30.03.1937
Neðri deild: 27. fundur, 51. löggjafarþing.
Sjá dálk 528 í C-deild Alþingistíðinda. (1793)

91. mál, hampspuni

Frsm. (Páll Zóphoníasson):

Ég vil leyfa mér að benda þm. Ísaf. á, að hann virðist ekki hafa lesið frv., þar sem ræða hans gekk nær eingöngu út á það, að kvarta um, hversu dýrt innlendu veiðarfærin væru seld. Til þess að upplýsa hv. þm. í þessu máli, vil ég benda honum á, að Hampiðjan ætlar ekki að búa til veiðarfæri, heldur ætlar hún að spinna garn, sem aftur er notað í veiðarfæri. Hér er því tvennu ólíku saman að jafna, sem hv. þm. verður að gera sér fulla grein fyrir, úr því að hann vill vera að leggja orð í belg við þessar umr.

Eins og nú standa sakir, þá eru það tiltölulega fá lönd, sem selja óunninn hamp, þau selja hann flest sem unnið garn. Eitt af þeim fáu löndum, sem ennþá selja hamp, er Ítalía; að kaupa hann þaðan, greiðir þó fyrir fisksölu okkar, þó lítið sé.

Þá vildi hv. þm. halda því fram, að það væri lítil trygging fyrir gæðum þessarar vöru, að skipstjórar og útgerðarmenn væru meðeigendur fyrirtækisins, Þetta er mesti misskilningur hjá hv. þm. Af því einmitt, að fyrirtækið er í höndum slíkra manna, þá er vissa fengin fyrir því, að reynt verður af fremsta megni að gera framleiðsluna samkeppnisfæra við hina erlendu vöru, og það eru einmitt mennirnir, sem bezt skyn bera á það, hvernig varan þarf að vera til þess að standast samkeppnina. Af hverju skyldu svo togaraeigendur kannske kaupa allt sitt garn af Hampiðjunni nú, nema af því, að það er bæði ódýrara og betra en hið erlenda?

Komist frv. þetta í gegnum þingið, og Hampiðjan þar með verði fær um að framleiða allt það garn, sem þarf til innlendrar veiðarfæragerðar, myndu veiðarfæragerðirnar án efa kaupa allt sitt garn af henni, og um leið myndu þær geta selt veiðarfærin ódýrari. Þetta er því allt misskilningur hjá hv. þm. Hann blandar saman, að kemba og spinna hampinn, við það, að selja tilbúin veiðarfæri.