12.04.1937
Neðri deild: 36. fundur, 51. löggjafarþing.
Sjá dálk 574 í C-deild Alþingistíðinda. (1884)

102. mál, félagsdómur

Flm. (Gísli Guðmundsson):

Herra forseti! Góðir hlustendur! Frv. það, sem hér liggur fyrir, er ásamt frv. til l. um sáttatilraunir í vinnudeilum flutt af hálfu Framsfl. Bæði þessi frv. eru samin í n. þeirri, sem skipuð var af atvmrh. 15. des. síðastl. eftir áskorun Framsfl. til að undirbúa löggjöf um vinnudeilur, og byggjast þau á rannsóknum hennar á erlendri vinnulöggjöf með hliðsjón af viðhorfi þessara mála hér á landi. Ég skal þó strax geta þess, sem raunar er fram tekið í grg. frv., að frv. hafa ekki verið formlega samþ. í hinni stjórnskipuðu n., og ber því ekki formlega séð að skoða þau till. n. í heild, heldur sem till. frá fulltrúum Framsfl. í n. Hinsvegar er mér óhætt að fullyrða, að ekki hafi komið fram í n. verulegur ágreiningur um nein þau atriði, sem í frv. felast. En fulltrúar Alþfl. í n. voru þeirrar skoðunar, að ekki bæri að afgreiða það efni, sem í frv. felst, út af fyrir sig eða á þessum tíma, heldur ætti n. að semja heildarlöggjöf um vinnudeilur og „félagarétt“ og ekki láta hana koma fram opinberlega að svo stöddu. Fulltrúar Framsfl. gátu aftur á móti ekki séð, að nein ástæða væri til að draga afgreiðslu þessa hluta málsins, og því eru þessi frv. fram komin. Að öðru leyti vil ég taka það fram í þessu sambandi, að samvinna í mþn. hefir verið góð.

Frv. það, sem hér liggur fyrir, um félagsdóm, fer fram á það, að settur verði á stofn 5 manna dómstóll, sem skeri úr svonefndum réttarágreiningi milli verkamanna og vinnuveitenda. Sé formaður dómsins skipaður af hæstarétti, tveir dómarar tilnefndir af Alþýðusambandi Íslands og Vinnuveitendafélagi Íslands og tveir (lausir aukadómarar) af deiluaðiljum í einstökum deilum. En frv. um sáttatilraunir í vinnudeilum, sem einnig er flutt að tilhlutun Framsfl., er um að gera sáttasemjarafyrirkomulagið áhrifameira og sterkara en það nú er. Hv. þm. hafa átt kost á að kynna sér þessi frv. í þingskjölum, og fyrir hlustendum hefir þeim áður verið lýst í útvarpi. Ég mun því ekki nota hinn takmarkaða tíma til að rekja einstök atriði frv., heldur til þess að rifja upp fyrir þeim, sem á hlýða, skýringar og staðreyndir, innlendar og erlendar, um málið almennt.

Eins og fram er tekið í grg. frv., hefir n. gert sér far um að afla sér sem ýtarlegastra gagna viðkomandi þessum málum. Þegar á fyrsta fundi n. ákvað hún að snúa sér til sendiherra Íslands í Kaupmannahöfn og óska þess, að hann útvegaði henni alla gildandi vinnulöggjöf Danmerkur, Noregs og Svíþjóðar — því að svo var til ætlazt, að hún í starfi sínu hefði einkum hliðsjón af Norðurlandalöggjöfinni — og ennfremur vinnulöggjöf Bretlands og Frakklands. Þá óskaði n. eftir, að útveguð yrði helztu opinber rit, sem út hafa verið gefin á Norðurlöndum í sambandi við undirbúning vinnulöggjafar. Jafnhliða ritaði n. landssamböndum verkamanna og vinnuveitenda á Norðurlöndum og bað þau um álit þeirra á gildandi vinnulöggjöf viðkomandi landa og spurðist fyrir um, hvort á döfinni væru að þeirra tilhlutun till. til breyt. á þeirri löggjöf. Loks ritaði n. alþjóðavinnumálaskrifstofunni í Geneve og mæltist til, að sér yrðu send rit viðkomandi þessum málum, er helzt mættu að gagni koma við undirbúning vinnulöggjafar hér á landi.

Þá ritaði n. Alþýðusambandi Íslands og Vinnuveitendafélagi Íslands og óskaði upplýsinga um starfsemi þessara samtaka og meðferð þeirra á vinnudeilum hér á landi. Hún hefir ennfremur átt tal við núverandi sáttasemjara ríkisins í vinnudeilum og fengið hjá honum ýmsar upplýsingar, sem þýðingu hafa, viðvíkjandi starfsemi hans.

