09.04.1937
Neðri deild: 34. fundur, 51. löggjafarþing.
Sjá dálk 636 í C-deild Alþingistíðinda. (1935)

106. mál, fiskimatsstjóri

*Atvmrh. (Haraldur Guðmundsson):

Ég er ekki að svo stöddu fær um að dæma um það, hvort rétt sé það, sem hv. 2. þm. Rang, heldur fram, að fiskimatsstjóri hafi bakað útgerðinni stórtjón með því að láta herða fiskinn ranglega. Hinsvegar er þetta þýðingarmikið mál, sem vert er að athuga gaumgæfilega. En því er þó ekki hægt að neita, að hvað sem kann að vera til í þessu, þá væri það bráðræði, að leggja niður þetta starf, sem Alþingi var sammála um að stofna. Þá var ekki annar maður talinn líklegri til að geta gegnt þessu starfi en núverandi fiskimatsstjóri. Ég sé ekki, að trygging væri fengin fyrir því, að ekki yrði heimtuð of mikil eða of lítil herzla, þó að embættið væri lagt niður, en sennilega myndi það leiða af sér enn minna samræmi í verkuninni. En ástæðan til að embætti fiskimatsstjóra var stofnað, var sú, að alþingi var sammála um, að nauðsynlegt væri að hafa einn yfirmann matsins, til þess að sjá um, að samræmi væri sem bezt um verkun þessarar vöru. Önnur ástæða var sú, að undanfarin tvö ár hafði talsvert borið á kvörtunum út af fiskinum, einkum frá Spáni. Við töldum okkur því skylt að gera það, sem hægt væri, til að bæla úr ágöllunum. Nú er að vísu orðin mikil breyting á Spáni, þó að vonandi sé, að þetta fari að færast nokkuð til réttrar áttar.

Um það, hvaða herzlustig fiskjarins sé haganlegast, get ég ekki dæmt, en því er ekki að neita, að vandfundinn er hinn rétti meðalvegur. Ég hefi fyrir satt, að þurrkstigið megi vera nokkuð misjafnt, eftir því, hver árstíðin er. Það er oft í fullkominni óvissu, hvenær fiskinum er skipað út, þegar verkun hans er lokið, og verður því, ef maður vill hafa tryggingu fyrir því, að fiskurinn hafi hæfilegt þurrkstig, þegar niður kemur, að hafa það of hátt við þurrkunina, því að hann linast, og af því leiðir, að ef lágt þurrkstig er tekið, þá getur fiskurinn verið skemmdur, þegar niður kemur. Ég hefi hjá fiskimatsstjóra fengið að sjá bréfaskipti hans við einn aðalinnflytjandann á Spáni. Það má auðvitað hugsa sér, að sá maður sé ekki óhlutdrægur dómari í þessu efni. En í þessu bréfi er eindregið lögð áherzla á, að fiskurinn sé ekki of lítið þurrkaður.

Ég vil mælast til þess við sjútvn., sem fær þetta mál til meðferðar, að áður en hún afgr. málið, þá stefni hún til sín fiskimatsstjóranum og kynni sér þau gögn, sem hann hefir. Einnig tel ég rétt, að sjútvn. tali við stjórn Sölusambands íslenzkra fiskframleiðenda, því að þeir menn eru bezt kunnugir þessum málum.

Ég get tekið undir það, sem hv. flm. sagði, að þegar um er að ræða smáútgjöld eins og kostnaðinn við starf fiskimatsstjóra, þá lítur oft út fyrir, að það gleymist, sem stærra er og meira veltur á, eins og t. d., að innflutningur okkar haldist til Portúgals, Þar eru viðskiptin svo ójöfn, að það er engin von til þess, að við getum haldið þeim með öðru móti en því, að þannig sé frá vörunni gengið, að hún líki sem bezt og sem minnstar kvartanir komi, og verðinu svo stillt í hóf, að frá þeirra sjónarmiði sé hún sambærileg við samskonar vöru frá öðrum þjóðum, sem kaupa jafnvirði og Portúgalar af þeim. Þetta eru atriði, sem ekki má gleyma í sambandi við þetta mál, eins og hv. flm. drap réttilega á. Þar sem Portúgalsmarkaðurinn er, þá er svo mikið í húfi, að kostnaðurinn við starf fiskimatsstjórans er út af fyrir sig, ef sá samanburður er tekinn, nauðalítill. Hitt er svo annað atriði, ef það er rétt, sem haldið er fram, að hann setji strangari reglur um þurrkun en ástæða er til og baki landsmönnum með því fjárhagslegt tjón. En áður en afráðið er um, hvað gera skuli, þá verða að liggja fyrir fullnægjandi upplýsingar um það, og þá jafnframt um það, á hvern hátt menn hugsi sér að girða fyrir, að slíkt endurtaki sig, með því að það er ekki nóg, að starf fiskimatsstjórans sé lagt niður.