30.03.1937
Neðri deild: 27. fundur, 51. löggjafarþing.
Sjá dálk 541 í C-deild Alþingistíðinda. (1805)

91. mál, hampspuni

*Jóhann Jósefsson:

Hv. frsm. inn, var að tala um, að innflutningur á netagarni tiltekið ár hefði enginn verið frá Ítalíu, en aftur á móti fyrir nokkra tugi þús. frá öðrum löndum, og vildi hv. þm. sanna með því, að þeir, sem netagarn nota, hafi ekki haft vit á að kaupa vöruna á hagkvæmum stað. Ég þarf ekki að taka mér nærri, þótt hv. 2. þm. N.-M. bregði mér eða öðrum, sem annast innkaup á færum eða garni, um fáfræði í þessu efni; ég býst varla við, að hann hafi aðstöðu til þess að dæma um það. Ég vil aðeins upplýsa það, að það eru dálítil tímaskipti að því, hvað þarf af netagarni. Hingað til hefir netagarn út af fyrir sig ekki verið keypt fram að síðustu árum nema til bætingar, og þess vegna hefir það verið tiltölulega litið magn, sem þurft hefir af garni, og ég hygg, að það sé eins með síldarnetin og þorskanetin, að þau séu litið riðin hér á landi, en svo er þess að gæta, að árið 1928–1935 a. m. k. er notkun á þorskanetum miklu minni heldur en á árunum 1923–1928. Ég skal benda hv. þm. á það, að netagerð var stofnuð á árinu 1936 í einni af stærstu verstöðvum landsins, Vestmannaeyjum. Sú netagerð ein er búin að flytja inn garn fyrir um 80 þús. kr., miðað við nýár. Þetta garn er eingöngu flutt inn frá Ítalíu. Hv. þm. var að núa okkur því um nasir, að við höfum ekki haft vit á að kaupa garnið þar, sem það er bezt, en þetta er algerlega rangt; við höfum haft fyllilega opin augun fyrir gæðum og verði garnsins. Auk þess, sem hið ítalska garn hefir reynzt sterkt, þá er það einnig 10% ódýrara heldur en annarsstaðar frá. Form. iðnn. mætti með því, að þetta frv. yrði athugað af sjútvn., og ég geri ráð fyrir, að hann og meðnm. hans hafi ekkert á móti því, og vil ég því mælast til, að sjútvn. geti fengið aðstöðu til að athuga þetta frv. og jafnvel ræða við menn, sem að því standa, utan þingfunda, og að málinu yrði þannig vísað til sjútvn. til umsagnar.