16.04.1937
Neðri deild: 40. fundur, 51. löggjafarþing.
Sjá dálk 675 í C-deild Alþingistíðinda. (1958)

109. mál, viðreisn sjávarútvegsins

*Fjmrh. (Eysteinn Jónsson):

Ég mun nú ekki nema að litlu leyti svara þeim ræðumönnum, sem talað hafa á undan mér, heldur snúa mér beint að því að ræða nokkuð um, hvernig þetta frv. er fram komið og aðalefni þess.

Samvinna tveggja flokka eða fleiri um ríkisstjórn og afgreiðslu mála á þingi á erfiðum tímum verður að byggjast á nánu samstarfi flokkanna, sem með völdin fara. Þetta hefir núv. stjórnarflokkum verið ljóst, og meginregla þeirra í meðferð mála hefir því verið sú, að ekkert stórmál, sízt stórt fjárlagsmál, væri flutt af flokkunum eða þingmönnum þeirra, án þess málið hefði fyrirfram verið athugað af báðum flokkunum, og málinu a. m. k. fyrirfram komið í það horf með samningum, að ekki væri um verulegan ágreining að ræða. Undantekningar frá þessu eru að vísu einstök mál, sem þá hefir nánar verið gert ráð fyrir, að ekki næðu fram að ganga, en á meðal þeirra undantekninga hafa a. m. k. fram að þessu engin mál verið, sem flokkarnir hafa talið svo mikils virði, að þeirra vegna væri samvinnu flokkanna slitið.

Síðan Alþfl. gerði ágreining við Framsfl. út af afgreiðslu Kveldúlfsmálsins hér á Alþingi og kastaði hér fram frv. um skiptameðferð á bú h/f Kveldúlfs, þá hefir meðferð mála verið með nokkuð öðrum hætti en hingað til, a. m. k. frá Alþfl. hálfu. Undireins og þessi ágreiningur lá fyrir byrjaði Alþfl. að láta flytja hér frv. um hvert stórmálið á fætur öðru, og það meira að segja stórt fjárhagsmál, án þess að svo mikið sem frumsmíð að þeim hafi verið til umr. milli flokkannna áður en þau voru flutt. Þá verður því ennfremur ekki á móti mælt, að þessi frv., þar á meðal það frv., sem hér er til umr., er með allt öðrum blæ en þær till., sem venjulega eru fluttar af flokkum í stjórnaraðstöðu og ætlaðar eru til afgreiðslu, eins og þó látið er í veðri vaka um þetta frv. Jafnframt þessu hefir hið ótrúlega skeð, að blöð Alþfl. hafa eytt í það miklu rúmi, og ritstjórarnir mikilli vinnu, að sannfæra landsfólkið um það fyrirfram, að Framsfl. væri á móti þessum málum, og ekki sízt þessu frv., sem hér er til umr. Því hefir einnig verið haldið fram, og talin ástæða fyrir því, hve skyndilega þessu máli er varpað fram í þinginu, að Alþfl. hafi í allan vetur gert árangurslausar tilraunir til þess að fá Framsfl. til að sinna málefnum sjávarútvegsins á þann hátt, er alþfl. vildi. Þessu var slegið föstu undir eins og mál þetta var komið fram, enda þótt enginn framsóknarmaður hafi séð svo mikið sem frumdrög að þessu frv. Vegna þess að málið hefir borið að á þennan hátt, get ég ekki látið hjá líða að skýra nokkuð frá því, sem stjórnarflokkunum hefir farið á milli um sjávarútvegsmálin.