N. hefir haldið 53 fundi. Henni hefir borizt öll gildandi vinnulög áður umræddra landa ásamt fjölda rita um þessi mál, þar á meðal frá alþjóðavinnumálaskrifstofunni í Geneve. Landssambönd verkamanna og vinnuveitenda á Norðurlöndum hafa öll nema eitt svarað fyrirspurnum nefndarinnar.

Þá hafa n. borizt lög Alþýðusambands Íslands ásamt allmörgum vinnusamningum, er Alþýðusambandið og félög innan þess hafa gert, lög Vinnuveitendafélags Íslands og fleiri gögn frá þessum aðiljum.

Sú eina vinnulöggjöf, sem nú er til hér á landi, eru lögin um sáttatilraunir í vinnudeilum frá 1925. Framsfl. beitti sér fyrir þeim lögum, og tveir framsóknarmenn fluttu frv. á Alþingi. Og það er einnig Framsfl., sem nú á síðustu árum hefir haft forgöngu í því að skýra nauðsyn þessa máls fyrir þjóðinni og benda á þær leiðir, sem nytsamar og framkvæmanlegar hafa reynzt með öðrum þjóðum til eflingar vinnufriði. Vil ég þar sérstaklega minna á ræður þær, sem núv. hæstv. forsrh. hefir flutt um þessi mál og alþjóðareftirtekt hafa vakið. Þessi afstaða Framsfl. er alveg hliðstæð þeirri afstöðu, sem frjálslyndir milliflokkar annara landa hafa tekið til þessara mála, því að þeir hafa einmitt aðstöðu sinnar vegna yfirleitt gerzt brautryðjendur þess að tryggja vinnufriðinn. Og áhrif milliflokkanna á setningu vinnulöggjafar eru eina tryggingin fyrir því, að hún verði ekki hrein stéttarlöggjöf, sem henni annars hættir til að verða, ef annarhvor hinna stríðandi aðilja á að móta hana ettir sinni lífsskoðun.

Til þess að geta gert sér grein fyrir nauðsyn eða réttmæti þess málefnis, sem hér liggur fyrir, er nauðsynlegt, að svarað sé spurningunni: Hvað er vinnulöggjöf? Og til hvers er hún sett? Þessari spurningu vil ég leitast við að svara í fáum dráttum. Og ég hygg, að sérstök þörf sé á að svara henni vegna þess, að málið er tiltölulega nýtt hér á landi, og margir virðast gera sér um það talsvert óljósar og miður réttar hugmyndir. Og ég verð að segja það, að sumar upplýsingar, sem gefnar hafa verið úr vissum áttum um þetta mál, eru ekki til þess fallnar að skýra það á neinn hátt. Ég hefi séð það gefið í skyn á prenti, að ef vinnulöggjöf kæmist á, myndu verkföll vera úr sögunni hér á landi um tíma og eilífð og atvinnurekendum forðað frá gervöllum kauphækkunarkröfum héðan frá. En hitt hefi ég líka heyrt gefið í skyn úr annari átt, að vinnulöggjöf, hvernig svo sem hún er úr garði gerð, væri eitthvert lævíslegt vélræði uppfundið af einstökum mönnum hér á landi til fjandskapar við verkamenn. Hvorttveggja er álíka mikil fjarstæða. Það er að vísu til í einstaka landi vinnulöggjöf, sem útilokar verkföll, en vitanlega ekki kaupkröfur, en það er ekki slík löggjöf, sem til mála kemur hér á landi, eða tíðkazt hefir á Norðurlöndum. Takmark venjulegrar vinnulöggjafar er að draga úr skaðlegum afleiðingum vinnudeilna, en ekki að útiloka þær. Og vinnulöggjöf er heldur ekki uppfundin af einum eða öðrum óvini verklýðssamtakanna hér á landi, heldur er hún orðin sjálfsagður liður í löggjöf allra menningarþjóða, og það engu siður í þeim ríkjum, þar sem verkamannafl, fara með stjórn.

Vinnulöggjöf, eins og hún tíðkast í lýðfrjálsum löndum, er löggjöf um það, að verkamenn og vinnuveitendur heyi deilur sínar, þar á meðal verkföll sín og verkbönn, ettir ákveðnum reglum með það fyrir augum, að þjóðfélagsheildin, og þar á meðal deiluaðiljarnir sjálfir, bíði sem minnst tjón af. Hún er ekki fyrirskipun um það, að leiknum skuli hætt, heldur, hvernig hann skuli háður.

