02.04.1937
Neðri deild: 29. fundur, 51. löggjafarþing.
Sjá dálk 509 í C-deild Alþingistíðinda. (1771)

88. mál, atvinna við siglingar

*Flm. (Bergur Jónsson):

Hv. 9. landsk. las hér kafla úr skjali frá Farmanna- og fiskimannasambandi Íslands. Ég vil í því tilefni geta þess, að ég hefi aldrei haldið því fram, að ekki mætti senda frv. til umsagnar hverjum sem væri. En jafnframt vil ég taka það fram, að stéttarfélag stýrimanna getur ekki litið hlutlaust á þetta mál. Það væri eins og ef ég sem málaflutningsmaður heimtaði, að fjölgað yrði starfsmönnum við hæstarétt, til þess að stéttarbræður mínir fengju atvinnu. Því getur umsögn þessa félagsskapar ekki talizt óhlutdræg. Hér verður ekki síður að leita umsagnar annarra aðilja.

Ég vil ekki fara að deila við hv. 9. landsk. um okkar viðskipti, en vil aðeins upplýsa það, að á þingmálafundinum á Bíldudal, þar sem ég kom með till. um bættar póstsamgöngur við þorpið, vildi ég, að allir frambjóðendur sameinuðust um till. þessa. Þá sagði hv. þm. við mig: Við skulum bara flytja till. tveir einir. Í þessu kemur vel fram hans hugsunarháttur.