30.03.1937
Neðri deild: 27. fundur, 51. löggjafarþing.
Sjá dálk 529 í C-deild Alþingistíðinda. (1794)

91. mál, hampspuni

*Jóhann Jósefsson:

Hv. frsm. taldi frv. þessu það meðal annars til ágætis, að það myndi spara okkur erlendan gjaldeyri og auka atvinnu í landinu, jafnframt því, sem það gerði veiðarfæragerðunum hægara fyrir en nú væri. Þetta væru óneitanlega töluverðir kostir, ef þeir reyndust réttir, en ég er bara anzi hræddur um, að töluvert af þeim geti ekki staðizt almenna gagnrýni.

Það er rétt, sem hv. frsm. segir, að með frv. þessu er Hampiðjunni ekki á pappírnum gefinn einkaréttur hér á landi til sölu á vörum þessum, en hitt er rétt, eins og hv. þm. Ísaf. tók fram, að í framkvæmdinni fengi Hampiðjan sama sem þennan rétt. Hv. frsm. iðnn. hélt því fram, að það garn, sem Hampiðjan framleiðir, stæðist, hvað verð og gæði snertir, fyllilega samjöfnuð eða meira við samskonar erlendar vörur, er við getum átt kost á að nota. Ég skal ekki að óreyndu rengja hv. þm. um þetta, að því leyti sem verðið snertir, en þeir menn eru þó til, og munu meira að segja vera hér innan veggja, sem halda því fram, að þessar vörur, sem Hampiðjan framleiðir, sérstaklega trollgarnið, standi erlendum vörum að baki með gæði. Skal ég ekkert um þetta fullyrða, en þessi skoðun hefir mjög ákveðið komið fram, þar sem ég hefi heyrt um málið rætt.

Hv. frsm. minntist á reynslu Norðmanna í þessum efnum, og er rétt að lita á það í þessu sambandi, hvað hin mesta fiskiveiðaþjóð hér í álfu gerir í þessum efnum, og ekki síður fyrir það, að frá Noregi hafa Íslendingar aðallega keypt þær vörur, sem hér er um að ræða. En hvað gera svo Norðmenn? Ég hefi það fyrir satt, að mikið af því efni, sem þeir nota í veiðarfæri sín, net, línur o. fl., kaupi þeir spunnið frá öðrum löndum, og sömuleiðis hefi ég það fyrir satt, að Norðmenn hafi þegar reynt sig á því, að vinna garnið sjálfir úr óunnum hampi, og að vara þeirra hafi ekki reynzt samkeppnisfær við erlenda vöru. Þetta á sér í lagi við um það garn, sem spunnið er í Ítalíu, en þar er mikil hamprækt, og hampspuni þar er einskonar þjóðleg atvinnugrein, á sama hátt og t. d. landbúnaðurinn er hér. Þess vegna er fyrir hendi í Ítalíu svo langsamlega miklu meiri reynsla í þessari iðn en annarsstaðar. þar sem iðngreinin er á byrjunarstigi. Auk þess eru vinnulaun þar svo miklu lægri en hér, þótt ekki sé tekið tillit til gengismunar, að ómögulegt er fyrir Norðurlöndin að keppa við Ítalíu um þessa framleiðslu. Hér við bætist svo það, að ítalska myntin hefir fallið mjög, samanborið við okkar peninga, svo að þess vegna eins erum við alveg ófærir til samkeppni við Ítali um framleiðslu á þræði.

Ég vil biðja hv. frsm. að athuga þetta. Það hlýtur eitthvað að liggja til grundvallar fyrir því, að Norðmenn kaupa árlega um 1000 tonn af þræði frá Ítalíu, og að þeir eru búnir að reyna sig á því, að spinna sjálfir þessa vöru, og hafa ekki reynzt samkeppnisfærir við Ítali í þeim iðnaði. Ég álít það gott, að færin séu snúin, og netin gerð hér á landi, þótt línurnar þurfi að kaupa frá útlöndum.

Eins og hv. frsm. tók fram, er hlutaðeigendum ekki veitt með frv. einkasala á veiðarfærum, en hér á að veita Hampiðjunni á þriðja hundrað þúsund í gjaldeyri til að kaupa vélar fyrir, og yrði þá sennilega erfitt fyrir útgerðarmenn og sjómenn að fá innflutningsleyfi á veiðarfærum, þegar hægt væri að benda á, að nægilegt af þessum vörum væri framleitt í landinu, þótt þær vörur stæðust ekki samanburð við erlendar vörur, að því er verð og gæði snertir.

Reynslan hér er orðin sú, að þessi innlenda færaspunaverksmiðja er búin að fá einskonar einkarétt til að selja þessar vörur; það vitum við vel, sem þessar vörur kaupum. Við vitum líka, að það er erfitt, og jafnvel ómögulegt, að fá gjaldeyris- og innflutningsleyfi fyrir þessar vörutegundir. Gjaldeyris- og innflutningsnefnd bendir á þá staðreynd, að þessar iðnaðarvörur séu til í landinu, og möguleikinn á því, að fá innflutningsleyfi, strandar á þessari staðreynd. Og ekki rýrnar einkasöluréttur Hampiðjunnar, þegar hún er búin að fá innfluttar nýjar vinnuvélar til iðnaðarins fyrir stórfé á ísl. mælikvarða.

Hv. iðnn. flytur þetta frv. óskipt, og ég geri ráð fyrir, að hún ætlist til, að frv. fari nefndarlaust áfram, en ég vildi mælast til þess við n., að hún vildi rannsaka það milli umr., hvernig allar aðstæður hér eru fyrir því, að koma upp hampspuna á öllum tegundum veiðarfæra, og sérstaklega kynna sér það, sem ég held fram, þótt ég geti ekki sannað það, að Norðmenn hafa gefizt upp við hampspunann, af því að þeir þoldu ekki samkeppnina við Ítali, og hafa látið sér nægja að fara aftur að kaupa þráðinn af þeim.

Að öðru leyti er þetta mál þannig vaxið, þegar tekið er tillit til innflutningstregðunnar að þó frv. sé komið frá iðnn., þá ætti það að koma frá sjútvn. Ég geri þó ekki till. um að vísa málinu til sjútvn. Hv. frsm. sjútvn. er hér viðstaddur og getur því gert till. um það, en það sjá allir, að sjávarútveginn skiptir það miklu, hvernig verð og gæði þessara vörutegunda verður.