12.04.1937
Neðri deild: 36. fundur, 51. löggjafarþing.
Sjá dálk 603 í C-deild Alþingistíðinda. (1889)

102. mál, félagsdómur

Garðar Þorsteinsson:

Herra forseti! Áður en ég sný mér að efni þessa frv., sem hér liggur fyrir til umr., vil ég fara nokkrum orðum um þau afskipti, sem hinir einstöku flokkar hafa haft af undirbúningi vinnulöggjafar. Að vísu er hér aðeins frv. um félagsdóm til umræðu, en það frv. er aðeins einn þáttur vinnulöggjafar, þannig að ég vona, að hæstv. forseti leyfi, að önnur atriði snertandi vinnulöggjöfina, svo sem vinnusamningar og sáttatilraunir í vinnudeilum, séu einnig rædd.

Á landsfundi Sjálfstfl. í byrjun apríl 1929 var samþ. ályktun um það, að nauðsyn bæri til þess, að sett væri vinnulöggjöf. Eftir því, sem ég bezt veit, mun þetta vera fyrsta samþykktin, sem gerð hefir verið af pólitískum flokki í þá átt, að vinna að setningu slíkrar löggjafar. Þessi samþykkt landsfundarins var raunverulega gerð í tilefni þess, að nýlega var afstaðið verkfall á togurum, er bakaði þjóðinni stórkostlegt tap. Nauðsyn slíkrar löggjafar varð oss Íslendingum ekki jafnsnemma ljós og öðrum þjóðum, vegna þess að atvinnulíf vort er frábrugðið. Það er fyrst upp úr aldamótunum, sem landsmenn eignast hin stórvirku atvinnutæki til sjávarins, er gera það að verkum, að fólkið fer að flýja sveitirnar til þess að njóta arðsamari atvinnu kaupstaða og kauptúna. Upp úr þessu myndast verkaskipting, meira en áður var, atvinnurekenda og atvinnuþiggjanda, og deilur byrja að rísa um skiptingu arðsins, og þessi hagsmunaágreiningur, sem þar kemur fram, leiðir til vinnustöðvana. Slíkar vinnustöðvanir, hvort sem þær eru gerðar af vinnuþiggjanda eða atvinnurekanda, hljóta fyrst og fremst að leiða af sér tjón fyrir aðiljana sjálfa, sem að slíkum deilum standa, en sem síðan bitnar á allri þjóðinni og veldur henni stórtjóni.

Eins og hv. þm. Snæf. skýrði frá, hafa aðrar þjóðir fyrir alllöngu sett löggjöf snertandi þessi málefni. Verkfallið mikla 1929 opnaði augu manna fyrir nauðsyn einhverrar þeirrar löggjafar, sem mætti verða til þess, að slíkt endurtæki sig síður, eða a. m. k. að framkvæmdarvaldið fengi styrkari aðstöðu til þess að verjast slíku.

1933 skorar landsfundur Sjálfstfl. á þm. hans að beita sér fyrir réttlátri og ýtarlegri vinnulöggjöf. Eftir kosningarnar 1934 tók þingflokkur Sjálfstfl. þetta mál á ný upp, en Vinnuveitendafélag Íslands hafði einnig hafizt handa um undirbúning slíkrar löggjafar, og á árinu 1935 átti stjórn þess félags nokkrum sinnum tal um það við formann Alþýðusambands Íslands, að samvinna yrði um það milli Vinnuveitendafélagsins og Alþýðusambandsins, að samin yrði vinnulöggjöf, sem bezt samrýmdist þeirri reynslu, sem fengin var á slíkri löggjöf á Norðurlöndum, lagaða eftir íslenzkum staðháttum. 4. jan. 1936 voru Alþýðusambandinu síðan sendar till. í því máli, og var til þess ætlazt þá, að þessi félög gerðu með sér samning, svipaðan dönsku septembersættinni 1899, og á slíkum samningi væri reist nauðsynleg löggjöf. Alþýðusambandið svaraði þessu með bréfi, dags. 29. jan. 1936, þar sem það er tilkynnt, að það muni ekki taka afstöðu til þessa máls, fyrr en umsögn stærstu verklýðsfélaganna sé fengin um það, hvort slíkir samningar væru æskilegir. Þar eð þannig sýnt þótti, að Alþýðusambandið vildi ekki sinna þessu, var af Sjálfstfl. samið frv., þskj. nr. 72 1936, um vinnudeilur. Voru þær till., er Vinnuveitendafélag Íslands hafði komið fram með, að mestu leyti lagðar til grundvallar, þó að hinsvegar ýmsu væri þar breytt.

