07.04.1937
Neðri deild: 32. fundur, 51. löggjafarþing.
Sjá dálk 633 í C-deild Alþingistíðinda. (1924)

105. mál, Byggingarsjóður sveitanna

Páll Zóphóníasson:

Það lítur út fyrir, að hv. sessunautur minn, hafi ekki lesið skattaeyðublöð og hafi enga hugmynd um útfyllingu þeirra, né lög um það efni.

Það er hægt að heimta af mönnum, að þeir gefi upplýsingar til frekari áréttingar framtali sínu og það síðan lagt til grundvallar fyrir tekju- og eignarskatti, en ef ætti að ætla sér að láta telja fram þessi fínu verðbréf kapítalistanna, sem engan skatt á að borga af, þá yrði að setja alveg sérstök ákvæði um það, en eins og nú er, er ekki hægt að fá skýrslur um þetta þar sem þau yrðu skattfrjáls. Niðurjöfnunarnefndirnar geta bókstaflega ekki fengið að vita hverjir eigi þessi verðbréf, og því ekki tekið tillit til þeirra við niðurjöfnun útsvara.

Hv. 7. landsk. sagði, að búið væri að ráðstafa 200 þús. kr. úr byggingar- og landnámssjóði. Ef það er rétt, þá er þar mikið fé til ráðstöfunar enn. því sjóðurinn fær 250 þús. kr. úr ríkissjóði og vexti af eign sinni. Hann hefir því hér slegið sjálfan sig, því að annaðhvort er, að hann gefur hér upp rangar tölur eða það er rangt, að ekkert fé væri eftir óráðstafað. En ef frv. okkar hv. þm. Mýr. verður að l., þá opnar það mönnum möguleika til að fá ræktunarsjóðslán, sem ekki þurfa þá að vera hærri en svo, að þeir geti undir risið, en það gerir þeim aftur kleift að byggja upp á sínum jörðum. Þess vegna á að fella þetta frv. og ekki mynda auðmönnum sérréttindi með því að samþ. það, en samþ. aftur frv. okkar hv. þm. Mýr., sem veitir úrlausn þessara mála í bili, og á fyrir sér að stækka, þegar reynsla fæst á fyrirkomulaginu og hvernig það hentar bezt til að ná takmarkinu því, að endurbyggja sveitirnar eftir kröfum tímans og menningu.