02.04.1937
Neðri deild: 29. fundur, 51. löggjafarþing.
Sjá dálk 505 í C-deild Alþingistíðinda. (1765)

88. mál, atvinna við siglingar

*Gísli Guðmundsson:

Ég vil taka það fram, að ég hygg, að það sé rétt, sem 3. landsk. sagði hér áðan, að þetta mál, um atvinnu við siglingar, sé ekki sérstaklega frá Alþfl. komið og ekki frá honum yfirleitt nema að einhverju leyti, og það þá að því leyti, sem hann hefir átt menn í n., sem hafa fjallað um málið. Ég vil að öðru leyti segja það, að ég tel það vel farið, að þetta frv. hv. þm. Barð. er fram komið, og ég hygg, að þær breyt., sem það gerir ráð fyrir, stefni yfirleitt í rétta átt. En ég vil í sambandi við það, að ég átti sæti í þeirri n., sem fjallaði um þetta mál hér í d. í fyrra, taka það fram, að mér var það þá þegar fullkomlega ljóst, þegar þetta mál var til umr. í þeirri n., að ýms ákvæði þess mundu vera nokkuð athugaverð, og var það þá sérstaklega sá hluti, sem frv. hv. þm. Barð. fjallar um. Það var hinsvegar svo, að það lágu þá fyrir þessari hv. d. samhliða fleiri frv., er snertu þessa hluti, en það voru frv. til l. um stýrimannaskóla, frv. til l. um kennslu í vélfræði og svo þetta frv., og var það talið eðlilegt, að ef eitthvað af þessum málum væri afgr. frá þinginu. þá yrðu þau afgr. saman, vegna þess að þau voru svo nátengd. Og því var það að ég lagðist ekki á móti því í fyrra, að þetta frv. væri samþ., sem nú er l. um atvinnu við siglingar. Hinsvegar bar ég fram brtt. við 62. gr. frv., um það, að l. yrðu endurskoðuð eigi síðar en á reglulegu Alþ. 1938. Enda þó að þessi till. væri samþ. á þingi í fyrra, þá tel ég það í fullu samræmi við hana, að það sé mjög vel farið, að þetta frv. er nú fram komið.