Skömmu eftir að Alþfl. hélt flokksþing sitt hér á síðastl. hausti, kom nefnd frá flokknum til viðtals við nefnd frá Framsfl., og var þá m. a. rætt um sjávarútvegsmál, sérstaklega till. Alþýðuflokksþingsins um togarafélögin, sem nú liggur fyrir hv. Ed. í frumvarpsformi og nefndar eru frv. um stuðning við togaraútgerðina, en eru þó raunverulega um uppgjör togaraflotans og ríkisrekstur á togurum, eins og menn munu hafa sannfærzt um af umr. um það mál. Framsóknarmenn sögðu, að engin endanleg svör væri hægt að gefa um málefnaafstöðu Framsfl. fyrr en flokksþing hans hefði komið saman í byrjun Alþingis, en jafnframt, að fyrirfram væri vitað, að flokkurinn mundi taka afstöðu gegn ríkisrekstri togaraflotans. Hefir síðan lítið sem ekkert verið minnzt í almenna uppgerð togaraflotans og ríkisrekstur togara, fyrr en um það kom hér fram frv., eftir að ágreiningurinn varð um Kveldúlfsmálið. Í síðari viðtölum, sem orðið hafa á milli flokkanna, hefir ennfremur verið rætt um önnur sjávarútvegsmál, og hefir ýmislegt borið á góma, er gera þyrfti til aðstoðar sjávarútveginum. Hefir það m. a. verið eitt meginatriði þess frv., sem hér liggur fyrir, að verja útflutningsgjaldinu af sjávarafurðum til styrktar sjávarútveginum, eða fella það niður, og hefir það komið skýrt fram frá fulltrúum Framsfl. í þeim viðræðum, að flokkurinn vildi verja útflutningsgjaldinu að miklu eða öllu leyti til styrktar sjávarútveginum, eftir því sem nánar væri ákveðið, en þó því aðeins, að ríkissjóði yrði bættur sá tekjumissir, er hann við það yrði fyrir, með nýjum ábyggilegum tekjuauka. Alþfl. hefir hinsvegar í þessum umr. aldrei bent á neinar leiðir í því efni, og stóð málið svo búið, er síðast var um það rætt á milli flokkanna. Eru því harla undarleg ummæli Alþfl. um afstöðu Framsfl. um þetta aðalatriði í frv., og raunar allt tal um langar samningaumleitanir, sem engan árangur hafa borið. Hitt er annað mál, að í þessu frv., eins og það liggur hér fyrir á þskj. 151, eru mörg önnur ákvæði, sem Framsfl. getur ekki fallizt á, eða telur mjög varhugaverð, en þau atriði hafa yfirleitt alls ekki verið undir flokkinn borin eða reynt að semja um þau áður en frv. kom hér fram. Sannleikurinn í þessum málum hlýtur að vera sá, að eftir að Alþfl. hafði gert ágreining í Kveldúlfsmálinu og taldi sig sjá fram undan kosningar í vor, þá hefir verið þotið upp til handa og fóta og frv. þetta samið, enda hefir það á sér ótvíræðan auglýsingablæ. Líkist frv. sjálft, og þó einkum grg. þess, að ýmsu leyti að því er orðfæri og efni snertir meira blaðagrein heldur en þingskjali. Því verður heldur ekki neitað, að það er mjög einkennileg aðferð til þess að afla málum sínum fylgis, að fullyrða fyrirfram, að óathuguðu máli, að þeir, sem ætlazt er til, að leysi málin, séu á móti þeim. Mér finnst sú aðferð a. m. k. ekki líkleg til þess að stuðla að heppilegri lausn á vandasömu stórmáli.

Hv. þm. Barð. hefir gefið nokkurt yfirlit yfir afstöðu Framsfl. til sjávarútvegsmálanna yfirleitt og hvað það er, sem framsóknarmenn telja nauðsynlegt að gera í þeim málum, en ég mun aftur verja mestu af þeim tíma, sem ég á eftir, til þess að ræða frv. það, sem hér liggur fyrir. Eitt aðalatriði frv. er, að útflutningsgjaldið, sem hingað til hefir runnið í ríkissjóð, renni í fiskimálasjóð. Eins og ég hefi áður sagt, þá er Framsfl. reiðubúinn til þess að fylgja þessu ákvæði fram að miklu eða öllu leyti, en þó því aðeins, að ríkissjóði sé bættur upp tekjumissirinn. Í frv. eru ekki nein ákvæði um það, hvernig ríkissjóður skuli fá tekjur í staðinn, en í grg. er drepið á það sem aðalúrræði, að hækka skuli söluverð áfengis. Þetta getur ekki talizt neitt úrræði, er komi á móti útflutningsgjaldinu, því þegar fjárlögin fyrir yfirstandandi ár voru afgr., var gert ráð fyrir því, að verðlag á þessari voru yrði hækkað, og er fráleitt, að ríkissjóði veiti af þeim tekjuauka, ef einhver yrði, þar sem tolltekjurnar hafa hrapað niður frá því, sem áætlað var, og greinilega kom fram við bráðabirgðauppgerðina fyrir 1936 og hér hefir verið skýrt frá. Þar að auki er á það að líta, að hækkað verðlag hefir sjálfsagt í för með sér minnkaða neyzlu, og því nokkuð vafasamt, hvort um tekjuaukningu yrði að ræða. Þetta, sem á er bent í grg., getur því ekki talizt neitt úrræði. Útflutningsgjaldið hefir verið einn af stöðugustu tekjustofnum ríkissjóðs, og það er bezt að gera sér það ljóst undir eins, að í staðinn fyrir það yrðu að koma skattar, sem alveg er hægt að reiða sig á, og ennfremur að vel getur svo farið, að í staðinn yrði að koma álag á aðflutningsgjöldin. Ég fyrir mitt leyti tel aðflutningsgjöldin eðlilegri heldur en útflutningsgjöld, a. m. k. eins og nú standa sakir.