Afstaða sósíalista til þessa máls hefir stöðugt verið sú, að reyna að draga þetta mál og beita sér með þeim hætti gegn því, eftir því sem þeir hafa getað. Framsfl. á Alþingi hefir hinsvegar tekið vinsamlega í málið og viðurkennt nauðsyn þess, og hæstv. forsrh. viðhafði þau ummæli á þingi í fyrra, að gengið væri þannig frá frv. okkar sjálfstæðismanna, að líklegt væri, að því væri vel tekið af báðum aðiljum. Ummæli hans nú eru því dálítið einkennileg, þar sem hann segir, að þetta frv. geti ekki orðið nein sætt milli aðilja; það sé samið af vinnuveitendum og það séu þeirra till., sem fram koma í frv., en annara ekki. Ef þessu er þannig farið, — hvers vegna var hæstv. ráðh. það þá ekki ljóst á síðastl. þingi og hvernig stendur á því, að þau 2 frv., sem Framsfl. nú ber fram á Alþ., eru nákvæm upptugga úr þessu frv. Sjálfstfl.? Það er að vísu svo, að ýmsu er sleppt, en það er ekkert það í frv. Framsfl., sem ekki er einnig í okkar frv. Og ég vil til þess að sanna þetta leyfa mér að benda til grg., sem fylgir frv. hv. þm. N.-Þ., þar sem hann skýrir frá því, að þetta frv. sé samið eftir danskri, sænskri og norskri löggjöf. Hvað er frv. Sjálfstfl. annað en að vera samið upp úr löggjöf þessara sömu þjóða? Hver er svo munurinn? Og ég vil spyrja hæstv. forsrh., hvar réttur verkalýðsfélaganna sé gerður. minni í frv. Sjálfstfl. heldur en í hans flokks frv.? Hitt er svo rétt, sem hann hefir eftir Morgunblaðinu, að frv. Framsfl. gengur of skammt, ekki að vísu í þeim skilningi, sem hann vildi reyna að læða hér inn, að það gengi of skammt í því, að halla á rétt verkalýðsfélaganna, heldur gengur það of skammt hvað ýtarleg ákvæði snertir. En það er ekki eitt einasta atriði í frv. okkar sjálfstæðismanna, sem að nokkru leyti gæti gengið á rétt verklýðsfélaganna, án þess, að það einnig væri í frv. Framsfl. Þessi afstaða hæstv. ráðh. nú er því í engu samræmi við ummæli hans á síðasta þingi.

Fulltrúi Framsfl. í allshn. á þinginu 1936 gerði síðan till. um, að skipuð væri mþn. til að athuga þetta mál og koma fram með till, í því. Þetta var að vísu gert, og 15. des. 1936 skipaði atvmrh. 4 manna n., en þar var þó gengið algerlega framhjá atvinnurekendum, og fengu þeir þannig engan fulltrúa í þeirri n. Sósíalistar hafa eflaust hugsað sér með því móti að gera hvorttveggja í senn, að koma fram með þær till. einar, er atvinnurekendur ekki gætu sætt sig við og hinsvegar jafnframt að draga málið, eftir því sem hægt yrði. Sósíalistum má þó vera það ljóst, að ekki er hægt að fá friðsamlega lausn þessa máls án þess, að tekið sé tillit til beggja aðilja.

Fulltrúar Framsfl. hafa komið fram hér á Alþingi með 2 frv. snertandi vinnulöggjöfina; annað um félagsdóm en hitt um sáttatilraunir í vinnudeilum.