Jafnvel í hinum grimmustu styrjöldum hefir það á stundum þótt eðlilegt, að slíkar leikreglur væri settar og haldnar. T. d. að taka ekki venjulega herfanga af lífi og að nota ekki allra ómannúðlegustu tegundir vopna. Hví skyldi það þá mega vera, að aðiljar í vinnudeilum í friðsömu lýðræðislandi þyldu það ekki, að þeim væru reglur settar?

Á síðara hluta 19. aldar og á 20. öld hefir vinnulöggjöf verið sett svo að segja í hverju landi, þar sem hvítir menn byggja. En aðferðirnar, sem notaðar eru til að lægja vinnudeilur, eru nokkuð mismunandi, og fer það allmjög eftir hugsunarhætti, stjórnarfari og staðháttum hlutaðeigandi ríkja. Ég vil leyfa mér að gefa yfirlit um aðalaðferðirnar, og þá fyrst og fremst á Norðurlöndum.

Í Noregi og Svíþjóð gilda lög um vinnusamninga. Í þeim lögum eru ákvæði um, hvernig samningar milli verkamanna og vinnuveitenda skuli gerðir, til þess að þeir hafi gildi, hverskonar ábyrgð félög eða meðlimir beri á slíkum samningum, ákvæði viðvíkjandi samningstíma og uppsagnarfresti og hversu með skuli fara, ef ágreiningur kemur upp um skilning á samningi o. s. frv. Í Danmörku eru ekki til slík lög, en þar er í gildi svonefnd „septembersætt“, sem er samningur, sem verkamenn og vinnuveitendur gerðu með sér árið 1899, og ekki hefir verið hróflað við. Er þessi samningur einskonar „stjórnarskrá“ í vinnudeilum þar í landi, og þingið hefir byggt á henni vinnulöggjöf síðari ára. Í Svíþjóð eru lög um félaga- og samningsrétt 1936.

Löggjöf eins og þessi byggist á þeirri skoðun, sem ríkjandi er orðin á Norðurlöndum og víðar, að það sé ávinningur fyrir vinnufriðinn, að verkakaup og önnur vinnukjör í stórrekstri landsins sé að sem allra mestu leyti ákveðið með skriflegum samningum milli vinnuveitenda og verkamannafélaga. Hin gamla tregða vinnuveitenda við að viðurkenna verkamannafélögin sem samningsaðila er því að mestu eða alveg horfin í þessum löndum.

Í beinu sambandi við þessa þróun og áður nefnd lög um vinnusamninga eru svo lögin um vinnudómana á Norðurlöndum.

Bæði í Danmörku, Noregi og Svíþjóð eru vinnudómar, og eru þeir með mjög svipuðum hætti í þessum þrem löndum. Þessir vinnudómar eru settir á stofn til þess að skera úr ágreiningi, sem rísa kann út af skilningi á vinnusamningi eða út af því, að samningur hefir verið brotinn — eða hvort farið hefir verið í bága við lög. Sænsku og norsku vinnusamningalögin banna verkamönnum og vinnuveitendum að gera vinnustöðvun til að útkljá þann ágreining, sem undir dómstólana heyrir, og sama gerir danska septembersættin.

Þetta eru verkefni vinnudómanna á Norðurlöndum og annarsstaðar, þar sem samskonar löggjöf gildir. Og þetta á að vera verkefni félagsdómstólsins, sem frv. það, er hér liggur fyrir, gerir ráð fyrir, að stofnaður verði hér á landi. Þessir dómstólar hafa á Norðurlöndum, einkum í Danmörku, þar sem dómstóllinn hefir verið í lögum síðan 1910, haft fjölda mála til meðferðar. Og þeir hafa komið í veg fyrir mjög margvíslegar vinnustöðvanir, sem vafalaust hefði verið stofnað til af aðiljum til að útkljá þessa tegund ágreiningsins. — Ég tel rétt að geta þess, að í Noregi er til sérstakur dómstóll, sem dæmir í svonefndum boikottmálum, ennfremur starfsmannadómur og dómstóll, sem sker úr vinnudeilan við Áfengisverzlun ríkisins, og hefir hann meira vald en hinn almenni vinnudómstóll.

En svo er til í öðrum löndum önnur tegund vinnudóma með verkefni gerólík því, sem norrænu vinnudómarnir hafa. Að því mun ég víkja síðar.

