03.04.1937
Neðri deild: 30. fundur, 51. löggjafarþing.
Sjá dálk 552 í C-deild Alþingistíðinda. (1821)

93. mál, hraðfrysting fisks

*Bergur Jónsson:

Það hefir komið fram í ræðum 3 þm., hv. þm. Snæf., hæstv. fjmrh. og hv. 2. þm. Reykv., að þeir eru sammála um nauðsynina á því, að reist verði hraðfrystihús sem víðast á landinu; um það atriði út af fyrir sig er ekki deilt, og er ég því fylgjandi. Ég vil taka undir það með hæstv. fjmrh., að nauðsynlegt sé, að hið opinbera veiti ákveðinn beinan styrk til hraðfrystihúsa, en hvort það á að vera 1/4 kostnaðar eða meira, átti að mínu áliti að fara eftir því, hve mikinn annan stuðning hið opinbera veitir. Frv. það, sem hér liggur fyrir, fer fram á ábyrgð á 3/4 kostnaðar. Ég held, þótt ég sé raunar ekki hræddur við þær ábyrgðir, að þær séu ekki bezta leiðin. Mest er um vert, að ekki gæti neinnar hlutdrægni þegar farið er að veita stuðning til bygginganna, alþingi hefir áður gagnvart samskonar ábyrgðum og hér er um að ræða gerzt sekt um vitaverða framkomu, sem sé í sambandi við ábyrgðir fyrir útgerðarsamvinnufélög. Nokkrum slíkum félögum var veitt ábyrgð, en þá sá Alþ. sér ekki fært að halda áfram á þeirri braut og kippti að sér hendinni. Lágu þá fyrir beiðnir frá allmörgum útgerðarsamvinnufélögum, einkum á Vestfjörðum og Austfjörðum, sem höfðu mörg meiri þörf fyrir ábyrgðirnar heldur en þau félög, er fengu þær, en þessum félögum var synjað. Af þessum ástæðum felli ég mig bezt við það, að sú aðstoð, sem hið opinbera kann að veita auk styrks, verði fast ákveðin með lögum, svo að ekki komi fyrir, að hið opinbera hætti þeirri hjálp á miðri leið.

Í þessu frv. er einungis rætt um hraðfrystihús fyrir fisk. Nú er það vitanlegt, að hraðfrystihús eru líka notuð fyrir kjöt og beitu. og ég álít ekki rétt að greina hér svo mikið á milli, en reyna að ganga þannig frá þessu nauðsynjamáli, að frystihús fáist bæði fyrir kjöt, fisk og beitu, bæði fyrir sjávarútveg og landbúnað á sem beztan og tryggilegastan hátt. Sem dæmi vil ég nefna 2 beiðnir úr mínu kjördæmi um frystihús. Á öðrum staðnum er farið fram á, að sett verði upp hús, sem verði nægilegt til að frysta kjöt og beitu, en það er ekki hugsað um að ganga lengra og frysta fisk. Á hinum staðnum er eingöngu ætlazt til að frysta fisk eða a. m. k. að mestu leyti. Það kann að vísu að vera æskilegt, að hægt yrði að nota húsið líka til þess að frysta kjöt, en ég býst við, að aðalatriðið yrði frysting á fiski á þeim stað, sem er Patreksfjörður, en þar er allur útvegur úr sögunni, svo sem kunnugt er, nema stórútgerð. Þar hafa verið gerðir út 2 togarar, og er annar þeirra horfinn úr sögunni; þetta er því mjög mikið nauðsynjamál fyrir þennan stað, svo að smábátaútvegurinn geti aukizt þar aftur.

Þetta nefni ég til að sýna, að mér virðist nauðsyn á því, að líta dálítið víðar á málið. Hv. 2. þm. Reykv. sagði, að nauðsynlegt væri að ákveða rýmkun á dragnótaveiðinni, áður en farið væri langt út í frystihúsabyggingu. Þetta er rétt. En það liggur líka fyrir hv. d. nál. frá sjávarútvegsmönnum viðvíkjandi dragnótaveiðinni, þar sem farið er fram á allmikla rýmkun, og reynslan hefir orðið sú, að þar sem hraðfrystihús hafa komizt upp, hefir fallið burt mótstaðan gegn dragnótaveiðinni.

Ég hefi minnzt á, að æskilegt væri, að þar sem frystihús eru reist, komi framlög frá staðarmönnum sjálfum, og mér þótti vænt um, að hv. 2. þm. Reykv. skyldi taka vel undir það, að ástæða væri til að fara fram á það á slíkum stöðum, að verkamenn létu einnig af hendi einhver framlög, t. d. í vinnu. Mér þótti vænt um að heyra hv. þm. segja þetta, vegna þess að ég bjóst síður við, að vel yrði í þetta tekið af hálfu sósíalista, en það er gott að fá heilbrigðan hugsunarhátt, að þessu leyti, því að þessum stöðum, sem hér um ræðir, er lífsnauðsyn á að fá bjargræði, og ef reisa á þessi hraðfrystihús, þá er nauðsynlegt, að staðarbúar leggi hver um sig eitthvað fram af mörkum. Ég vil yfirleitt taka vel í þetta frv. Ég er ekki viss um, að ég geti verið með ábyrgðum, en það er sjálfsagt, að frá þessu þingi komi einhver ákvörðun viðvíkjandi því, að lagt verði eitthvað fram til styrktar frystihúsum, og í öðru lagi vil ég benda á, að það er náttúrlega alls ekki nóg yfirleitt, að slíkir beinir styrkir séu veittir, og þó að ekki væri gengið inn á ábyrgð, þá yrði a. m. k. að tryggja einhverskonar aðstoð.