16.04.1937
Neðri deild: 40. fundur, 51. löggjafarþing.
Sjá dálk 664 í C-deild Alþingistíðinda. (1955)

109. mál, viðreisn sjávarútvegsins

*Ásgeir Ásgeirsson:

Það er algengt að kenna þingi og stjórn um allt það, sem aflaga fer, bæði í atvinnuvegunum, verzlun og yfirleitt öllum greinum. Ég vil segja, að þessi ákæra hefir ekki alltaf verið réttlát, en þó verður hún e. t. v. réttlátari með hverju árinu, sem líður, af þeirri ástæðu, að viðskipti þjóðfélags okkar þurfa að vera meiri nú en nokkru sinni áður í okkar sögu. En þeir, sem beita þessari ákæru á þing og stjórn um allt, sem aflaga fer, verða þá einnig að vera tilbúnir að nota þing- og ríkisvaldið til að ráða bót á því öllu. Þessi neikvæða ákæra heimtar jákvæðar athafnir ríkisins; hún heimtar stuðning við atvinnuvegina.

Má vera, að þeir, sem landbúnað stunda, hafi ekki orðið fyllilega varir við þá stóru hættu, sem yfir honum hefir vofað nú síðustu 7–8 árin, og ástæðan til þess er sú, að svo snemma var farið að gera ráðstafanir til að koma í veg fyrir hættuna. Strax og þess varð vart, að þrengjast tók um kjötmarkað landsmanna, lagði ríkið fram fé til stuðnings því, að reist væru frystihús og byggð kæliskip, og til að bæta úr skorti þeim, sem var á vinnukrafti, voru keyptar vélar. Ríkið kom og á verðjöfnunargjaldi til eflingar hinum innlenda markaði. Allt þetta er gert af hálfu ríkisvaldsins, og kjósendur þingflokkanna til sveitanna hafa rétt til þess að heimta þessar aðgerðir af þingflokkunum. Þessar ráðstafanir hafa borið góðan árangur. Líku máli gegnir um sjávarútveginn, þó að hans kreppa kæmi kannske seinna. Það er líka komið að því nú, að það þarf að gera samskonar ráðstafanir og gerðar hafa verið um landbúnaðinn. Breytingin, sem orðið hefir, er gífurleg. Á flestum mörkuðum okkar í aðalviðskiptalöndunum fáum við nú ekki önnur kjör en jafnaðarkaup, en þetta eru lönd, sem okkur er mjög erfitt að verzla við.

Nú virðist svo komið, að sjávarútvegurinn sé í öldudal kreppunnar. Á þessu kjörtímabili hefir samt þó nokkuð verið gert til þess að koma í veg fyrir þær hættur, sem hafa steðjað að sjávarútveginum. Það hafa verið byggðar síldarverksmiðjur. Við skyldum hafa séð, hvernig ástandið hefði orðið síðasta ár, bæði í síldarútgerðinni og öðrum rekstri, ef þær hefðu ekki verið til. Þá hefir verið tekin upp ýmiskonar nýbreytni í sjávarútveginum, svo sem karfaveiðar og frysting á fiski, þó að það sé að ýmsu leyti á tilraunastigi, en á vonandi mikinn vöxt fyrir sér. Það hefir verið fyrirskipað fisksölusamlag og síldarsölusamlag, og það hefir orkað miklu um að draga úr þeim skelfingum, sem hafa steðjað að sjávarútveginum.

En hvað hefðum við sagt fyrir 7–8 árum um allar þessar aðgerðir viðvíkjandi sjávarútvegi og landbúnaði? Þetta hefði þá allt verið kallað kúgun og ófrelsi. Það hefði verið sagt, að hér vari verið að koma upp háskafyrirtækjum o. s. frv. Þó er ég viss um það, að það, sem á að gera, er að halda áfram á þessari braut, því að ennþá er margt ógert, ekki sízt í sjávarútveginum. Það er einmitt skipulagning og stuðningur, sem þessi atvinnuvegur hefir fullan rétt á og landbúnaðurinn eða þeir, sem hann stunda, eiga að vera og munu flestir vera fúsir til að styðja á sama hátt og sjávarútvegurinn hefir áður á margan hátt stutt landbúnaðinn og skipulagningu hans.