Fyrirmyndina að hinum lögákveðnu vinnudómstólum af þessu tagi er að finna hjá aðiljum sjálfum. Það hefir þrásinnis verið sett inn í vinnusamninga á ýmsum tímum, að ágreiningur um skilning á samningum skuli leggjast undir gerðardóm. Hér á landi eru nokkur slík ákvæði. Má þar t. d. nefna samninginn, sem gerður var eftir Sogsdeiluna 1935. Þar komu aðiljar sér saman um slíkan gerðardóm, 5 manna, og skyldi lögmaðurinn í Reykjavík tilnefna 3 dómara, en aðiljar einn dómara hvor.

Annað mikilsvert atriði í vinnulöggjöf flestra landa eru hinar opinberu sáttatilraunir í vinnudeilum. Í því sambandi vil ég benda á það, að öllum vinnudeilum má skipta í tvo flokka. Annarsvegar er hinn svokallaði réttarágreiningur, en það er sá ágreiningur, sem norrænu vinnudómarnir skera úr og ég hefi áður lýst. Hinsvegar er það, sem kallað hefir verið hagsmunaágreiningur, þ. e. bein deila um kaup og kjör, þar sem samningur er ekki fyrir hendi eða úr gildi genginn.

Af slíkum deilum skipta norrænu vinnudómarnir sér ekki. Þar koma sáttatilraunir til sögunnar — eða þá sú tegund vinnudóma, sem ég kem síðar að. Sáttatilraunir eru í því fólgnar, að ríkisvaldið reynir að miðla málum milli aðilja, þó þannig, að þeir fallist á niðurstöðuna án þess þó að vera skyldugir til þess. Ríkisvaldið skipar þá að jafnaði sáttasemjara í vinnudeilum, stundum sátlanefndir. Hlutverk sáttasemjara er að fylgjast með deilunum og sjá um, að aðiljarnir fáist til að „tala saman“ og reyna alla samkomulagsmöguleika sín á milli. Náist ekki samkomulag um tilboð eða gagntilboð frá aðiljum, ber sáttasemjari að jafnaði sjálfur fram, till. til samkomulags, og er það lokatilraun til þess að jafna vinnudeiluna með þessari aðferð. Sáttasemjurum er oft veitt vald til að framkvæma meira og minna ýtarlega rannsókn málavaxta, t. d. rekstrarafkomu fyrirtækja.

Í Svíþjóð hafa verið til lög um sáttatilraunir síðan árið 1906, í Noregi síðan 1915 og í Danmörku síðan 1921. Í Svíþjóð ber sáttasemjarinn ekki sjálfur fram úrslitatillögu. Í dönskum lögum eru ákvæði frá árinu 1934 um það, að til þess að fella miðlunartillögu sáttasemjara þurfi tiltekinn hluti félagsmanna að greiða atkvæði og tiltekinn hluti greiddra atkvæða að vera á móti tillögunni. Sé þátttakan undir 25%, er sáttatillagan samþykkt. — Reglurnar um þetta voru í þinginu bornar fram af Steineke félagsmálaráðherra, sem er einn af þekktustu leiðtogum danskra jafnaðarmanna. En tilgangurinn er sá, að minni hluti félags geti ekki kastað félaginu út í vinnustöðvun, sem meiri hlutinn er á móti eða kærir sig ekki um. Þetta ákvæði hefir verið tekið upp í frv. Framsóknarfl. um sáttatilraunir í vinnudeilum.

Bæði í Noregi og Svíþjóð er það fyrirkomulag að skipta landinu í nokkur sáttaumdæmi með sáttasemjara í hverju umdæmi, og er það einnig upptekið í þessu frv.

Næst vil ég nefna aðferð, sem víða er notuð til eflingar vinnufriðnum, en það er bráðabirgðafrestun vinnustöðvunar. Aðferðin er í því fólgin, að bannað er að gera verkfall eða verkbann tiltekinn tíma, svo að ráðrúm fáist til að leita um sættir, áður en deilan hefir náð hámarki sínu. Á Norðurlöndum eru ákvæði þessu viðvíkjandi í sáttasemjaralögunum, og eru þau í aðalatriðum þessi:

Í Noregi hefir sáttasemjari vald til að banna vinnustöðvun, unz sáttatilraun er lokið, en aðiljar eiga rétt á, að banninu sé aflétt 14 dögum ettir að það var gefið út.

