02.04.1937
Neðri deild: 29. fundur, 51. löggjafarþing.
Sjá dálk 515 í C-deild Alþingistíðinda. (1779)

89. mál, tekjur bæjar- og sveitarfélaga

Gísli Guðmundsson:

Ég vil ekki láta þetta mál fara svo í gegnum þessa umr., að ég veki ekki máls á því, að mér finnst þetta frv., sem hv. 6. landsk. ber fram, vera að ýmsu leyti allmikið lakara en það frv., sem borið var fram í fyrra í hv. Ed, að tilhlutun mþn., sem hv. þm. átti sæti í. Það er sérstaklega áberandi hversu miklu verr er séð fyrir hag sveitahreppanna heldur en var í frv. frá í fyrra.

Hv. þm. lét svo um mælt, að hann bæri þetta frv. fram í þessu formi að mjög miklu leyti til þess að gefa þessari d. tækifæri til þess að taka afstöðu til þess hluta frv. frá í fyrra, sem miður var felldur í Ed. og kom þess vegna ekki til þessarar hv. d. Ég veit ekki, hvort þetta á að skiljast svo að hv. þm. ætlist ekki til, að þetta frv. verði að l., heldur aðeins að álit d. komi fram á þessum sérstaka kafla, sem hún greiddi ekki atkv. um í fyrra. Hvað sem því líður, þá virðist mér það mjög til hins lakara, að frv. er borið fram í þessu formi.

Ég skal ekki fara út í einstök atriði frv., enda tilheyrir þar frekar 2. umr., heldur aðeins láta nægja að vekja athygli á þeim mun, sem mér finnst á málinu eins og það kemur frá hv. þm. og eins og það var í fyrra. Þó eru einstök atriði, sem ég hefi sérstaklega tekið eftir, og m. a. eitt, sem ég vildi vekja athygli á. Það eru þær till., sem hér eru um skattgreiðslu síldarverksmiðja ríkisins. Í frv. n. frá í fyrra var, ef ég man rétt, gert ráð fyrir að síldarverksmiðjur ríkisins greiddu í hlutaðeigandi bæjar- eða sveitasjóði 1% af andvirði seldra afurða. Nú er þetta orðið þannig, að hér í 27. gr. frv. gert ráð fyrir, að síldarverksmiðjurnar greiði ekki 1%, heldur 1/4% af andvirði seldrar vöru, og það á ekki að renna í bæjar- eða sveitarsjóð viðkomandi bæjar- eða sveitar, heldur í jöfnunarsjóð, sem úthluta á úr eftir sérstökum reglum, sem nánar eru tilgreindar. Mér finnst þetta á ýmsan hátt óeðlilegt. Í fyrsta lagi sé ég ekki ástæðu til þess, að flm. skulu hafa fært þetta svo mikið niður frá því, sem hann áleit rétt í fyrra, og vitanlega er það þar sízt of hátt ákveðið, ef með sanngirni er á það litið. Í öðru lagi virðist mér undarlegt að ætlast til, að gjaldið renni í jöfnunarsjóð, en ekki í sveitar- eða bæjarsjóð viðkomandi sveitar- eða bæjarfélags. Þetta gjald af síldarverksmiðjunum væri, ef það yrði að l. hliðstætt því útsvari, sem síldarverksmiðjur í einkarekstri greiða, og rennur það vitanlega alltaf í hlutaðeigandi bæjar- eða sveitarsjóð.

Ég skal svo ekki hafa um þetta fleiri orð, en vildi ekki láta frv. fara svo frá umr., að ég ekki vekti athygli á þessu.