07.04.1937
Efri deild: 33. fundur, 51. löggjafarþing.
Sjá dálk 68 í B-deild Alþingistíðinda. (187)

13. mál, Kreppulánasjóður

*Atvmrh. (Haraldur Guðmundsson):

Út af því, sem hv. 1. þm. Skagf. sagði, að það yrði ekkert eftir af þessu fé í sjóðnum, ef farið yrði eftir því, hvað bæjarfélögin teldu fullnægjandi lán fyrir sig, vil ég benda á það, að það eru ekki bæjarstjórnirnar, sem eiga að meta þetta, heldur sjóðsstjórnin, og hún metur það ekki eingöngu með tilliti til þarfa bæjanna, heldur einnig með tilliti til þess, hvað tryggt er að lána.

Í sambandi við það, sem hv. þm. sagði, að sum bæjarfélögin hefðu fengið svo há lán sem sjóðsstjórnin hefði talið tryggt að veita, þá skal ég ekki draga það í efa, en ég sé ekki í sjálfu sér, að trygging bæjanna þurfi nokkuð að minnka, þó að þeir fái nýtt lán til þess að borga öðrum lánardrottnum, sem hafa rétt til að ganga að bæjunum út af sínum lánum. Það er ekki gert ráð fyrir að veita viðbótarlán, heldur að breyta eldri lánum í tiltölulega vaxtalág lán, og við það verður greiðslugeta bæjanna ekki minni, heldur þvert á móti.