Í Danmörku getur sáttasemjari samkv. lögum 1934 gert það að skilyrði fyrir sáttaumleitunum, að ekki sé hafin vinnustöðvun næstu 7 daga. Auk þess er í septembersættinni samningsákvæði, sem fyrirskipa tilkynning vinnustöðvunar með 14 daga fyrirvara. Í Svíþjóð var árið 1935 samþykkt, að tilkynna skuli vinnustöðvun með viku fyrirvara, að viðlagðri 300 kr. sekt.

Um þetta atriði, sem er mjög þýðingarmikið, en jafnframt bæði vandasamt og viðkvæmt, tel ég, að setja þurfi sérstök lög hér á landi, en ég álít það ekki nægilega undirbúið eða tímabært á þessu þingi.

Ég hefi hér stuttlega lýst þeim aðalaðferðum, sem nú gilda í vinnulöggjöf Norðurlanda og annarsstaðar, þar sem hliðstætt fyrirkomulag er. Þó vil ég nefna það, að í Noregi eru ýms lagaákvæði til að hindra refsiaðgerðir (boikott), líkt og mjólkurverkfallið var hér. Og í Svíþjóð hefir í mörg ár, en árangurslaust, verið reynt að fá samkomulag um lög, sem verndi rétt „þriðja manns“ til að standa utan við vinnudeilu. Það hefir ennþá ekki tekizt. En ég vil, áður en ég kem að hinum strangari aðferðum í vinnulöggjöf, minnast á eitt íhugunarvert atriði: Í enskumælandi löndum er mikið upp úr því lagt, að láta almenningsálitið í landinu hafa áhrif á deiluaðilja til friðsamlegrar lausnar. Í þessu skyni er sérstakri rannsóknarnefnd falið að kynna sér deilumálið til hlítar frá upphafi og birta síðan niðurstöður sínar opinberlega. Á þennan hátt er ætlazt til, að almenningur fái aðstöðu til að mynda sér skoðun um, hvor aðili hafi meira til síns máls, eða hvort annaðhvor þeirra eða báðir hafi sýnt óbilgirni. Síðan er gengið út frá, að almenningsálitið muni hafa áhrif á þann, sem veikari hefir málstaðinn, og gera hann fúsari til sátta.

Ákvæði í þessa átt höfum við tekið upp í frv. um sáttatilraunir í vinnudeilum.

Ég kem þá að því fyrirkomulagi í vinnudeilum, sem áreiðanlega hefir vakað fyrir sumum mönnum hér á landi og sumstaðar tíðkast eða hefir verið reyni, en það er að ákveða kaup og kjör verkamanna með lögum eða bindandi dómi.

Þessi aðferð er algerlega óskyld sáttatilraunum í vinnudeilum eða hinum norrænu vinnudómstólum, sem eingöngu fjalla um réttarágreining, eins og félagsdómur á að gera. — Þetta fyrirkomulag, að ákveða kaup með dómi, var tekið upp í Ástralíu um síðustu aldamót, en hefir nú verið afnumið þar. Það var reynt í Noregi um tíma, en lagt niður attur, af því að það reyndist óframkvæmanlegt og fékk almenningsálitið á móti sér. Nú er það notað í Ítalíu, Þýzkalandi og Rússlandi.

Það er einmitt þetta fyrirkomulag, sem íslenzkir verkamenn óttast, þegar um það er að ræða að setja vinnulöggjöf hér á landi. Það er þetta, sem verkamenn í ýmsum löndum hafa kallað „þrælalög“. En þetta fyrirkomulag hefir yfirleitt ekki orðið ofan á í lýðræðislöndunum. Og ég hygg, að þeir séu ekki mjög margir, sem slíkt fyrirkomulag vilja hér á landi.

Ég sagði, að þetta fyrirkomulag, að ákveða kaup með dómi, væri yfirleitt ekki notað nú í lýðræðislöndunum. Þó tel ég rétt að nefna tvær undantekningar, sem mér er kunnugt um frá síðustu árum. Þær eru, þótt e. t. v. megi einkennilegt virðast í sumra augum, báðar frá löndum, þar sem verkamannaflokkar hafa valdaaðstöðu.

Ríkisþing Dana hefir þrívegis á undangengnum árum, 1933, 1934 og 1936, samþykkt lög, þar sem alvarlegum yfirstandandi vinnudeilum var með lagaboði ráðið til lykta á þann hátt, að bannað var að hefja eða halda áfram vinnustöðvunum og kaupið, sem um var deilt, ákveðið með gerðardómi. Og fjórðu lögin sama efnis er danska þingið einmitt að samþykkja þessa dagana.

