12.04.1937
Neðri deild: 36. fundur, 51. löggjafarþing.
Sjá dálk 610 í C-deild Alþingistíðinda. (1891)

102. mál, félagsdómur

*Hannes Jónsson:

Hæstv. forsrh. sagði í ræðu sinni áðan, að einhverntíma yrði að byrja á því að segja verkalýðnum satt frá þessum málum, ef á annað borð ætti að fá lausn á þeim. Út af þessum orðum hæstv. ráðh. vil ég spyrja hann, hvers vegna eigi þá ekki að segja þeim allan sannleika, eins og t. d. hvernig Framsfl. hugsar sér að leysa þetta vandamál í samstarfi við sósíalista? Þá vildi ég og spyrja hæstv. ráðh., hversvegna flokkur hans sé að dylja sinn rétta vilja í þessu máli, og ennfremur, hvers vegna hann sé að bera mál þetta fram nú í þinglokin?

Í þessu sambandi er dálítið skemmtilegt að athuga það, sem framsóknarmenn hafa alltaf látið dynja á okkur bændaflokksmönnum, þegar við höfum verið að bera fram hér á Alþingi mál bændanna. Þá hefir jafnan kveðið við: Hvers vegna kemur það ekki með þetta og hitt, á meðan að þið höfðuð aðstöðu til þess að koma því fram? Hvers vegna eruð þið nú fyrst að koma með þetta? o. s. frv. Nú gera þessir háu herrar nákvæmlega það sama og þeir hafa verið að saka okkur um. Þeir koma fram með frv., sem þeir vila, að þeir koma ekki fram í þinginu nema í samvinnu við sósíalista, en þeir eru eindregið á móti því. Hvers vegna er nú verið að leika þennan skollaleik? Og hvernig stendur á því, að hæstv. forsrh. hefir ekki borið fram frv. til fullkominnar lausnar á þessu máli, á meðan hann hafði aðstöðu til þess að koma því í gegn? Honum hefir án efa verið kunnugt um það fyrr en í vetur, hvaða lög gilda í þessum málum hjá nágrannaþjóðum okkar. En nú ber hann það fram, þegar kosningar standa fyrir dyrum. Öll framkoma hæstv. ráðh. bendir ótvírætt til þess, að þetta sé allt einn skollaleikur hjá honum og flokki hans, aðeins til þess að reyna að villa þjóðinni sýn nú við í hönd farandi kosningar, blekkja hana í þessu máli sem öðrum.

Þá sagði hæstv. ráðh., að jafnaðarmenn hefðu ekki viljað leggja neitt fram um þessi mál í þetta sinn. En eftir þeim upplýsingum, sem ég hefi fengið af störfum n., sem skipuð var í vetur til þess að athuga þessi mál, þá er ekki annað hægt að sjá en að hvorugur stjórnarflokkurinn hafi viljað leggja neitt fram um þessi mál nú. Það er ekki fyrr en Framsfl. sér, að kosningar eru fyrir dyrum, að hann hrekkur við og kemur með þetta frv. — Þá hefir hæstv. forsrh. ekki neitað því, sem sagt hefir verið, að frv. þetta sé meinlaust kák, enda tæplega hægt fyrir hann, þar sem það er augljóst, að það gengur miklu skemmra en samskonar löggjöf á Norðurlöndum. Eitt var það, sem hæstv. ráðh. sagði í hinni mjög svo einkennilegu ræðu sinni, að kröfur tímans væru þær, að þessum málum væri skipað með skynsamlegri löggjöf. Þetta er vitanlega rétt, en ég vil spyrja: Hvers vegna gerir hann enga tilraun til þess að skipa málunum á þessa leið fyrr en nú, þegar hann sér enga möguleika til þess að koma till. sínum fram? Það er óneitanlega eitthvað bogið við þessa framkomu ráðh.

Hv. 2. þm. Reykv. sagði, að frv. sjálfstæðismanna um vinnudóm væri það veikasta, sem frá þeim hefði komið um þessi mál. Mér finnst, að þeir geti verið ánægðir með að fá þessa viðurkenningu, að þeir séu þó dálítið að batna. Annars finnst mér það ekkert ámælisvert, þó að menn vilji sveigja til í málum í von um, að til samkomulags geti leitt.

Þó að það sé eðlilegast, að þetta mál sé leyst í sameiningu af vinnuveitendum og vinnuþiggjendum, þá verður varla talið forsvaranlegt að bíða svo lengi með lausn þess, að sósíalistar skilji nauðsynina á að leysa það. A. m. k. verður ekki séð, eftir því sem þýtur í tálknunum á kommúnistum, að útlit sé fyrir, að samkomulag náist við þá fyrst um sinn. — Þá sagði hv. 2. þm. Reykv., að verkalýðsfélögin ættu sjálf að setja sér lög, en ekki aðrir. Þetta er rétt, á meðan þau setja sér ekki þau lög, sem allri þjóðarheildinni getur orðið til hins verra. Slíka löggjöf þarf að hindra. Það er næsta eðlilegt, að þessi hv. þm. spyrji framsóknarmenn, hver sé ástæðan fyrir því, að þeir hraði málum þessum svo mjög nú. Ég þykist nú vita, að hv. þm. fari nærri um ástæðuna, enda þótt hann spyrji. Hann veit það eins og flestir, að það er enginn vilji hjá Framsókn að flýta þessum málum nú, heldur eru þau borin fram sem mótleikur á móti Kveldúlfsleik jafnaðarmanna. Um nauðsyn þess að setja löggjöf um þetta mál eru allir sammála nema sósíalistar; þeir vilja hafa óbundnar hendur til þess að geta otað fólkinu út í vinnudeilur, þegar þeim sýnist. Að vinnudeilurnar geti ekki harðnað frá því, sem þær hafa verið til þessa, hafa engin rök verið færð fram fyrir, og t jónið af þeim orðið meira en ennþá er fram komið. Þvert á móti bendir flest til hins gagnstæða, því að eftir því sem samtök atvinnurekendanna aukast, eftir því vex hættan á því, að þjóðin geti beðið tjón af vinnudeilum. Til þessa hefir það að vísu verið svo, að samtök verkamanna hafa verið sterkari en atvinnurekendanna, og því í flestum tilfellum orðið til þess að ráða úrslitum. En fari svo, að atvinnurekendur verði öflugri, þá er ekki óhugsandi, að verkamenn biðji um löggjöf um þetta efni, en ég tel ekki rétt að bíða eftir þeim árekstrum, sem af því kunna að verða, og því sé réttara í þessu tilfelli sem öðrum, að byrgja brunninn, áður en barnið er dottið ofan í hann.