmenn skuli leyfa sér að hafa aðra skoðun heldur en þeim þóknast, og þeir undrast yfir því, að það skuli hafa átt sér stað, að samþykktar hafi verið till. á nýafstöðnu flokksþingi Framsfl., sem brjóta gersamlega í bága við vilja sósíalista. Það er nefnilega þetta nýja viðhorf, sem sósíalistar eiga svo bágt með að átta sig á. Það er svona dálítið líkt því, sem andatrúarmenn segja um ástand okkar, sem klæddir erum holdi og blóði, eftir að við skiljum við þessa veröld, að þá taki nokkuð langan tíma að átta sig á hinu nýja viðhorfi.

Það hefir verið dregið í efa, einkum af hv. 3. landsk., að nokkur veruleg óánægja hafi risið út af ákvæðum l. um atvinnu við siglingar, þeirra er samþ. voru í fyrra. Ég verð að lýsa undrun minni yfir því, hvað lítið samband virðist vera milli þeirra sósíalista, sem hér hafa talað, og hæstv. atvrmh., því að mér er kunnugt um, að hann hafði ekki af öðru meira ónæði í vertíðarbyrjun í vetur, þegar átti að fara að framkvæma þessi lög, heldur en heimsóknum úr verstöðvunum hér við Faxaflóa út af ákvæðum þeirra. Svo var óánægjan megn. Menn höfðu ekki í annað hús að venda heldur en fara til hæstv. atvmrh. og sjá til, hvað hann gæti gert, hvort nokkra undanþágu væri að fá, og ef svo væri ekki, leggja að ráðh. að gefa út bráðabirgðalög til þess að breyta þessum ákvæðum. Ég get um þetta talað, því að ég var í hópi þeirra manna, sem sendir voru út af örkinni til þess að tala við ráðh. um þetta. Í því sambandi var það, að hann tjáði mér, hvað margir hefðu leitað til hans út af þessu. Því er ég undrandi yfir því, ef flokksbræður hæstv. ráðh. hafa engin orð heyrt falla af hans munni um, hvað mikilli óánægju þessi ákvæði hafa valdið, ekki aðeins hér við Faxaflóa, heldur einnig í öðrum verstöðvum kringum land.

Þeir, sem andmælt hafa þessu frv., tala mikið um, að með því sé verið að ráðast á öryggi sjómannanna. Ég mun hér sérstaklega gera að umtalsefni þau atriði l., sem snerta vélbáta frá 20 rúmlesta stærð. Á þessum bátum heimta l., að bætt sé við stýrimanni og vélstjóra, þótt þeir komi daglega að landi, eins og er á vertíðinni hér við Faxaflóa. Það er dálítið einkennilegt, að sjómennirnir í þessum verstöðvum, sem öryggisins eiga að njóta, skuli ekki koma auga á þetta aukna öryggi, sem hv. 3. landsk. og hv. 9. landsk. eru að tala um. Þeir leggja ekki meira upp úr þessu en svo, að þeir kveinka sér við þeim kostnaðarauka, sem það hefir í för með sér og vitanlega lendir á allri skipshöfninni, þar sem um hlutaskipti er að ræða, því að það er ekki annað en fjarstæða hjá hv. 3. landsk., að hér sé ekki um neinn kostnaðarauka að ræða. Það er rétt, að skipverjar eru jafnmargir, en þessir menn fá sérstaka borgun fyrir að heita fyrsti stýrimaður og annar vélstjóri. Ég held því, að þessi óánægja sé á þeim rökum reist, þar sem að henni standa sjómenn yfirleitt, að það sé fullkomin ástæða fyrir Alþingi að taka tillit til hennar og fara að óskum sjómannanna. Að því leyti held ég, að þetta frv. sé sízt að ófyrirsynju fram borið. Það kunna að vera á því einhverjir gallar, eins og hv. 3. landsk. hélt fram að væri, t. d. ekki eins greiður aðgangur að því eins og áður var fyrir menn að geta orðið smáskipa-skipstjórar. Er þá sjálfsagt að sníða þá af frv., því að þeir eru komnir inn í það fyrir einhver mistök og stefna í öfuga átt við heildarstefnu frv. Það er í lófa lagið fyrir hv. sjútvn., sem hv. flm. frv. á sæti í, að laga frv. í hendi sér, því að það nær ekki nokkurri átt, að láta höfuðtilgang frv., sem er á fullri sanngirni byggður, gjalda þess, þótt inn í frv. hafi staðzt einhver ónákvæmni. Útgerðin stendur svo höllum fæti hjá okkur nú, að ekki er ástæða til að hlaða á hana auknum tilkostnaði, sem þeir, sem við útgerðina vinna á sjó og landi, telja óþarfan. Þótt segja megi, að þessa tilkostnaðar, sem hér er um að ræða, gætti ekki mikið út af fyrir sig, þá vita menn, að allir þessir smábögglar, sem búið er að hengja á útgerðina, eru ekkert smáræði, þegar þeir koma allir saman, heldur er nú orðinn af þeim sá meginþungi, sem útgerðin er að kikna undir.