12.04.1937
Neðri deild: 36. fundur, 51. löggjafarþing.
Sjá dálk 617 í C-deild Alþingistíðinda. (1896)

102. mál, félagsdómur

*Forsrh. (Hermann Jónasson):

Herra forseti! Góðir hlustendur! Hv. þm. V.-Húnv. var aðallega kominn út í að tala um Búnaðarfélag Íslands, og skal ég ekki eyða orðum að því að svara honum um það mál. Aðeins vildi ég beina því til hans, að ég held, að það hafi ekki verið heppilegt fyrir hann að innleiða umr. um það mál. Það varð samkomulag um það mál, sem var komið fram af meiri hl. valdi bændanna sjálfra, þeim meiri hluta, sem fylgdi Framsfl. að málum. Það má segja, að það hafi ekki verið ég, sem sigraði í þeim málum; það voru bændurnir, sem stóðu með Framsfl., sem sigruðu, og um það hefir blað hv. þm. V.-Húnv. látið þau orð falla nýlega, að þeir hefðu fullmikið unnið til sátta, en það var að fá beinan kosningarrétt, sem Framsfl. bar fram.

Viðvíkjandi þessum umr. get ég tekið fyrsta atriðið, sem hv., 8. landsk. minntist á, að sáttasemjari Dana hefði nýlega samkv. valdi í lögum stöðvað vinnudeilur. Þetta er ekki rétt. Hann hefir ekki þetta vald samkv. lögum, og þetta sýnir, að þeir, sem fluttu frv. sjálfstæðismanna, hafa ekki kynnt sér sem bezt löggjöf Norðurlanda um þetta efni. Sáttasemjarinn getur aðeins gert að skilyrði, að leitað sé sátta.

Um þau rök, að hv. þm. N.-Þ. hafi ekki skilið grg. fyrir frv., vegna þess að hún var á erlendu máli, vil ég segja, að það sýnir bezt ástandið með rök, því að sennilega vita flestir hv. dm., að hv. þm. N.-Þ. muni ekki vera lakari tungumálamaður en hv. 8. landsk.

Annars kemur það fram í þessum umr., að aðalkrafa sjálfstæðismanna er, eins og kom fram á síðasta þingi, að málið verði komið fram þegar í stað. Ég benti á það í umr. í fyrra — það er rangt hjá hv. 8. landsk., að ég hafi ekki bent á það —, að galli á því frv., sem þá var til umr., var, að það var ekki byggt á samvinnugrundvelli. Ég vil ekki vera að lesa það upp, en get aðeins bent á, að það stendur á 276. bls. Alþt. 1936.

