07.04.1937
Neðri deild: 32. fundur, 51. löggjafarþing.
Sjá dálk 634 í C-deild Alþingistíðinda. (1925)

105. mál, Byggingarsjóður sveitanna

*Pétur Ottesen:

Það er bara út af þrákelkni hv. 2. þm. N.-M. með þessa möguleika til aukinnar byggingar í sveitunum, sem hann ætlar að skapa með sínu frv. Maður þarf nú ekki Iengra heldur en að fá eins og ég hefi fengið, yfirlýsingu búnaðarbankastjórnarinnar um það, að búið er að ráðstafa hverjum eyri af handbæru fé byggingar- og landnámssjóðs á þessu ári. Og féð, sem þar var til, hrökk ekki til að fullnægja þeim beiðnum, sem fram komu. Hvar á þá að taka þessar 50 þús. kr., sem hv. þm. ætlar að auka með byggingarnar á þessu ári? Ég skil ekkert í hv. þm., að vera með þessar fullyrðingar, og skil það þó, af því það er þessi hv. þm. Af því hv. þm. var að tala um, að hér væri verið að vinna fyrir kapítalistana, vil ég benda honum á, hvernig þetta mun ganga til, ef að l. verður. Það er vitanlegt, að menn eru skyldir til að telja fram til tekju- og eignarskatts allar eigur sínar, en ef menn svo geta fært sönnur á, að tilteknum hluta af eignum þeirra sé varið á þennan hátt, þá fá þeir þá upphæð dregna frá skattskyldum eignum. Þannig verður þetta í framkvæmdinni, og það eru því tómar blekkingar, sem hv. 2. þm. N.-M. fer með, einnig um þetta atriði. Hér er aðeins verið að leita að leið til þess að fá ódýrt fé handa bændum í byggingar á jörðum sínum. Heppilegri leið hefir ekki fundizt ennþá. Og það er ekki svo sem við flm. frv. stöndum einir að þessari tillögu; allir búnaðarþingsfulltrúarnir með tölu hafa lýst yfir, að þeir vilji láta reyna þessa leið.