Þörfin er rík. Við skulum hugsa okkur þorp — það eru mörg þorp kringum landið, sem eiga erfitt, — við skulum hugsa okkur þorp, þar sem hafa verið skip, t. d. línuveiðarar. Svo flytjast þeir allir burt. Hvað á að gera við þessa þorpsbúa? Á að segja við þá: „Þið hafið fullkomna fiskimenn, og þið skuluð bara bíða eftir einstaklingsframtakinu. Það bjargar öllu, ef ríkisvaldið lætur allt afskiptalaust“. Ég býst við, að þeir mundu svara sem svo: „Ef við eigum ekki annars kost, þá viljum við heldur þennan ríkisrekstur, sem allir vara okkur við.“

Við skulum hugsa okkur þorp, þar sem smábátaútgerð er stunduð. Þar er sjórinn fullur af margskonar fiski, sem er mjög verðmætur á erlendum markaði, ef markaðurinn er góður. Í slíku þorpi strita sjómennirnir; þeir eru á sjónum í vondum veðrum, og það, sem þeir bera úr býtum fyrir sig og sína fjölskyldu, er kannske 50–70 kr. yfir mánuðinn. Eiga þessir menn ekki kröfu á, að ríkisvaldið komi til aðstoðar, hvað sem annars má segja um ríkisrekstur? Einstaklingsframtakið bætir ekki úr vandræðum þessara manna og kemur ekki með þær ráðstafanir, sem þarf til þess að gera þær vörur, sem þessir menn framleiða, verðmætar. Þessir menn eiga fullan rétt á sér, og það er engin frekja, þó að þeir leiti til þess þings, sem þeir hafa kosið, og þeirrar stj., sem þeir styðja. Þeir hafa jafnvel rétt á því, að það sé kallað einstaklingsframtak, sem þeir starfa, öll þeirra sjósókn og allt þeirra erfiði.

Svona er víða kringum landið. Það er ekki hægt að rétta við þessa atvinnuvegi eða sjá mönnum fyrir því kaupi, sem þeir þurfa til þess að lifa á, öðruvísi en með öflugum samtökum og þá fyrst og fremst með stuðningi ríkisvaldsins. Og héruðin kringum þessi þorp hugsa sem svo: „Við erum því fylgjandi, að atvinnulífinu í þessum þorpum sé lyft upp, því að það er kaupgeta þessara þorpsbúa, sem er orðin undirstaðan undir okkar atvinnuvegi.“ Þeir eiga líka rétt á því, að þessi atvinnuvegur sé ekki látinn afskiptalaus.

Það, sem þarf að gera, er að halda áfram á sömu braut, sem gengin hefir verið frá því er kreppan hófst á þessu landi. Það þarf meiri ríkisstuðning og meiri skipulagningu á mörgum sviðum. Það þarf afskipti af bankarekstri, svo að honum sé hagað með hag fólksins og þörf almennings fyrir augum. Það þarf jafnvel að taka lán erlendis, þó að hv. síðasta ræðumanni litist ekki á það, og ég vil segja, að þau lán, sem tekin eru erlendis til þess að gera þennan atvinnuveg „rentabel“, hafa jafnmikinn rétt á sér og þau beztu lán, sem áður hafa verið tekin erlendis til ræktunar og ýmissa slíkra hluta. Hér á landi hagar líka svo sérstaklega til, þegar um er að ræða viðreisn atvinnuvegar, sem er kominn í öldudal kreppunnar.

Ríkisvaldinu ríður einnig á að rannsaka alla bankastarfsemi hér á landi. Það er mesti barnaskapur að hefja söng um ríkisrekstur og vafasöm erlend lán í landinu, þar sem allar bankastofnanir eru reknar af ríkinu. Ég hefi verið í félagi við framsóknarmenn um að taka ríkisábyrgð á öllum bankarekstri í þessu landi, og þar með í rauninni á allri útgerð og öllum atvinnurekstri landsmanna. Að vísu er sú ábyrgð takmörkuð af lánveitingum bankanna. En það nefnir enginn í sambandi við þau frv., sem hafa legið fyrir Ed., annað en að takmarka áhættu ríkisins. Ég skal fullkomlega játa, að það er ekkert unnið við að skella öllum frumlegustu atvinnuvegunum alveg yfir á ríkið, svo að hvert kot og vélbátur sé rekinn af ríkinu, enda hefir enginn nefnt það. Það eina, sem hér er beðið um, er að gera ráðstafanir til þess, að mönnum verði eitthvað úr því, sem þeir afla. Það eina, sem er óskað eftir, er, að ríkið veiti sinn stuðning til að stofna ný fyrirtæki og afla nýrra atvinnutækja, sem eru í samræmi við þörf tímans. Vitanlega má hafa hvaða fyrirkomulag á slíkum félögum sem vill. Það má hafa sambland af hlutafélögum og samvinnufélögum, sem of langt yrði að útskýra. Annars hygg ég, að allur rekstur, sem ríkið styður, jafnvel sá, er ríkið rekur sjálft, sé bezt kominn þannig, að hann sé byggður upp sem einstök fyrirtæki, sem ríkið hefir takmarkaða ábyrgð á. Þá kemur gleggst fram, hvaða gagn hvert fyrirtæki gerir og hvernig þau standa undir þeim þörfum, sem þeim er ætlað að standa undir. Það þarf margt að gera til þess að rétta við sjávarútveginn nú og svara þeim kröfum, sem komið hafa úr öllum áttum á þessum tveimur verstu árum sjávarútvegsins. Ýmsir hrópa um að lækka gengið, og halda, að það sé lykillinn að allri velmegun, Ég hygg, að það sé bændum, sjómönnum og verkamönnum til lítils gagns að lækka gengið. En á þessu landi, þar sem ríkið ræður öllum bankarekstri, mætti gera annað. Það mætti lækka vextina. Þegar ég var við stjórn, voru einu sinni lækkaðir vextir af Landsbankanum. En vextirnir eru þó miklu hærri en svo, að atvinnuvegirnir, sem eiga erfitt, geti borið þá uppi. Til þess að lækka vexti af útlánum, þarf að lækka innlánsvettina. En bankarnir bera það fyrir sig, að ef þeir lækki innlánsvexti, muni innstæðan verða sett í verðbréfakaup. En því ekki að koma skipulagi á verðbréfamarkaðinn í landinu til þess að hindra slíka hættu? Það er búið að skipuleggja markað með erlendan gjaldeyri landsins, og þá er ekki forsvaranlegt að leyfa verðbréfasölu, kannske á verðbréfum, sem eru með ríkisábyrgð, svo að verzlunin verði fyrir stórum afföllum. Nei, ef þingið þrýstir nóg hér á eftir, er hægt að lækka vextina stórlega.

