30.03.1937
Neðri deild: 27. fundur, 51. löggjafarþing.
Sjá dálk 531 í C-deild Alþingistíðinda. (1796)

91. mál, hampspuni

*Jón Ólafsson:

Ég ætla ekki að lengja umr. um þetta mál á þessu stigi, en mér sýnist ein hlið sérstaklega vafasöm á þessu einkaleyfi. Það er mikið gert úr væntanlegum gjaldeyrissparnaði í sambandi við þetta einkaleyfi, og má vera, að hann verði einhver, en þótt ég viðurkenni þetta, þá er það önnur hlið á þessu máli, sem er meira verð, og það er gæði vörunnar. Ef veiðarfærin, sem búin eru til, eru svo léleg, að þau halda ekki veiðinni, þá geta þau orðið útgerðinni dýrkeypt, hvað sem verðlaginu líður. T. d. þarf poki botnvörpunnar, sem trollað er með, skilyrðislaust að vera svo sterkur, að hann rifni ekki utan af mikilli veiði. Ef misbrestur verður á þessu, ef tvinninn svíkur, þá getur tapazt svo mikið verðmæti í sjóinn, að það verði dýrt spaug fyrir útgerðina að nota slík veiðarfæri. Hjá þessari hættu verður verðið sjálft smávægilegt atriði, þótt það verði hærra á innlendu vörunum heldur en þeim erlendu, eins og það var í vetur, þegar munurinn var 5–10%. Slík álagning er í raun og veru smávægileg hjá hinu, ef hin innlenda framleiðsla getur ekki jafnazt á við þá erlendu um styrkleika.

Ég tek undir með þeim hv. þm., sem talað hafa um það, að gjaldeyris- og innflutningsn. mundi nota sér það, að þvinga útgerðarmenn til að kaupa hina innlendu framleiðslu, enda væri það eðlilegt. Félagið væri búið að leggja mikið í kostnað, og þarf þess vegna að geta haft mikla umsetningu og álagningu til þess að ávaxta það mikla fé, sem í fyrirtækið verður lagt og afskrifa hinar dýru vélar. Mér finnst þessa hlið, vörugæðin, þurfi sérstaklega að athuga vel, áður en því er slegið föstu, að veita það einkaleyfi, sem hér er um að ræða. Ég vil því vænta þess, að hv. frsm. og hv. iðnn. athugi þá hlið betur. Ég hefi það fyrir satt, að allmargir skipstjórar, sem mesta áherzlu leggja á að hafa veiðarfæri sín örugg, hafi neitað að nota veiðarfæri frá Veiðarfæragerð Íslands. Af þeim ástæðum hefir nokkuð fengizt innflutt af botnvörputvinna, þó ekki nándarnærri eins mikið og þörf var á. Þar að auki get ég upplýst, að þessi tvinni, sem keyptur var frá Englandi, var mun ódýrari en tvinni frá Veiðarfæragerðinni, sem getur vel stafað af því, að Veiðarfæragerðin hafi keypt sínar vörur á óhagstæðum tíma, eins og sagt er, og hafi fyrirtækið orðið að greiða fyrir þessa vöru 20% hærra verð heldur en hún fékkst fyrir í Englandi síðar. Það er ósköp hætt við því, að slíkir smáframleiðendur sem Veiðarfæragerðin sitji ekki við hin beztu kjör um verð og geri með því landsmönnum skaða, án þess sjálf að hafa hag af, Það er nú svo hér, að yfirleitt er mörgum smáiðnaðarfyrirtækjum haldið uppi með því, að aðrir fá ekki að flytja inn þær vörutegundir, sem þessi fyrirtæki framleiða. — Ég sé ekki ástæðu til að hafa þessi orð fleiri, en vil vona það, að hv. þd. taki gætilega á þessu máli, einkanlega vegna þess, að ég er sannfærður um, að allmikil hætta er á því, að þessi framleiðsla verði ekki samkeppnisfær, sérstaklega þó hvað vörugæði snertir.