07.04.1937
Neðri deild: 32. fundur, 51. löggjafarþing.
Sjá dálk 627 í C-deild Alþingistíðinda. (1913)

105. mál, Byggingarsjóður sveitanna

*Fjmrh. (Eysteinn Jónsson):

Það virðast allir vera sammála um, að nauðsyn beri til, að eitthvað sé lagt til beinlínis sem styrkur til þeirra manna, sem búa á illa húsuðum jörðum, til endurbyggingar eða viðgerða á húsum. Hér er á ferðinni annað frv., sem gengur í sömu átt og þetta frv., sem nú er til umr.; en í frv. því, sem borið er fram af 2 framsóknarmönnum hér í d., er gert ráð fyrir því, að nokkur hluti styrksins til byggingar- og landnámssjóðs verði látinn ganga beint til þeirra manna, sem verst eru staddir í byggingarmálunum. Ástæðan til þess, að sá kostur var tekinn að leggja þetta til en ekki koma með till. um nýtt framlag í þessu efni, var sú, að það var búið að ganga frá fjárlögum fyrir 1937, og þar var ekki gert ráð fyrir fjárveitingu í þessu skyni.

Það er eitt atriði í því frv., sem hér er til umr., sem ég vildi minnast á áður en frv. fer til n. Það er viðvíkjandi því, að auglýsa skuli skuldabréf fyrir byggingarsjóðinn og þau skuli vera með 31/2 % vöxtum, en skattfrjáls. Þetta er nýmæli, að fara þessa leið, og þetta er einskonar form fyrir því að styrkja þessa stofnun úr ríkissjóði: mér finnst Þetta óviðkunnanleg leið og álít að það eigi ekki á þessu stigi að gera ráðstafanir til að brjóta niður framkvæmd tekjuskattslaganna. Ég álít, að ef á að styrkja einhverja stofnun sérstaklega, þá eigi heldur að gera það með beinu framlagi úr ríkissjóði. Ef sú leið yrði farin, sem gert er ráð fyrir í frv., þá er ég ekki í nokkrum vafa um, að það er aðeins byrjun á þessari braut; það mundi verða haldið áfram á henni og afnuminn að verulegu leyti tekju- og eignarskatturinn, og því er ég algerlega mótfallinn. Ég er því að sjálfsögðu ekki mótfallinn, að frv. fái athugun í n., en ég vil aðeins um leið minna á það, að það er ákaflega ánægjuleg hugarfarsbreyting, sem kemur fram hjá hv. 1. flm. þessa frv. frá því, sem áður var, þegar Framsfl. var að berjast fyrir ýmsum styrkjum til bænda.