08.04.1937
Neðri deild: 33. fundur, 51. löggjafarþing.
Sjá dálk 568 í C-deild Alþingistíðinda. (1861)

98. mál, verzlunarráðuneyti, utanríkisverzlun og eftirlit með verðlagi

*Flm. (Emil Jónsson):

Þótt þetta frv. sé merkilegt í sjálfu sér, þarf ég þó ekki að tala mikið fyrir því, þar sem því fylgir ýtarleg grg. og 3 ritgerðir eftir sænska hagfræðinginn Lundberg, sem vann að því samkv. ósk skipulagsnefndar atvinnumála. Frv. er flutt hér á þingi eftir ósk atvmrh. Efni frv. er um það, hversu skipa skuli utanríkisverzluninni, um verzlunarmálaráðuneyti og um eftirlit með verðlagi. En skipulag utanríkisverzlunarinnar er þó veigamesti þátturinn í frv., eins og utanríkisverzlunin sjálf er það í fjárhagslegu sjálfstæði þjóðarinnar. Skuldasöfnun við útlönd er ávallt í sambandi við verzlunina, eins og skýrslur n. sýna. Það er því mjög þýðingarmikið, að eyða ekki meira en aflað er og geyma frá góðu árunum til hinna vondu. því skal samkv. frv. gera gjaldeyrisáætlun fyrir verzlunina á sama hátt og fjárlög fyrir ríkið. Við samningu þessarar gjaldeyrisáætlunar er gert ráð fyrir, að hinn væntanlegi seðlabanki verði höfuðaðili og ráði mestu um hana, en verzlunarmálaráðuneytið hafi úrskurðarvald. Að vísu eru ávallt annmarkar á því, að setja verzluninni skorður. En n. vill draga sem mest úr þeim annmörkum. Mest ríður á, að úthlutun leyfa til vörukaupa sé heppileg og óhlutdræg og að leyfunum sé ekki úthlutað beint til kaupmanna og kaupfélaga, heldur til sambanda þessara aðilja.

Þá er gert ráð fyrir skipun innflutningsnefndar með nokkrum öðrum hætti en nú er, þannig að hún skuli skipuð fulltrúum innflytjenda og neytenda, en ráðh. skipi formann. Ætlazt er til, að menn þessir séu verzlunarfróðir, þótt eigi þurfi þeir að vera lærðir í skóla.

Ennfremur eru í frv. ákvæði um dreifingu hinna innfluttu vara. Er tilgangurinn sá, að sneiða hjá þeirri verðhækkun, sem skömmtun hefir ávallt í för með sér, með álagningarskatti, sem svo á að nota til að bæta mönnum upp misjafna aðstöðu og einnig á að renna til nýrra fyrirtækja og til verðuppbótar handa framleiðendum.

Til þess að annast framkvæmd þessara mála, skal setja upp verzlunarmálaráðuneyti, sem m. a. hefir vald til að skipa verzlunarfulltrúa erlendis. Hér hefir að vísu legið fyrir þáltill. um utanríkismál. En ég teldi ekki ólíklegt, að utanríkismálanefnd myndi komast að svipaðri niðurstöðu við rannsókn þeirrar hliðar utanríkismálanna, sem að verzluninni snýr, og við höfum komizt hér í frv.