03.04.1937
Neðri deild: 30. fundur, 51. löggjafarþing.
Sjá dálk 557 í C-deild Alþingistíðinda. (1824)

93. mál, hraðfrysting fisks

*Bergur Jónsson:

Ég er sammála hv. 9. landsk. um það, sem hann sagði viðvíkjandi þessu máli, þangað til hann fór að svara hv. þm. Snæf., því að það heyrði ég ekki. Ég er sammála honum um það, að ákvæði 4. gr. frv. verði ekki aðeins látin ná til félags útgerðarmanna og sjómanna, heldur og til hreppsfélaga. Ég hafði áður reynt að fá menn þarna vestra til að mynda með sér samvinnufélag, en þeir gátu ekki komið sér saman um það, af hvaða ástæðum sem það var. Mér þótti það leitt, og þess vegna var Borgarnes, sem í eðli sínu er ekki sjávarpláss, látið ganga fyrir Bíldudal.

Í öðru lagi er ég sammála hv. 9. landsk. um það, að rétt sé að láta hlunnindi þau, er frv. gerir ráð fyrir, einnig ná til þeirra frystihúsa, sem búið er að reisa, og er ég glaður yfir því, að þessi réttlætiskennd skuli koma fram hjá hv. þm. Hv. þm. minntist á 2 frystihúsamál í Barðastrandarsýslu, sem ég hefi sent fjvn. eftir beiðni manna fyrir vestan. Annað var frystihúsmál Flateyinga. Það er satt, að þeir vilja fyrst og fremst fá kjötfrystihús, en það er brýn nauðsyn á því, að það verði svo stórt, að það geti einnig orðið fyrir beitu og fisk. Hv. þm. segist hafa talað við áhrifamikinn framsóknarmann, sem ekki hafi talið æskilegt að setja frystihús í Flatey. Þetta má vel vera, það eru skiptar skoðanir í öllum flokkum. Þá var það frystihúsmál Patreksfjarðar. Ég tel það mikið nauðsynjamál. Ég heyrði nú ekki svo vel stundum til hv. 9. landsk., það dró dálítið niður í prestinum með köflum. En mér þykir gott að geta átt von á hans góðu samvinnu í þessu máli. Ég er þess fullviss, að ef hraðfrystihús yrði byggt á Patreksfirði, þá yrði það til mikils góðs fyrir kaupstaðinn. Ég vona sem sagt, að við hv. 9. landsk., sem erum sammála um þetta, getum unnið saman að framgangi málsins, hvort sem það nú verður með samtölum eða hugskeytum.