07.04.1937
Neðri deild: 32. fundur, 51. löggjafarþing.
Sjá dálk 634 í C-deild Alþingistíðinda. (1926)

105. mál, Byggingarsjóður sveitanna

*Flm. (Jón Sigurðsson):

Það er aðeins stutt aths. Að ég tilnefndi 200 þús. kr. áðan, var sökum þess, að sjóðurinn upplýsir, að það fé, sem hann hafi haft til útlána á síðasta ári, hafi numið 200 þús. kr. Hitt er víst, að fjölda manna hefir verið neitað um lán, og eins og hv. þm. Borgf. hefi ég fengið þau svör, að allt féð væri lofað á þessu ári, hver einasti eyrir. Fyrir sumt af fénu í ár hefir jafnvel verið byggt í fyrra, þannig að byggingarnar eru þegar komnar upp, sem verið er að lána til á þessu ari. Af því geta menn séð, hvað mikið muni vera handbært af fé sjóðsins nú.

Í sambandi við tillögur okkar um öflun lánsfjár var hv. þm. að tala um þessi fínu verðbréf mín. Ég veit ekki, hvort hann hefir meint það, að ég væri að safna verðbréfum. Ég vil upplýsa hv. þm. um það, að búreksturinn gengur ekki þannig nú, að við bændurnir söfnum verðbréfum, og sízt af öllu mundum við kaupa 31/2 % verðbréf. Enda höfum við ekki sömu aðstöðu og þessi hv. þm., sem mun hafa 14–15 þús. kr. árstekjur. Við höfum ekki svo feitan gölt að flá, og hefir hann m. a. séð fyrir því.