03.04.1937
Neðri deild: 30. fundur, 51. löggjafarþing.
Sjá dálk 550 í C-deild Alþingistíðinda. (1819)

93. mál, hraðfrysting fisks

*Fjmrh. (Eysteinn Jónsson):

Ég var ekki alltaf við, er hv. þm. Snæf. flutti sína ræðu, en ég tók eftir því, að hann var að tala um, að ríkisábyrgðin væri ekki skaðleg, þar sem það væri á valdi ráðh. að nota heimildina. Ég er ekki samþykkur þeim rökum, er hann færði fram þessu til stuðnings. Það er enginn vafi á því, ef þetta ákvæði verður í lögum, að lánsstofnanirnar verða erfiðari við þá, sem byggja frystihúsin og sækja um lán til þess, heldur en lánsstofnanirnar yrðu, ef ákvæði þessi væru ekki til. Þetta mundi bera þannig að, að bankarnir mundu vísa öllum, sem um slík lán sækja, til ráðh., þótt þeir annars hefðu veitt þessum mönnum lán, ef engin ákvæði hefðu verið um ríkisábyrgð. Ráðh. kæmist þarna í mjög erfiða afstöðu milli útgerðarmanna og bankanna, og það að óþörfu, eins og ég sýndi fram á í fyrri ræðu minni, sem ég vísa til. Það væri engin frambærileg ástæða til þess fyrir lánsstofnanir, að neita að lána til frystihúsanna, eftir að ríkissjóður væri búinn að veita 1/4 kostnaðar sem beinan styrk. Ég tel því ákvæði 1. gr. frv. óþörf og ríkisstjórnina með þeim setta í allmikinn vanda að óþörfu.