07.04.1937
Neðri deild: 32. fundur, 51. löggjafarþing.
Sjá dálk 631 í C-deild Alþingistíðinda. (1921)

105. mál, Byggingarsjóður sveitanna

*Fjmrh. (Eysteinn Jónsson):

Ég skal ekki lengja mikið þessa deilu, en ég verð þó að svara hv. þm. Borgf. nokkrum orðum.

Hann varð að játa það, sem hann neitaði í sinni fyrri ræðu, að sú hjálp, sem bændum hefir verið veitt með l. um byggingar- og land námssjóð, hefði af sumum sjálfstæðismönnum verið kölluð ölmusugjöf. Ég kynnti mér þetta í gær, og þó ég sé kannske ekki minnisgóður, þá man ég þetta samt glögglega. En hann sagði, að þótt þetta hefði komið fram, þá hefði formaður Framsfl. talað um kreppuhjálpina sem ölmusu. Þetta er algerlega rangt. Hv. þm. veit vel, að það var ádeila út af sérstöku láni, sem formaður flokksins skrifaði um. Ég ætla ekki að draga þá málavexti, sem þar voru fyrir hendi, inn í þessar umr., en aðeins slá því föstu, að þar var aðeins um að ræða ádeilu á eitt einasta lán, en ekki á neinn hátt að því vikið, að frá hans eða flokksins sjónarmiði væri litið á kreppuhjálpina sem ölmusu. Það var líka Framsfl., sem fyrst og fremst beitti sér fyrir þeirri löggjöf, svo að það sæti illa á honum að hafa þá skoðun, enda er það alls ekki svo.

Svo mun ég ekki fara lengra út í þessa deilu um það, sem skeð hefir, en aðeins bæta því við, að hv. þm. Borgf. sagði, að það væri rangt, að í grg. frv. væri sveigt að hv. flm. frv., sem fyrr var komið fram um svipað efni. Ég leiðrétti þetta áðan og sagði, að það væri í nál. á þskj. 201 frá minni hl. landbn. Ég taldi mér því rétt að fara út í þær umr., sem ég hefi haldið uppi um fyrri afstöðu manna í þessu efni.

Ég skal svo ekki hafa fleiri orð um þetta. Ég hefi ekki á móti því, að málinu sé vísað til n. En ég álít skynsamlegast fyrir alla, sem vilja eitthvað gera í þessu máli, að samþ. frv., sem fyrr kom fram, og athuga svo, hvort ekki er hægt síðar að gera eitthvað frekar í málinu.