16.04.1937
Neðri deild: 40. fundur, 51. löggjafarþing.
Sjá dálk 562 í C-deild Alþingistíðinda. (1837)

93. mál, hraðfrysting fisks

*Finnur Jónsson:

Ég skal ekki lengja umr. verulega. Ég vil aðeins taka undir það, sem hv. 6. þm. Reykv. sagði, að það væri miklu ófullkomnara að afgreiða þáltill. um svo stórt mál heldur en að setja um það lög, og ég álít, að það sé mjög nauðsynlegt, að til þeirra laga sé svo vandað, að það nái ekki tilgangi sínum að afgreiða málið með einfaldri þál. Ennfremur nær till. hv. þm. Barð. miklu skemmra en bæði till. okkar alþýðuflokksmanna og till. sjálfstæðismanna. Í till. hv. þm. Barð. er gert ráð fyrir, að ríkið leggi fram 1/4 af stofnkostnaði. en viðvíkjandi lánsútveguninni er ekki talað um annað en aðstoð ríkisstj. til lánsútvegunar til hraðfrystihúsa þeirra, sem styrkja ber samkv. till. Ennfremur vantar í till. öll ákvæði um skilyrði fyrir þessum styrk, sem verður að sjálfsögðu að setja með l.

Viðvíkjandi því, sem hv. 6. landsk. sagði, að öll ágreiningsefni milli stjfl. væru fallin niður, þó að sætt væri komin um ágreininginn í síldarverksmiðjumálinu, þá er vitað, að það er alls ekki rétt, því að það er ágreiningur milli stjfl. um Kveldúlfsmálið, og það er ágreiningur um frv. til viðreisnar togaraútgerðinni, og það er ágreiningur um þetta almenna viðreisnarfrv., sem verður hér til umr. í kvöld, og það er ágreiningur um þær lagabreyt., sem Alþfl. hefir stungið upp á í sambandi við landsbankalögin, svo að ágreiningsefnin eru sannarlega nóg, þó að búið sé að ná samkomulagi um eitt af þeim ágreiningsmálum, sem ef til vill hefir ekki hvað minnsta þýðingu fyrir þjóðfélagið.