Stjórn Leon Blums í Frakklandi, sem studd er af frjálslyndum mönnum, jafnaðarmönnum og kommúnistum, hefir á árinu 1936 gripið til hliðstæðra aðgerða til að binda enda á hinar umfangsmiklu vinnustöðvanir á því ári. Samkvæmt lögum frá franska þinginu 31. des. 1936 og stjórnarskipun undirritaðri af forseta lýðveldisins 16. jan. 1937, skal hætta öllum vinnustöðvunum þegar í stað og leggja deilumálin fyrir sáttanefnd. Beri sættir ekki árangur, ákveðst kaupið af gerðardómi.

Ég fer nú að ljúka máli mínu. Ef umræðurnar verða til þess að skýra þetta vandasama og viðkvæma mál fyrir þjóðinni og eyða tálvonum eða fordómum, sem við það eru tengdar hjá ýmsum, tel ég þær ávinning. En ef það er tilgangurinn að nota þessar umræður frammi fyrir alþjóð til þess að blása að kolunum milli hinna stríðandi aðilja, þá gera þær samkomulag um málið erfiðara eftir á og eru til tjóns fyrir lausn þess. Þess vegna vil ég eindregið beina því til þeirra, sem kunna að telja sig sérstaklega forsvarsmenn verkamanna og vinnuveitenda í þessum virðulega sal, að flytja ekki viðureign sína í þessum umræðum út á þann vettvang, sem málinu mætti til óþurftar verða. Þetta mál er til þess flutt, að stuðla að friði, og það hentar því að öllu athuguðu bezt, að umræður um það fari fram með sem minnstum ófriði.

Eins og tekið er fram í grg. frv., eru þau í öllum meginatriðum sniðin eftir lögum frændþjóða vorra. Öll atriðin í þessum frumvörpum eru ákvæði, sem búin eru að vera í gildi undir stjórnum ýmsra flokka, þar á meðal núverandi verkamannastjórnum Norðurlanda. Hófleg og skynsamleg vinnulöggjöf hefir yfirleitt með reynslunni hvarvetna unnið sér fylgi og traust jafnvel þeirra, sem henni voru andstæðir í fyrstu. Árið 1910 máttu danskir vinnuveitendur t. d. ekki heyra nefndar sáttatilraunir í vinnudeilum. Nú dettur þeim ekki í hug að fara fram á afnám þeirra. Árið 1928 hófu sænskir verkamenn allsherjar mótmæli gegn sænsku lögunum um vinnusamninga og vinnudóm. En nú í vetur lýsir ritari sænska verkamannasambandsins, Sigfried Hansson, yfir því í bréfi til vinnulaganefndarinnar, að eftir nánari kynningu af þessum tvennum lögum og framkvæmd þeirra óski sænskir verkamenn ekki ettir afnámi þeirra. Þeim fjölgar óðum, sem taka undir þessi orð Staunings forsætisráðherra Dana á aðalfundi danska verkamannasambandsins 8. maí 1934: „Við höfum ekki ráð á að láta allt fara í hundana til þess eins að vernda slagsmálaréttinn.“ („Vi har ikke Raad til at lade alt falde for at bevare Friheden til Slagsmaal.“)

Til þeirra manna úr verkamanna- og sjómannastétt sem hlýða á þessar umræður, vil ég að lokum beina máli mínu. ég veit, að að því hefir verið unnið sérstaklega, að gera þessi frv. tortryggileg í augum þessara stétta, og að það hefir verið vanrækt að halda uppi nauðsynlegri fræðslu í stéttarfélögunum um þróun þessara mála, t. d. þar sem verkamannaflokkar hafa valdaaðstöðu. Ég spyr vinnandi menn í þessum stéttum: Trúið þið því, þótt ykkur kunni að vera sagt það af einhverjum, að Framsfl. sé líklegur til að bera fram frumvörp til að niðast á verkamönnum og sjómönnum? Vegna Framsfl. og fyrir hans atbeina eru togaravökulögin og lögin um verkamannabústaði orðin til. Það er Framsfl., sem tvívegis hefir hindrað það, að stofnað væri til stéttarlögreglu á hendur verkamönnum. En Framsfl. er lýðræðisflokkur og hann heimtar það, að verkamenn og vinnuveitendur hagi deilum sínum í samræmi við lýðræðið og eftir þeim reglum, sem sjálfsagðar eru taldar í löndum, þar sem hinar vinnandi stéttir í sveit og borg fara með hin æðstu völd.