30.03.1937
Neðri deild: 27. fundur, 51. löggjafarþing.
Sjá dálk 532 í C-deild Alþingistíðinda. (1797)

91. mál, hampspuni

*Sigurður Kristjánsson:

Það er ekki nema eðlilegt, að hv. þdm. ræði gaumgæfilega öll þau mál, er að sjávarútveginum lúta, og ég get lýst því yfir, að iðnn., sem frv. þetta flytur, gaf mjög nánar gætur að frv. þessu, áður en hún ákvað að taka það til flutnings. Þess vegna gerði n. sig ekki seka í þeim mikla misskilningi, sem komið hefir fram hér í hv. þd. í sambandi við þetta frv.

Eins og tekið hefir verið fram og viðurkennt hér í hv. d., þá er ekki um að ræða innflutningseinkaleyfi. Í öðru lagi þá er það ekki á valdi Alþingis, að koma í veg fyrir það, að þessar vélar verði keyptar og iðnaður þessi hafinn; það verður gert hvort sem frv. er samþ. eða ekki. Frv. fer aðeins fram á það, að fyrirtækið fái einkaleyfi í næstu 10 ár til þess að framleiða veiðarfæri hér á landi. — Inn í umr. um þetta frv. hefir verið blandað öðru efni og óskyldu, það er spurningin um gjaldeyris- og innflutningsnefnd, spurningin um það, hvernig hún snýst við þessu máli. Hv. þm. Ísaf. óttast það, að sú n. muni banna öðrum innflutning á veiðarfærum. Mér stafar einnig og ekki siður ótti af þessu. En það er einmitt þessi hv. þm., ásamt öðrum hv. þm. stjórnarflokkanna, sem komið hafa á þessari n. og halda í hana dauðahaldi. Það fer vel á því, að einn hv. þm. úr hópi stjórnarflokkanna, bendir á þá hættu, að n. misbeiti sínu valdi og níðist á atvinnuvegunum í þeim tilgangi, að hlaða undir sína gæðinga, sem í þessu tilfelli ætti að vera Hampiðjan. Málið liggur þannig fyrir. Hampiðjan ætlar að flytja inn vélar fyrir á þriðja hundrað þúsund kr. Það er hvorki á valdi iðnn. eða þingsins, að óbreyttum aðstæðum, að koma í veg fyrir þetta. Það er gjaldeyris- og innflutningsn., sem hér hefir völdin. Afdrif þess frv., sem hér liggur fyrir, hafa engin áhrif á þessi vélakaup. En að svo vöxnu máli, telur iðnn. rétt, að þegar í stað sé komið í veg fyrir aðra og ennþá verri hættu, þá hættu, að einhverjir aðrir en Hampiðjan rjúki til og fari að kaupa einnig dýrar vélar, komi ofan á þetta fyrirtæki strax í byrjun, kannske fyrir ímyndaða gróðamöguleika, en öllum til tjóns. Það eru dæmi fyrir því nú í seinni tíð, að menn, sem með framtakssemi sinni hafa brotizt í að leggja í kostnað í iðnfyrirtæki, til þess að bæta úr innlendri þörf, hafa orðið að taka á móti kapphlaupi um þann iðnað frá ýmsum öðrum, sem ekki datt þetta í hug, fyrr en búið var að ríða á vaðið, og sáu ofsjónum yfir ímynduðum gróða þessara manna. Ríkið hefir heldur ekki látið sinn hlut eftir liggja í þessu efni. Ég veit ekki betur en að það vofi yfir þeim mönnum, sem eitthvert framtak hafa, alveg eins og gammur yfir bráð. Ég held, að það sé því ástæða til fyrir okkur að athuga það, ef einhverjir menn ennþá eru svo bjartsýnir í þessu landi að leggja út í atvinnurekstur, hvort við eigum að láta leiðina standa opna bæði fyrir ríkið og einstaka menn til þess að hlaupa strax í kapp við þessa menn og drepa þeirra fyrirtæki. Það gæti líka leitt til þess að íþyngja þeim, sem nota vöru þeirra. Við skulum halda okkur við þetta dæmi. Ef h.f. Hampiðjan fengi ekki þennan einkarétt, að setja niður þessar vélar í næstu 10 ár, gæti hæglega svo farið, að sett yrðu á stofn önnur samskonar fyrirtæki. Það er gefinn hlutur, að not þessarar vöru eru ekki meiri en svo, að það yrði erfitt fyrir mörg slík fyrirtæki að bera sig. Sennilega myndu þau fara á hausinn, en meðan þau væru að klóra í bakkann, er ekkert líklegra en að þau reyndu að afla sér einkasölu á sinni framleiðslu, síðan gera samninga sín á milli um að keppa ekki um verð. Á þessu yrði miklu síður hætta, ef fyrirtækið fengi að vera eitt, meðan það væri að komast yfir verstu erfiðleikana.

