07.04.1937
Neðri deild: 32. fundur, 51. löggjafarþing.
Sjá dálk 628 í C-deild Alþingistíðinda. (1916)

105. mál, Byggingarsjóður sveitanna

*Pétur Ottesen:

Ég vil aðeins út af þeim ummælum, sem hæstv. fjmrh. hefir haft hér um afstöðu ýmsra sjálfstæðismanna til byggingar- og landnámssjóðs, segja það, að ég er undrandi yfir því, að hæstv. ráðh. skuli vera að endurtaka það rangmæli, sem framsóknarmenn hafa verið að reyna að þyrla upp um andstöðu sjálfstæðismanna gegn þessu máli. Það er öllum vitanlegt, sem með því máli hafa fylgzt, að sjálfstæðismenn voru fylgjandi frv. á þeim grundvelli, sem það var endanlega samþ. Það er rétt, að það var hv. 1. þm. Rang. ásamt þáv. form. Sjálfstfl., Jóni Þorlákssyni, sem flutti brtt. um að hækka árlega framlag til byggingarog landnámssjóðs um helming. Þessi ummæli hæstv. ráðh. eru þess vegna ekkert annað en endurtekning á þeim blekkingum, sem áður hafa verið fram bornar af framsóknarmönnum um þetta mál, og ég verð að segja það, að ég er undrandi yfir því, að hæstv. ráðh. skuli vera að vekja þetta upp, því að ef hann ber heill og velferð sveitanna fyrir brjósti, þá væri honum nær að stuðla að því, að þau mál yrðu leyst í sátt og samlyndi, heldur en að vera að vekja úlfúð og sundrung, því að það er ekki til hags fyrir framgang málsins.