30.03.1937
Neðri deild: 27. fundur, 51. löggjafarþing.
Sjá dálk 530 í C-deild Alþingistíðinda. (1795)

91. mál, hampspuni

*Finnur Jónsson:

hv. frsm. hefði getað sparað sér mikinn hluta sinnar síðustu ræðu, því að ég hefi alls ekki misskilið frv., heldur hefi ég skilið það rétt. Ég benti á þá miklu hættu, sem af samþykkt þessa frv. stafaði, ekki vegna þess, að það veitti einkasöluleyfi, heldur vegna hins, að inn væru fluttar vélar fyrir stórfé, sem mundi verða til þess, að aðrir menn fengju ekki innflutningsleyfi á þessum vörum, og þannig yrði gjaldeyrishömlunin í framkvæmdinni einskonar einkasöluleyfi, alveg eins og nú er með veiðarfæragerðina. Ég benti á það, að verðmunurinn á innlendu veiðarfærunum og aðkeyptum veiðarfærum væri skattur, sem lagður hefir verið á útgerðina, en hún er ekki fær um að bera.

Hv. frsm. hélt því fram, að veiðarfærin mundu lækka í verði, ef iðnaðurinn yrði að öllu leyti innlendur. Eftir fenginni reynslu í þessum efnum er full ástæða til að ætla, að hvort tveggja muni hækka í verði, hráefnið og færa- og netagerðin. Sé ég ekki ástæðu til að fara út í það nánar. Mín reynsla er nokkurnveginn sú sama og hv. þm. Vestm., að þessi innlenda framleiðsla sé frekar verri að gæðum og dýrari en samskonar erlendar vörur. — Að það sé trygging fyrir vörugæðum og lágu verði, að nokkrir útgerðarmenn og skipstjórar eru hluthafar í þessu fyrirtæki, eins og hv. frsm. vildi halda fram, sé ég ekki, að hafi við neitt að styðjast, meðan þeir eru það ekki allir, því að þótt fáir útgerðarmenn eigi fyrirtækið, þá hafa þeir vitanlega mestan hug á því, að fyrirtækið beri sig sem bezt, og að þeir geti haft sem mest fyrir snúð sinn, án tillits til hagsmuna almennings, sem vörurnar á að nota. Væri þessi framleiðsla aftur á móti rekin sem almenningsfyrirtæki með einkaleyfi, þá gæti fyrirtækið vitanlega gert gott. En sem einkaleyfi án tillits til hagsmuna almennings tel ég fyrirtækið svo hættulegt, að ég mun ekki gefa frv. atkv. til 2. umr.