Ég verð nú að telja, að ef Framsfl. hefði haft hug á að leysa þetta vandamál, þá hefði hann að sjálfsögðu eins getað samþ. það frv., er Sjálfstfl. bar fram nú á alþingi, eins og að koma fram með 2 frv., sem bera það með sér, að þau eru samin upp úr frv. sjálfstæðismanna, en hinsvegar ýmsu því sleppt, sem brýn nauðsyn er að lögfesta.

Frumvarp okkar sjálfstæðismanna er í 3 meginköflum. Fyrsti kaflinn er um vinnusamninga, hvernig þeir verði gerðir og hverjir geri þá. Ákvæði þau, sem þar koma fram, finnast ekki í frv. Framsfl. Það er þó ljóst, að koma þurfa fram í löggjöfinni nánar skýringar á því, hvernig slíkir samningar verði gerðir og hverjir geri þá, svo og hverjir beri ábyrgð á þeim. Þetta var þeim mun sjálfsagðara, þar sem einmitt er tekið fram í frv. Framsfl., að félagsdómur eigi að dæma um brot á vinnusamningum. Í frv. okkar sjálfstæðismanna eru verkalýðsfélögin og Alþýðusamband Íslands jafnt og atvinnurekendafélög, viðurkennd sem réttir samningsaðiljar. — Á 13. þingi Alþýðusambands Íslands í nóv. 1936 er gerð krafa um, að þessi viðurkenning fáist. Sú viðurkenning er löngu fengin og skjalfest í þessu frv., og er hér um eina af vísvitandi blekkingum sósíalista að ræða, gerða til þess að reyna að læða því inn hjá almenningi, að Sjálfstfl. beitti sér gegn viðurkenningu á samningshæfi félaganna.

Í þessum kafla eru og ákvæði um það, hverjar samþykktir þurfi að gera innan félaga, til þess að vinnustöðvun megi hefjast, og með hvaða fyrirvara hún skuli hafin. Það er að sjálfsögðu nauðsynlegt að hafa ákvæði um það í lögunum, að verkamenn sjálfir á fundi skuli ákveða, hvort vinnustöðvun eigi að fara fram eða ekki, en ekki nokkrir ábyrgðarlausir æsingamenn. Jafnsjálfsagt er einnig að tilkynna mótaðiljanum með nokkrum fyrirvara, að verkfall eigi að hefja. Heill þjóðfélagsins krefst þess, að slíkur fyrirvari sé gerður, til þess að ríkisvaldið geti látið fram fara tilraunir til að koma á sáttum. Þetta, eða svipað ákvæði, sem gildir á öllum Norðurlöndum og víðar, er alls ekki tekið upp í frv. Framsfl., og ekki heldur eru nein ákvæði um það, að verkalýðsfélögin og vinnuveitendafélögin beri ábyrgð á því, að deildir þeirra og einstakir meðlimir haldi þá samninga, er gerðir hafa verið.

Annar kafli frv. okkar sjálfstæðismanna svarar til frv. Framsfl. um sáttatilraunir í vinnudeilum. Frv. er einnig auðsæilega samið eftir þessum kafla, en þess hinsvegar ekki gætt, að endurprenta hann nákvæmlega, heldur sleppa nokkrum atriðum, sem nauðsynlega verða að vera lögfest. Þar vantar t. d. mjög þýðingarmikið ákvæði í frv. Framsfl., sem sé það, að vinnustöðvun megi ekki fara fram fyrr en eftir ákveðinn tíma frá því, að sáttasemjarinn hefir fengið málið í hendur, og að hann geti í einstökum tilfellum bannað vinnustöðvun, á meðan sáttatilraunir fara fram. Ákvæði um þetta, sem gilda í Danmörku, hafa nú nýlega verið notuð af sáttasemjara ríkisins, sem bannaði verkfall.

