03.04.1937
Neðri deild: 30. fundur, 51. löggjafarþing.
Sjá dálk 555 í C-deild Alþingistíðinda. (1823)

93. mál, hraðfrysting fisks

Sigurður Einarsson:

Það liggur í hlutarins eðli, að mál eins og þetta fer til hv. sjútvn. til frekari athugunar. En það er sérstaklega eitt atriði í frv., ákvæði 4. gr., sem ég finn mig knúðan til að gera að umtalsefni.

Ég var kallaður á fund áðan og veit ekki nema það, sem ég ætla að segja,, hafi þegar komið fram í umræðunum. Í þessari gr. segir, að hlunninda þessara laga geti aðeins notið félög útgerðarmanna og sjómanna, sem stofnuð eru í því skyni að reka hraðfrystihús. En ég veit með vissu, að það getur verið þörf á að koma hraðfrystihúsum upp á einhverjum stöðum, þar sem tæplega eru tök á því, að koma saman svo einhuga og öflugum félagsskap, að hann sé heppilegasti aðili til að beita sér fyrir málinu. Við höfum á síðari árum fengið reynslu fyrir því, að hreppsfélög geti verið langtum traustari aðili til þess að koma upp slíkum húsum en nokkurt félag útvegsmanna og sjómanna. Ég skal benda á það, að eitt af nýjustu frystihúsunum og það, sem forstjóri sænska frystihússins hér telur eitt myndarlegasta frystihús landsins eftir stærð, frystihúsið á Bíldudal, hefir verið reist af hreppsfélaginu þar á staðnum, sem á húsið og kemur til með að reka það.

Mér finnst, að hv. sjútvn. þurfi að taka það til athugunar, hvort hér gætir ekki óþarfa einstrengingsskapar í þessu ákvæði, hvað sem um frv. má segja að öðru leyti. — Þá hefi ég ekki getað fallizt á það, að þessi fríðindi verði ekki látin ná til nýbyggðra frystihúsa, sem vitanlega hefir verið komið upp með miklum fjárhagslegum erfiðleikum, og til þeirra orðið að afla fjár, sem hlýtur að hvíla nokkuð þungt á rekstrinum fyrst um sinn, svo að ég taki nærtækt dæmi af Bíldudal. Með því móti, að láta þessi nýreistu frystihús ekki verða aðnjótandi þeirra hlunninda, sem frv. gerir ráð fyrir, sé ég ekki betur en að verið sé að hefnast á þeim, sem mesta framtakssemi og skilning hafa sýnt á nauðsyn þessa máls, þrátt fyrir það þótt lagaleg vernd væri ekki fyrir hendi fyrir slíka starfsemi.

Af þessum orsökum tel ég, að þetta frv. þurfi stórkostlegra bóta við, að því er þetta atriði snertir, og ég get ekki neitað því, að ég tel þetta frv. vitanlega standa að öllu leyti að baki því frv., sem við alþýðuflokksmenn flytjum.

Mér skildist á hv. þm. Barð., að hann vildi vera með þessu frv. með breyt., sem hann tók ekki nánar fram, hverjar væru. (BJ: Ég tók það ekki fram, að ég væri með frv.). Mér skildist hv. þm. láta í ljós velvilja sinn í garð frv., en úr því að hann er ekki enn búinn að átta sig á, hvort hann vill, að frv. komi fram eða gangi fram, þá er sjálfsagt að gefa honum umhugsunarfrest, jafnvel þótt það kunni að dragast í nokkra mánuði. En ef hv. þm. skyldi nú finna það út úr sinni sál, að hann vildi, að málið gengi fram, þá vil ég vona, að hann noti aðstöðu sína í hv. sjútvn. til þess að líta í þau horn, þar sem frystihús eru, sem komið hefir verið upp með miklum erfiðleikum, og geri sitt til, að þau yrði ekki afskipt af fríðindum þeim, sem þetta frv. gerir ráð fyrir handa hraðfrystihúsum, þó að þessi frystihús séu ekki reist af sjómönnum og útvegsmönnum, heldur sveitarfélögum eða hreppsfélögum og séu þeirra eign. — Hv. þm. Barð. minntist á frystihúsmálið í sínu kjördæmi og telur, að það sé að miklu leyti óleyst. Það er satt. Á tveimur stöðum í kjördæmi hans hafa menn mikinn áhuga fyrir því, að koma upp frystihúsum, og það er í Flatey og á Patreksfirði. Að því er snertir frystihúsmál Flateyinga, er mér kunnugt um af gögnum, sem ég hefi í höndunum, að þeir hugsa sér fyrst og fremst að koma upp kjötfrystihúsi. Í fyrra vetur átti ég eftir beiðni kjósenda þar vestra, tal við þá menn í Framsfl., sem hafa verið mestu ráðandi í þessu máli með till. sínum um það, hvar kjötfrystihús yfirleitt verði sett. Valdamesti maðurinn af þeim upplýsti það, að Flateyingar hefðu ekkert við frystihús að gera, því að þeir hefðu ekki bolmagn til að standa undir því. Ég geri ráð fyrir, að hv. þm. Barð. hafi fengið svipað svar.

Ég er sammála hv. þm. Barð., ef hann má skilja svo, að hann telji, að Flateyingar eigi rétt á að koma upp frystihúsi á staðnum og að það eigi að vera fyrir kjöt, fisk og beitu, og ég geri ráð fyrir, að þegar þetta mál verður athugað til fulls, þá muni það sýna sig, að það er fullkomlega hagnaðarlegur grundvöllur undir rekstur þessa húss, en hinsvegar sé ég enga von um, að það verði framkvæmt, fyrr en áhrifaríkir menn í Framsfl. eru búnir að breyta skoðun sinni, frá því sem hún er í till, þeirra um þetta mál í fyrra. í m frystihúsmál Patreksfjarðar er það að segja, að menn eru nýfarnir að hugsa um það, og mér skilst, að það hafi ekki komið skriður á málið þar að verulegu leyti, fyrr en hafizt var handa um framkvæmd frystihússins á Bíldudal. En hinu þarf ekki að lýsa fyrir staðarkunnugum mönnum, að Patreksfjörður er sá staður á Vesturlandi, sem bezt er í sveit komið um sjávarútveg, og þess vegna er fremur ótrúlegt, að gert verði mikið í því, að koma upp hraðfrystihúsum fyrir fisk til útflutnings, svo að ekki þyki skynsamlegt að setja upp frystihús á þeim stað.

Mér skilst, að hv. þm. Snæf. sé búinn að nota ræðutíma sinn í þessu máli, en ég ætla þó að minnast á eitt atriði viðvíkjandi ræðu hans. Hann taldi of mikið, að hlutaðeigendur legðu fram 15%, eins og við gerum ráð fyrir. Ég held ekki, að þetta sé of hátt. Sem dæmi skal ég taka það, að ég veit til þess, að áhugi manna og trú á nytsemi þessara framkvæmda er svo mikil, að í mjög illa stöddu þorpi, þar sem menn hafa ekki mikla fjármuni handa á milli, hafa menn staðfest áhuga sinn fyrir því, að koma upp frystihúsi, sem kostar 75000 kr., með því að leggja fram sjálfir 15000 kr., sem raunar er hrein gjöf, og það er meira en 15%. Og það er enginn vafi á því, að það greiðir meira en nokkuð annað fyrir framkvæmdum í þessu máli, þegar þeir, sem eiga fyrirtækið og nota, hafa sýnt í alvöru, að þeir vilja leggja eitthvað í hættu til þess að koma fyrirtækinu á fót.