07.04.1937
Neðri deild: 32. fundur, 51. löggjafarþing.
Sjá dálk 627 í C-deild Alþingistíðinda. (1914)

105. mál, Byggingarsjóður sveitanna

*Flm. (Jón Sigurðsson):

Það eru aðeins örfá orð. Hæstv. ráðh. mælti með því, að málinu yrði vísað til n., og get ég verið þakklátur fyrir það. En hvað snertir aths. hæstv. ráðh. við þá tekjuöflun, sem við leggjum til í frv., þá skal ég játa, að það er nýtt form fyrir styrk úr ríkissjóði, en hitt get ég ekki kannazt við, að það brjóti á nokkurn hátt í bága við framkvæmd tekjuskattslaganna. Ég er sannfærður um, að ef þessu yrði haldið innan þeirra takmarka að hafa þetta fyrir þennan sjóð eingöngu, þá mundi nást talsvert mikið af fé, sem að litlu leyti kemur fram á annan hátt. Það er ekki til neins að loka augunum fyrir því, að tekju- og eignarskatturinn er orðinn það hár, að hann hlýtur að freista manna til að smeygja sér hjá því á einn eða annan hátt að greiða hann. Hinsvegar get ég hugsað mér, að fé sumra þeirra, sem hafa komizt á glapstigu í þessum efnum, rynni til þess arna.

Viðvíkjandi því, að það sé ánægjuleg hugarfarsbreyting, sem hafi orðið hjá mér, þá vil ég segja það, að þó ég hafi tekið afstöðu til eins eða annars atriðis fyrir 10 árum, þá er ekki þar með sagt, að ég hljóti endilega að standa í stað og hafa sömu afstöðu, hvernig sem aðstæður breytast. Ég veit, að hæstv. fjmrh. veit það eins vel og ég, að það hafa orðið stórkostlegar breytingar í sveit síðan árið 1928; þær hafa verið svo stórkostlegar, að það nálgast eignabyltingu. Það er ekki hægt að bera saman þær aðstæður, sem nú eru, og þær, sem voru þegar l. um byggingar- og landnámssjóð voru samþ. Ég vil bæta því við, að ég sé ekki ástæðu til að saka alla sjálfstæðismenn um fjandskap við það mál; ég man ekki betur en að það væru sjálfstæðismennirnir Jón heitinn Þorláksson og Pétur Magnússon, hv. 2. þm. Rang., sem báru fram till. um að hækka framlagið til byggingar- og landnámssjóðs úr 100 þús. kr. í 200 þús. kr. á ári. — Ég þarf ekki að hafa þessi orð fleiri; ég vildi aðeins svara þessu.