Frv. um félagsdóm svarar til þriðja kafla frv. okkar sjálfstæðismanna, um vinnudómstól, og hefði einnig farið betur á því, að frv. okkar hefði verið nákvæmlega fylgt. Í frv. Framsfl. er gert ráð fyrir, að í félagsdómnum eigi sæti 5 menn, og séu 4 tilnefndir af málspörtunum sjálfum, í stað þess, að við teljum eðlilegt, að hæstiréttur tilnefni 3 menn, til þess að dómstóllinn sé sem mest óháður. Ef 4 eru tilnefndir af málspörtunum, velta úrslit máls raunverulega ætíð á einum manni, en slíkt er hættulegt fyrir réttlát úrslit. Sömuleiðis vantar í þetta frv. ákvæði um það, hvenær vinnustöðvun sé ólögleg o. s. frv.

Ýms fleiri ákvæði eru það, sem nauðsynleg mega teljast í slíkri löggjöf og vantar í frv. framsóknarmanna, þó að ég hinsvegar hafi ekki tíma til þess nú, að ræða það nánar.

Sósíalistar berjast gegn framgangi þessarar löggjafar. Þeir hafa ásamt vinum sínum, kommúnistum, gert allt, sem í þeirra valdi stendur, til þess að gera þessa löggjöf tortryggilega. Sósíalistar hafa þannig reynt að telja mönnum trú um það, að þessi löggjöf væri einhver þrælalöggjöf, sem svipti einstaklingana eða verkalýðsfélögin rétti til verkfalla og að vinnudómstóllinn ætti að dæma um það, fyrir hvert kaup einstaklingarnir skyldu vinna á hverjum tíma og hvort kaupið skyldi vera þetta eða hitt á hverri klukkustund. En hér er að sjálfsögðu um vísvitandi rangfærslur og blekkingar að ræða, að því er snertir sáttatilraunir í vinnudeilum, er eini munurinn á þeim ákvæðum og gildandi löggjöf sá, að sáttasemjari ríkisins og héraðssáttasemjarar fá aukið vald, að því leyti, að þeir eiga kröfu til að fylgjast meira en nú er með þeim vinnusamningum, sem gerðir eru á milli verkalýðsfélaga og atvinnurekenda. Ef tilefni er til að efast um, að ekki náist samningar um kaupgjald, ber sáttasemjurum að fylgjast með því, fá upplýsingar um allar aðstæður, og síðan verða aðiljarnir, hvort sem það er vinnuveitandi eða verkalýðsfélag, að láta fara fram sáttatilraun, áður en vinnustöðvun skellur á, og sáttasemjararnir geta undir vissum kringumstæðum bannað vinnustöðvun ákveðinn stuttan tíma.

Enginn hefir efazt um, að lögin frá 1925 um sáttatilraunir í vinnudeilum hafi gert mikið gagn, og iðulega hefir sáttasemjaranum tekizt að jafna deilurnar. Ríkisvaldið og heill þjóðarinnar hlýtur að eiga kröfu til þess, að gerðar séu af hinu opinbera úrslitatilraunir til þess að koma á sáttum. Ef sættir hinsvegar ekki takast, hafa verkalýðsfélögin og atvinnurekendur allan sama rétt og þau hafa nú til þess að gera verkfall eða verkbann. Þessi áhrifamikli réttur þeirra til stöðvunar atvinnulífsins er því ekki af þeim tekinn, heldur aðeins er framkvæmd hans undir vissum kringumstæðum frestað um stund. Sannleikurinn er einnig sá, að engum vinnuveitanda eða verkamanni dettur í hug að neita því, að ekki skuli gerð ýtarleg tilraun til sátta. Engin löggjöf er t. d. til um það, að vinnuveitendur og verkalýsfélög skuli, áður en slitnar upp úr samningum, kjósa sérstaka samninganefnd úr sínum hópi. En reynslan hefir kennt mönnum þetta. Ég hygg, að nú orðið sé ætíð kosin af hvorum aðilja samninganefnd til að reyna að fá samkomulag, og nú eru t. d. starfandi slíkar nefndir frá vinnuveitendum og Dagsbrún. Áframhaldið af slíkum tilraunum til að ná samningum er að sjálfsögðu það, að óháður, óhlutdrægur maður, sem sé sáttasemjari ríkisins, reynir sættir og kemur með miðlunartillögur. Þetta hvorttveggja finnst nú öllum orðið sjálfsagt, verkamanninum jafnt sem atvinnuveitandanum. En þá koma á eftir til greina pólitískir hagsmunir broddanna, hvort sem þeir bera merki sósíalista eða kommúnista, sem sé þeir, að fá aukið vald verkfallsins með því að fá því skellt á fyrirvaralaust. Slíkir ábyrgðarlausir pólitískir ofstopamenn hugsa þá ekki um hag heildarinnar. Þeir fara ekki heldur eftir því, hvort meiri hlutinn af þeim, sem málið skiptir, óskar ettir vinnustöðvun, heldur hefir reynslan sýnt, að hún er þvinguð fram, — jafnvel borin fram af stólfótum, ef ekki öðru.

