30.03.1937
Neðri deild: 27. fundur, 51. löggjafarþing.
Sjá dálk 539 í C-deild Alþingistíðinda. (1802)

91. mál, hampspuni

Frsm. (Páll Zóphóníasson):

Það eru bara tvö atriði, sem ég þarf að minnast á. Annað er viðvíkjandi ræðu hv. þm. Vestm. Hann virtist ekki skilja tölurnar, sem ég las upp. Það, sem með þeim var meint, var það, að hann og aðrir hv. þm. sæju, að landsmenn hefðu hagnað af því, ef þessi iðnaður kæmist inn í landið, og þennan verðmismun, sem er á hampinum, sem fer í tonnið, og þess, sem tonnið kostar unnið. Hitt atriðið var það, að hann vildi víkja sér undan því, sem hann hafði haldið fram, að færin væru fengin frá þeim stöðum, þar sem þau væru bezt, sem hann taldi áðan, að væri Ítalía, en nú Noregur, sem keypti hampinn óunninn. Sleppum færunum. En hvaðan kemur garnið? Við höfum flutt inn garn á hverju ári fyrir 60–80 þús. kr. Hefir það komið frá Ítalíu? Nei, Ítalía er ekki nefnd í verzlunarskýrslum yfir innflutt garn. Garn úr hampi hefir verið flutt inn fyrir 74648 kr., og þar er Bretland hæst á blaði með 32811 kr., Belgía með 32184 kr. og svo niður á við ofan í Þýzkaland, sem er með 333 kr., en Ítalía er þar ekki til, það land, sem hv. þm. sagði, að þetta garn væri komið frá. Annaðhvort er, að hann fer ekki með rétt mál, að þetta sé það bezta, eða að hann og aðrir þeir, sem kaupa garn, hafa ekki getað sett sig í samband við það bezta, þegar komið var út í veruleikann, þótt hann tali um þetta hér á þingi.