Það er margt, sem mætti minnast á í sambandi við togaraútgerð og togaraeign. Slík tæki þurfa menn ekki að óttast eins og þetta séu einherjar fornaldarófreskjur, sem ríkisvaldið megi ekki koma nálægt. Það er stór og góð hugmynd að stofna stórt togarafélag, ýmist með þeim togurum, sem fyrir eru og hafa orðið að gefast upp, eða þeim, sem fengnir væru nýir, og þeim dreift út um land, en það þyrfti sameiginlega stjórn til þess að reksturinn yrði sem ódýrastur. Í þessu sambandi vil ég minna á, að það þarf ekki að kvarta yfir, að togaraútgerðin fái ekki skuldaskil, þegar borið er fram frv. um, að hún fái skuldaskil, þó að það fylgi, að sá, sem leggur það fram, fái tilsvarandi vald, því að þegar hlutafélög fá skuldaskil, verður að hafa aðra aðferð en þegar það er kannske aðeins ein fjölskylda, sem vinnur að fyrirtækinu. Það er ein meginregla allra íhaldsflokka, að fjármagninu eigi að fylgja vald. En því ekki að framkvæma þessa reglu líka, þegar það er bæjarsjóður eða kannske ríkissjóður sjálfur, sem leggur fram fjármagnið?

Ég er því fylgjandi, að valdið eigi að vera í höndum þeirra, sem leggja fram fjármagnið. En hinu er ég mótfallinn, sem er versta tegund af ríkisrekstri, þegar bankarnir, sem eru reknir af ríkinu og með ríkisábyrgð, leggja fram allt áhættuféð ár eftir ár, en valdið látið vera í höndum einstakra manna, sem eru kannske hættir að bera áhættuna.

Við þurfum að gera okkur það ljóst, að nú gera menn yfirleitt miklar kröfur í þessum málum sem öðrum. Við megum ekki segja lengur, að þessi spillta pólitík megi ekki koma nálægt þessu eða hinu, ekki nálægt bönkunum, sem þó eru stofnaðir af þinginu og stjórnað af mönnum, sem eru kosnir af þinginu, og af mönnum, sem skipaðir eru af ráðh. Nei, þessir bankar eru sannarlega ekki fyrir utan þetta pólitíska vald, og þingið er fullvalda yfir öllum þessum hlutum. Ég hygg, að við höfum ekki ennþá gert okkur þetta fyllilega ljóst, hversu mikill er máttur þingsins. Og einmitt í sambandi við þetta mál, þar sem ekki er að ræða um eyðslufé, heldur verðmæti til viðreisnar og til þess að menn fái meira út úr þeim afurðum, sem þeir skapa, en ella mundi, einmitt í sambandi við þetta mál er ástæða til að minna á bankareksturinn eins og hann er, og að það er þingið, sem er fullvalda í þessum málum.

Þegar svona er komið hjá þjóðfélaginn, og fyrir eðlilega þróun og að miklu leyti fyrir erlend lán, þá á ekki að vera hægt að hræða þingið frá að nota sitt mikla afl með því að draga upp allskonar skrípamyndir. Þessu frv. virðist mér hafa verið vel tekið af þeim ræðumönnum, sem hér hafa talað. Fæ ég í rauninni ekki skilið, eftir slíkar undirtektir, að ekki sé mögulegt að samþ. nú þegar slíkt frv. á þessu þingi. Ef það verður ekki gert, þá er það af því, að einhver önnur öfl eru þar ríkjandi. En undir öllum kringumstæðum er það komið fram í þessari umr., að þetta frv. er eitt það merkilegasta, sem komið hefir fram á þessu kjörtímabili, og mun, hvort sem það verður nú eða á næsta þingi, marka tímamót í sögu sjávarútvegsins hér á landi.