07.04.1937
Neðri deild: 32. fundur, 51. löggjafarþing.
Sjá dálk 633 í C-deild Alþingistíðinda. (1923)

105. mál, Byggingarsjóður sveitanna

*Flm. (Jón Sigurðsson):

Sessunautur minn, hv. 2. þm. N.-M., belgir sig mikið upp út af því, að af þessu fé verði engin gjöld greidd, ef ríkið tekur ekki af því tekju- og eignarskatt. Að lokum rann þó það ljós upp fyrir honum, að eitthvað væri til, sem héti útsvar. En hann sló því föstu, að óhugsandi væri, að hægt væri að ná til þessa fjár í útsvarsálagningu, fyrst ekki ætti að leggja á það skatt. Þessa aðferð notar þessi hv. þm. oft, en þetta er ekkert annað en blekking. Fyrst og fremst er útsvarið víða stór liður í gjöldum manna, og í öðru lagi er það ekkert nema fyrirkomulagsatriði að fá upp, hvort þessi eða hinn eigi svo eða svo mikið fé í slíkum verðbréfum, þó að hann eigi ekki að greiða skatt af þeim. Það er hægt að krefjast þess af mönnum, að þeir gefi upp, hversu mikið þeir eigi af þessum verðbréfum, þetta er því blekking ein hjá hv. þm.

Þá hélt hann, að taka mætti aftur eitthvað af þeim loforðum, sem mönnum hefir verið veitt fyrir lánum úr byggingar- og landnámssjóði. og fyrir það hélt hann, að mætti byggja 50 býli til viðbótar því, sem annars yrði. Nú er búið að veita þessi lán úr sjóðnum. Hverja á þá að gera afturreka af þeim, sem búið er að veita? Það er búið að ráðstafa 200 þús. kr. til ákveðinna lána, og þeir, sem lánin eiga að fá, eru þegar farnir að undirbúa undir byggingarnar. Ef nú á að taka 1/4 af þessu fé, þá verður að stöðva marga af þessum mönnum. Við skulum segja, að þessir menn væru stöðvaðir, þeir, sem stj. sýndist, og það fé veitt til einhverra, sem gætu fengið lán úr ræktunarsjóði. En hverjir eru við því búnir að taka fé, sem búið er að veita úr byggingar- og landnámssjóði til ákveðinna manna, sem eru ekki neitt farnir enn að hugsa fyrir að byggja? Það yrði eitthvað skrítið, þegar til þeirra framkvæmda kæmi, þegar sumir, sem hafa ákveðið að byggja, hafa ekki einu sinni getað fengið nauðsynlegt efni til bygginganna. Vitanlega hafa þeir einir sótt um lán, sem hafa gert sér grein fyrir, hverjar byrðar það hefir í för með sér, og treysta sér til að bera þær. Þetta, sem hv. þm. segir, er því ekkert nema blekking.