12.04.1937
Neðri deild: 36. fundur, 51. löggjafarþing.
Sjá dálk 613 í C-deild Alþingistíðinda. (1893)

102. mál, félagsdómur

*Garðar Þorsteinsson:

Herra forseti! Ég ætla lauslega að minnast á nokkur atriði í ræðum hv. þm., sem talað hafa.

Hv. þm. N.-Þ., er síðastur talaði, tók það réttilega fram, að ýms atriði vantaði í okkar frv., sem í gildi væru á Norðurlöndum. Þetta er tekið fram í grg. fyrir frv. okkar sjálfstæðismanna. Hér verður að semja lög um þetta efni, er miðast við íslenzka staðhætti. Það er rangt hjá honum, að þetta sé ekki allt tekið fram í grg. okkar, en hv. þm. er kannske vorkunn, því að sú grg. var prentuð á erlendu máli. Hitt er leiðinlegra, ef þessi hv. þm. ætlar nú að fara að draga sig til baka til vinstri í þessu máli, til sinna fyrri félagsbræðra, sósíalista og kommúnista, svo að maður geti búizt við að heyra samskonar gleðihróp úr þeirri átt og heyrðust um daginn frá sameiningarathöfninni á Siglufirði.

Hv. 1. landsk. og hv. 2. þm. Reykv. sögðu báðir, að sósíalistar væru ekki á móti því, að ríkið gerði sáttatilraunir í vinnudeilum. Hvers vegna eru

þeir þá á móti þeim kafla í okkar frv., er fjallar um þetta efni? Það v:eri fróðlegt að heyra þá færa rök fyrir því, að frv. okkar brjóti í bág við hag alþýðunnar. En hvað hefir gerzt í Danmörku, þar sem jafnaðarmenn eru í meiri hluta? Það er vitað, að sáttasemjari ríkisins þar hefir rétt til að banna verkfall, meðan samningar standa yfir, og það hefir endurtekið sig hvað eftir annað, að miðlunartillögur hans hafa verið lagðar fyrir Ríkisþingið og verið afgreiddar sem lög frá þinginu. Ég býst við, að sósíalistum hér þætti það hart, ef`farið væri fram á slíkt í frv. sjálfstæðismanna, þótt flokksbræður þeirra í Danmörku hiti sér slíkt vel líka. Nei, andstaða sósíalista hér gegn frv. okkar sjálfstæðismanna stafar af því, að kosningar standa fyrir dyrum, en ekki af því, að þeir séu að hugsa um málstað verkamannanna. Sósialistar eru hér, alveg eins og í Kveldúlfsmálinu, að reyna að komast í veg fyrir kommúnista, af því að þeir óttast þá; það eru ekki hagsmunir verkamannanna, heldur pólitískir hagsmunir þeirra sjálfra, sem ráða afstöðu þeirra. Þeir afneita kommúnistum, en taka upp stefnu þeirra í verki, neita þeim í orði, en játa á borði. Þeir ætla sér að reyna að afvopna kommúnista í næstu kosningum, enda hafa þeir sjálfir sagt, að þeir þurfi að bera eitthvað fram til að útiloka kommúnista. Sósialistar samþ. að vísu á 13. þingi Alþýðusambandsins í haust, að alþýðan vildi enga vinnulöggjöf nema eftir sínu höfði. En hvernig er það með Alþýðusambandið, hvernig starfar það, og hvernig eru þing þess saman sett? Það eru ekki verkamenn, sem ráða þar: það eru aðrir, sem ráða. Ég vil út af því leyfa mér að visa til 14. gr. samþykkta alþýðusambandsins; þar segir, að kjörgengi fulltrúa á sambandsþing og í opinberar trúnaðarstöður fyrir sambandsins eða flokksins hönd sé bundið við, að fulltrúinn sé alþýðuflokksmaður og tilheyri engum öðrum stjórnmálaflokki. Og hann verður að gera meira. Áður en kosning fulltrúa er samþ. af fulltrúaráði á fjórðungsþingi eða á sambandsþingi, verður hann að skrifa nafn sitt undir stefnuskrá Alþfl. hjá forseta samkomunnar o. s. frv. Þannig er þessu farið. Það fer vitanlega enginn að halda því fram, að það séu hagsmunir verkamanna, sem hér er verið að tryggja, með því að gera það að skilyrði fyrir réttindum á þingum Alþýðusambandsins, að fulltrúar tilheyri vissum stjórnmálaflokki, eins og allir verkamenn tilheyri þeim flokki. Nei, það er ekki þess vegna, sem fulltrúarnir þurfa að gefa út yfirlýsingu um fylgi við vissan flokk, það er vegna pólitískra hagsmuna sósíalista, vegna pólitískra hagsmuna Héðins Valdimarssonar, en ekki vegna hagsmuna verkamanna Þess vegna er það ekkert skilyrði fyrir góðri lausn þessara mála, að hún verði alveg í samræmi við samþykktir Alþýðusambandsins. Hv. 2. þm. Reykv. sagði, að gerðardómur mætti dæma um vinnusamninga í einstökum tilfellum, ef samið væri um það fyrirfram af báðum aðiljum, að gerðardómur skyldi dæma um ágreininginn. En hver er munur á því, að láta gerðardóm dæma þannig í einstökum tilfellum, og hinu, að setja generalt ákvæði í lög um slíkan dómstól? Þar er vitanlega enginn munur á.

Hæstv. forseti tilkynnir mér að tími minn sé á enda. — Ég vil aðeins að lokum minnast á þá áskorun, sem hv. 2. þm. Reykv. flutti hér svo klökkur áðan til allra verkamanna á landinu um að standa fast á móti öllum lagaboðum um þetta mál. Það er ekki til verkamanna, heldur til flokksmanna hv. þm., sem þessi áskorun er flutt, af því að hann er hræddur um, að verkamennirnir séu að yfirgefa sig. Mín áskorun til verkamanna er sú, að þeir geri sér ljóst, að með frv. okkar sjálfstæðismanna er ekki verið að taka neinn rétt af verkamönnunum. Tilgangur frv. er að reyna að sætta þá, sem deila um skilning á gerðum vinnusamningum. Verkamenn hafa sama rétt til verkfalla og þeir höfðu áður. Vinnudómurinn á ekki að dæma um kjör verkamanna, heldur um vinnusamninga.