05.04.1937
Neðri deild: 31. fundur, 51. löggjafarþing.
Sjá dálk 572 í C-deild Alþingistíðinda. (1875)

101. mál, lágmarksverð á sauðakjöti innanlands

Páll Zóphóníasson:

Þótt málið komi í n., sem ég á sæti í, að þessari umr. lokinni, verð ég að segja nokkur orð. Ég vil fyrst og fremst láta í ljós gleði mína yfir því, hvernig hv. 6. þm. Reykv. smátt og smátt færist nær hinu rétta í þessu máli, eins og menn sjá af afstöðu hans til kjötsölulaganna fyrst og síðar af þeim brtt., sem hann hefir flutt á undanförnum þingum, og nú síðast á þessu frv. Þetta gleður mig mjög, og ég ætla, að ef við ættum eftir að vera saman á 2–3 þingum enn, myndum við vera orðnir sammála um kjötsölulögin. Það, sem ég einkum vildi tala um af því, sem hv. þm. minntist á nú, er sú skoðun, sem áður hefir og komið fram í útvarpsumr., að kjötneysla hafi minnkað mikið í landinu við kjötsölulögin,. og að hv. þm. virðist álíta, að kjötsölulögin nái yfir að sjá um söluna. Það er mesti misskilningur, að kjötverðlagsnefnd og ríkið sjái um söluna, heldur sér hver maður um sölu á sínu kjöti. Það, sem þessi misskilningur um hina minnkandi innanlandssölu er byggður á, er skýrsla á blaðsíðu 174 í áliti skipulagsnefndar atvinnumála, en sú skýrsla er fengin þannig, að kjötframleiðslan er áætluð þannig, að lamb sé eftir hverja framtalda á og að lömbin hafi sama þunga öll árin. Frá þeim kjötþunga, sem þannig er fundinn, er síðan dregið það, sem verzlunarskýrslur telja útflutt, og sagt, að mismunurinn sé innanlandsneyzlan. En þetta verður rangt af fleiri ástæðum, og þannig gerður árasamanburður alrangur. Fyrst er það, að misjafnt er um lambalífið, og ekki nærri alltaf, sem lamb er undir á. Það er t. d. vitað öllum kunnugum, að svo var ekki 1933, þegar innanlandskjötneyzlan á að hafa verið svona mikil. Í öðru lagi er fjarri því, að meðalsláturlambið sé jafnþungt frá ári til árs. Það vita allir, að 1933 varð fé það rýrast, sem það hefir orðið á landi hér um langt skeið, og síðan hefir meðallambaþunginn aftur verið að aukast. Hann er 1 kg. meiri í haust en haustið 193. Kjötþunginn í heild fæst því ekki réttur með þessu móti. En svo er langt frá því, að kjöt frá hverri sláturtíð eða hverju ári, sé flutt út á því ári. Það eru alltaf birgðir við hver áramót, og þær oft ákaflega mismiklar. 1933, þegar skýrslurnar segja innanlandsneyzluna svona mikla, eru áramótabirgðirnar miklar, og þær eru svo aftur dregnar frá 1934 og látnar minnka innanlandssöluna það ár og gera hana litla. Annars eru til skýrslur um þetta efni, síðan kjötverðlagsnefnd tók til starfa, um sölukjötið innanlands. Um neyslu fjáreigenda sjálfra eru ekki til skýrslur. Og 1933 lét Briem safna skýrslum um kjötsöluna í landinu sem nú liggja fyrir hjá kjötverðlagsnefnd. Af þeim sést, að kjöt, sem selt hefir verið innanlands 1933, var 2300 tonn, 1934 2600 tonn og 1935 2400 tonn. 1936 lítur út fyrir að verði svipað og 1935.

Það, sem aðallega virðist hafa áhrif á, hvernig kjötið selst í landinu, er einkum tvennt, fyrst og fremst vægt kjötverð, en þó einkum afkoma manna í landinu. Fyrsta árið flokkuðum við kjöt þannig, að við settum kjöt af geldfé í sama flokk og dilkakjöt, og álitum við, að menn mundu alveg eins vilja kaupa kjöt af geldfé og dilkum, og með sama verði, en svo fór, að geldfjárkjötið seldist ekki svona dýrt og lá eftir óselt um haustið. Að fenginni þessari reynslu lækkuðum við geldfjárkjöt, og þá seldist það upp. Árangurinn af því, að geldfjárkjöt var lækkað, er sá, að nú selst það allt. Þegar kjötverðlagsn. er að verðleggja kjötið að haustinu, verðum við að hafa í huga, að svona mikið má selja til Noregs, svona mikið til Englands og svona mikið má vænta, að seljist í öðrum löndum, og það, sem ettir verður, verður að seljast innanlands. Hvað er þá óhælt að fara hátt með verðið, svo að varan seljist? Eftir því er reynt að haga verðinu, en það tekst ekki betur en svo, að bændur eru alltaf að kvarta undan því, að þeir fái ekki nóg verð fyrir kjötið, svo að ekki virðist of hált verðlagt. Og ekki hefir salan innanlands gengið það ört, að allt hafi verið selt í byrjun sláturtíðar. Það má því kannske finna að því, að verðinu hafi verið haldið full háu.

1935 er meðalverð til bænda fyrir það kjöt, sem selt er hér á landi, 87 aurar, en meðalútflutningsverð aðeins 76 aurar, svo að það ár er meðalverð til bænda 11 aurum hærra en útflutningsverð gat verið. Hvort það hefir verið nógu hátt til að svara kostnaði, skal ég ekki segja um, en ég fullyrði, að það hafi verið nægilega hátt fyrir kaupgetu landsmanna. T. d. var heimilað að selja úrvalsspaðkjöt 5 kr. hærra tunnuna, en enginn notaði sér þá heimild. Á hverju ári verður að stöðva sölu hjá nokkrum mönnum, vegna þess að þeir reyna að selja kjötið lægra en ákvæðisverðið er, og það er víst, að öll ásókn í að brjóta lögin er í það, að selja lægra, svo að þótt breytt yrði til, mundi ekki nást meira verð, en nú næst með lögunum, og salan mundi ekki aukast. Auk þess eru ákvæði hér í þessu frv., sem eru litt eða ekki framkvæmanleg, en um það tölum við síðar hér í þessari hv. d.