Þessir forsprakkar sósíalista og kommúnista óttast ekki, að með frv. okkar sjálfstæðismanna eða frv. Framsfl. sé verið að taka einhvern rétt af verkamanninum, heldur óttast þeir, að það sé verið að minnka pólitískt vald þeirra sjálfra. Löggjafarvaldið og framkvæmdarvaldið getur hinsvegar ekki tekið tillit til slíkra persónulegra pólitískra hagsmuna. Það er skylda þess að vernda vinnufriðinn og forðast til hins ýtrasta örlagaríkar og langvarandi deilur. Þetta er það, sem löggjöf um sáttatilraunir á að tryggja, en svipta alls ekki einstaklinga eða félög rétti til vinnustöðvana, ef sáttatilraunir bregðast.

Sá dómstóll, sem samkv. frv. okkar á að starfa, er ekki til þess að dæma um upphæð kaupgjalds, heldur er þar um að ræða sérdómstól, sem á raunverulega að dæma um það eitt, hvort samningar hafi verið brotnir af öðrum hvorum aðilja eða ekki. Sá réttur, sem hverjum einstaklingi mun vera einna helgastur, er réttur hans til þess að geta borið mál sitt undir dómstólana, þannig að hann geti fengið af óhlutdrægum mönnum úrskurð um þau mál, er snerta réttindi hans eða skyldur. Sú leið, er menn almennt geta farið, er að leita til hinna hæglátu og seinvirku almennu dómstóla. Hér stendur svo sérstaklega á, að aðiljum er nauðsynlegt að fá enda bundinn á þrætu sína um það, hvort samningur hafi verið brotinn eða ekki, mjög fljótt. Af fjárhagslegum og þjóðhagslegum ástæðum er ekki hægt að bíða úrslita hinna almennu dómstóla, og þess vegna er hér settur á stofn sérdómstóll, skipaður 3 óhlutdrægum mönnum, tilnefndum af hæstarétti, og 2 tilnefndum af málspörtum, er hafi sérstaka þekkingu á öllum málavöxtum. Þessi dómstóll skal síðan kveða upp dóm á mjög skömmum tíma. Með þessu er því ekki verið að taka rétt af hvorugum aðilja, heldur er verið með sérstökum ákvæðum að tryggja rétt þeirra og hagsmuni. Hinu verður svo ekki gleymt, að dómstóllinn dæmir aldrei um það, fyrir hvaða kaup einstaklingurinn eigi að vinna, aðeins um gildi og skilning á samningum. Kaupgjaldið er alveg óviðkomandi þessum dómstól.

Vinnulöggjöf, sniðin eftir frv. okkar sjálfstæðismanna, að fenginni reynslu annara þjóða, gerir því hvorttveggja í senn, að viðurkenna rétt beggja aðiljanna, atvinnuþiggjandans og atvinnuveitandans, og heimila þeim eftir sem áður vinnustöðvun, en tryggja þeim jafnframt skjótan dóm sinna mála. Svo tekur hún og tillit til hagsmuna alþjóðar, þannig að það sé tryggt, að allt sé gert af því opinbera, sem megi verða til þess að fyrirbyggja slíka truflun á atvinnulífinu, sem vinnustöðvun hefir í för með sér, og fyrirbyggja það tjón, sem einstaklingarnir og þjóðin í heild sinni ætíð hljóta að bíða við hana.