16.04.1937
Neðri deild: 40. fundur, 51. löggjafarþing.
Sjá dálk 561 í C-deild Alþingistíðinda. (1836)

93. mál, hraðfrysting fisks

*Sigurður Kristjánsson:

Það er aðeins vegna ummæla hv. 6. landsk., sem ég kvaddi mér hljóðs. Hann taldi það mjög stórvægilegan galla á frv., svo mikinn, að það væri ekki hægt að samþ. nema með verulegum breyt., að ekki væm gerðar ráðstafanir til þess að afla fjár til þess að standa undir þeim kostnaði, sem af frv. leiddi, ef það yrði samþ. En það er í fyrsta lagi ósýnt, hvort kostnaðurinn verður mikill eða lítill; það fer eftir því, hve margir hefjast handa um þetta, og svo ætla ég, að honum sé kunnugt um, að það er gert ráð fyrir slíkum kostnaði, þó að hann segði, að svo væri ekki, í 24. gr. fjárl., og beinlínis lagt svo fyrir, að kostnaður, sem leiðir af slíkri löggjöf eða þáltill., skuli koma fram sem breyt., á frv., svo að ef frv. það, sem hér liggur fyrir, yrði samþ., þá væri fallin skylda á herðar hæstv. stj., að sjá fyrir fé til framkvæmdar laganna.

Út af því, sem hv. þm. Barð. sagði, að þáltill.formið sé öruggasta leiðin til þess að koma þessu máli fram núna, vil ég segja, að það er rétt, að það er minnst hætta á, að málið dagi uppi, ef sú leið er farin, en hún er veikari og ófullkomnari en lagaleiðin, og það er mín sannfæring, að ef það væri vilji flokkanna að leysa málið, þá væri hægt að gera það í lagaformi, og sé ekki, að þingrof þurfi að vera því neitt til fyrirstöðu. Það hefir alls ekki verið ákveðið neitt opinberlega um það, að þingið skuli rofið, og mér er ekki kunnugt um annað en að þau ágreiningsmál, sem almennt hefir verið talið, að mundu valda þingrofi, séu óðum að jafnast eða jafnvel öll fallin í ljúfa löð, og ég sé þess engin merki, að nokkur ágreiningur sé á milli stjórnarflokkanna í nokkru máli, a. m. k. er hjónabandið mjög elskulegt, og ég ætla, að meðferðin bæði á bráðabirgðal. um leigunám mjólkurstöðvarinnar og bráðabirgðal. um stjórn síldarverksmiðja ríkisins beri vott um, að allt sé nú að falla í ljúfa löð. Málið, sem talið var upphaflega, að mundi valda þingrofi, frv. um gjaldþrot Kveldúlfs, virðist líka alveg sofnað út af, svo að meðan er verið að finna eitthvert tilefni til þingrofs, finnst mér skaðlaust, þó að mál, sem allir flokkar viðurkenna, að er nauðsynjamál, verði afgr., jafnvel þótt það lengi þingið um 1–2 daga. Þó að ég neiti því enganveginn, sem hv. þm. Barð. segir, að það sé fljótlegasta leiðin til þess að fá þetta samþ., að fara þál.leiðina, þá vil ég alveg ákveðið fara fram á að þetta mál verði afgr. í frv.formi, af því að ég veit, að það er í rauninni ekki hægt að mæla á móti því, að það sé hægt, ef það er rétt frá skýrt hjá hv. þm. stjórnarflokkanna, sem ég að svo komnu máli vil ekki efa, að þessir flokkar vilji koma málinu í einhverri mynd gegnum þingið, og ég mun hafa það til marks um, að sá vilji hafi ekki verið eins einlægur og hreinn og látið er í veðri vaka, ef þetta frv. kemst ekki í gegnum þingið.