Það hefir verið vitnað í Veiðarfæragerðina. Það er að sönnu rétt, að veiðarfæri frá Veiðarfæragerð Íslands eru dýrari en annarsstaðar frá, og sjútvn. hefir gert tilraunir til þess að fá það leiðrétt. Ég vil minna þá hv. þm., sem hafa vitnað í þetta, á það, að Veiðarfæragerðin hefir ekki einkaleyfi. En hvaðan stafar þá þessi plága, sem þeir telja, að Veiðarfæragerðin sé útgerðinni? Hún stafar af dýrðlingi stjórnarflokkanna, innflutnings- og gjaldeyrisnefnd, sem misnotar sitt vald með því að leggja hömlur á innflutning veiðarfæra. Ég held því, að menn ættu að snúa sér að meinsemdinni, sem er innflutnings- og gjaldeyrisnefnd. En ég fyrir mitt leyti álít ekki rétt að sníða löggjöf í þessu efni eftir því augnabliksómenningarástandi, sem er ríkjandi í landinu í verzlunarsökum, þar sem sett er yfir verzlunina n., sem misnotar vald sitt til óhagræðis fyrir allan almenning og á að vera til framdráttar sérstökum gæðingum hæstv. stj. Ég álít ekki rétt að miða við slíkt, því að við verðum að vona, að því létti af. Ég skal játa það fúslega, að ég er vantrúaður á, að það verði gróðafyrirtæki fyrir Hampiðjuna að auka þessa starfrækslu. Ég er sömu skoðunar og hv. þm. Vestm., sem vitnaði i, að Norðmönnum hefði reynzt óhagstæðara að spinna hampinn heima heldur en kaupa hann spunninn. Ég held því, að það muni líka reynast erfiður iðnrekstur hér á landi. En samt sem áður er ekki rétt að vera að setja fótinn fyrir framtakssama menn, sem vilja hætta fé sínu til þess að gera atvinnureksturinn fjölbreyttari en hann er. En hitt er sjálfsagt. ef löggjöfin getur sett einhverjar tryggingar fyrir því, að þetta leiði ekki til þess að þyngja á öðrum landsmönnum, að það sé gert. Það var þetta atriði, sem ég athugaði, áður en ég ákvað að vera með flutningi þessa frv., en mig bar alltaf að sama agnúanum, sem sagt, að það er innflutnings- og gjaldeyrisn., sem hættan getur stafað af.

Það er enginn einkasöluréttur veittur samkv. þessu frv., ekki annað en það, að þessir menn megi í nokkur ár vera einir um þessa iðju, meðan verið er að komast að raun um, hvort er verkefni til fyrir hana í landinu. En það er ávallt það sama, sem maður rekur augun í, það er innflutnings- og gjaldeyrisnefndin, sem getur breytt þessu í einokunarástand, og öryggið gegn því, að svo verði, er ekki annað en að taka þennan möguleika, innflutnings- og gjaldeyrisnefndina, af. Þessi hampiðja verður sett upp og verður samskonar og veiðarfæragerðin á sínu sviði, ef frv. verður ekki samþ., sem innflutnings- og gjaldeyrisn. getur gert að einokunarstofnun, ef hún vill misbeita valdi sínu. Hv. þm. skulu þess vegna ekki halda, að þeir umflýi þessa hættu með því að fella frv., en stofni til hennar með því, að samþ. frv. Þeir ættu heldur að beina athygli sinni að innflutnings- og gjaldeyrisnefnd.