Það er vitað mál, að ekki er hægt að koma þessu máli fram nema með því móti, að skilningur beggja aðilja sé vakinn á því. Það er ekki hægt að knýja það fram með því móti, að annar aðilinn leggi fram sínar till. Þess vegna þarf mikla baráttu fyrir þessu máli. En hitt er annað mál, að annar aðilinn verður að gera einhverja tilraun til þess að skilja málið, og forgöngumennirnir verða að gera tilraun til þess að skýra málið og flytja um það fyrirlestra, en það er ágallinn hjá jafnaðarmönnum, að þetta hafa þeir ekki gert. Það hefir gætt meiri tregðu í þessu máli hjá þeim en hefði þurft að vera. Það var dregið að skipa n. til að undirbúa málið. Málið var ekki skýrt í verkalýðsfélögunum. Kommúnistar höfðu forystuna og voru látnir gera samþykktir um málið, sem voru byggðar á misskilningi og rangri málfærslu, m. a. að hér væri á ferðinni vinnudómur, sem ætti að ákveða um kaup og kjör verkalýðsins. Það var reynt að láta líta svo út af hálfu hv. 2. þm. Reykv., að Framsfl. hefði snúizt í þessu máli, snúizt á sveif með sjálfstæðismönnum, eins og hann orðaði það. Þetta er vísvitandi rangt hjá hv. 2. þm. Reykv. Hann hlýtur að vita, að við framsóknarmenn höfum stöðugt barizt fyrir þessu máli á undanförnum árum. Við komum fram lögum um sáttasemjara, og við hreyfðum þessu máli á flokksþingi okkar 1931, og ég hreyfði því í útvarpsræðu 1936. Það lá fyrir yfirlýsing frá okkur um þetta mál á þinginu í fyrra, og það liggur fyrir greinileg yfirlýsing frá flokksþinginu síðasta, sem samþ. var með einróma atkv. Afstaða Framsfl. hefir stöðugt verið hin sama í þessu máli. Við vitum, að það kostar baráttu að koma þessu máli fram, þegar skilningurinn á því er ekki nægilega mikill hjá þeim flokkum, sem standa sinn til hvorrar handar. Það kostar baráttu að skýra málið fyrir þeim, sem eiga undir lögunum að búa, og fá þá til að ganga inn á það. Þess vegna verðum við framsóknarmenn að heyja baráttu fyrir málinu, unz sigrinum er náð. — Það var líka látið skína í það hjá hv. 2. þm. Reykv., að það væri á einhvern hátt verið að níðast á verkalýðnum með því að koma fram með þessi frv. Þetta er rangt, og ég vil enn leiða athyglina að því, að þau frv., sem hér liggja fyrir, eru eins réttlát eins og þar sem vinnulöggjöf er réttlátust í þeim löndum, er flokksbræður jafnaðarmanna stjórna.

Ég vil líka vekja athygli á því, að ekki var svarað einu orði þeirri fyrirspurn, sem ég bar fram og óskaði eftir að yrði svarað —– og óskaði eftir að verkamenn tækju eftir —, að á hvern háu og í hvaða atriðum þau frv., sem hér liggja fyrir þinginu, gengju lengra heldur en vinnulöggjöf flokksbræðra jafnaðarmanna á Norðurlöndum. Það verður, eins og ég sagði í frumræðu minni, að segja verkamönnunum satt um þessi mál. Hér er ekki verið að takmarka neinn verkfallsrétt. Það, sem verið er að gera með þessu frv. og á að gera, er að takmarka slagsmálaréttinn. Það er verið að takmarka slagsmálaréttinn í þjóðfélaginu, slagsmálarétt, sem þjóðin hefir ekki efni á að eyða kröftum í, eins og forsrh. Dana benti á og vitnað var í í ræðu hv. þm. N.-Þ., og ég fyrir mitt leyti er sannfærður um og hefi bent á það með nokkrum rökum, að það er slagsmálarétturinn, sem er samtökum verkamannanna einmitt fyrir verstu að nota. Það hefir alstaðar sýnt sig, eins og ég benti á, að slagsmálarétturinn hefir leitt til niðurdreps fyrir verkamannasamtökin. Það er slagsmálarétturinn, sem hefir gefið þeim mönnum vopnin í hendurnar, sem hafa brotið niður verkamannasamtökin í einræðislöndunum. Ég þarf ekki að nefna neitt land. Dæmin eru nægilega ljós. Við ættum að muna eftir því, þegar nasistaforingi stóð nýlega í einu þessara einræðislanda á bak við hvítt verkfall til þess að brjóta niður verkamannasamtökin og notaði slagsmálaréttinn út í æsar. Ég trúi því og ég veit það, að málstaður verkamannanna er góður, og þess vegna er alltaf til hins verra að nota slagsmálaréttinn, því að það gefur þeim, sem hafa vondan málstað, rétt til þess að nota hann líka. Þá er ekki víst, að góði málstaðurinn sigri, Þess vegna ættu verkamannaforingjarnir fyrst og fremst að greiða fyrir þessu máli, einmitt vegna þess, að það er þeirra eigin samtökum fyrir beztu.

Síðan býð ég hlustendum góða nótt, því að ég býst ekki við að taka til máls aftur í kvöld.