Hinsvegar verður að taka það alvarlega, að Alþfl. sé reiðubúinn til að semja um nýjan tekjustofn í stað þess, sem niður er felldur, ef útflutningsgjaldinu af sjávarafurðum verður framvegis varið í þágu sjávarútvegsins, og skal ekki farið nánar út í það hér.

Þá er ríkisstj. heimilað í frv. að taka ábyrgð á 3 millj. kr. láni, er fiskimálasjóður fái til framkvæmda sinna. Eins og kunnugt er, þá er það og hefir verið stefna Framsfl. að forðast skuldaaukningu erlendis og reyna af fremsta megni að koma á þeim endurbótum í atvinnulífi þjóðarinnar, sem unnt er, án nýrra lántaka erlendis, nema um sérstök stórfyrirtæki sé að ræða, sem standa undir lánunum sjálf. Þriggja millj. kr. lántaka erlendis nú á næstunni til fiskimálasjóðs, sem raunverulega væri sama og ríkislán, fer því í bága við þessa stefnu Framsfl.

Þessu næst koma svo ákvæði frv. um það, hversu verja skuli fé fiskimálasjóðs. Er í fyrsta lagi gert ráð fyrir ýmiskonar styrkjum til nýrra framkvæmda: Hraðfrystihúsa, fiskimjöls-, síldar- og karfaverksmiðja, niðursuðuverksmiðja og veiðarfærakaupa. Er að verulegu leyti gert með þessu ráð fyrir áframhaldi af því starfi, sem fiskimálanefnd hefir haft með höndum fyrir fé fiskimálasjóðs, og hefir því verið greinilega lýst yfir af Framsfl., að hann muni styðja áframhald þeirrar starfsemi. En álitamál getur þó verið, hvort unnt verði að sjá fiskimálasjóði fyrir svo miklu fjármagni, að hann geti greitt styrki til allra þeirra framkvæmda, sem hér er gert ráð fyrir, svo sem síldarbræðslustöðva, enda mikið vafamál, hvort ekki er meiri þörf á að styrkja aðrar greinar útvegsins með beinum framlögum fremur en síldarútgerð, þar sem hún er nú langarðvænlegust talin allrar útgerðar. Vil ég í því sambandi minna á hina gífurlegu erfiðleika, sem þeir eiga við að stríða nú, sem ekki geta notið síldveiðanna vegna þess, hve þeir hafa smáa báta til veiðanna.

Þá er einnig gert ráð fyrir, að fiskimálasjóður annist lánveitingar í stórum stíl. Lánveitingar þessar eru í raun og veru tvennskonar eftir frv.: Annarsvegar lánveitingar til togara- og vélbátakaupa, þar sem gert er ráð fyrir, að á undan lánum fiskimálasjóðs megi hvíla á velhátum allt að 50% af virðingarverði, en á togurum allt að 65% af kostnaðarverði. Er hér því gert ráð fyrir lánveitingum, sem undir óbreyttum kringumstæðum eru nú orðið taldar mjög hættulegar, og það hættulegri en svo, að venjulegar lánsstofnanir takist þær á hendur. Að meðtöldum lánum fiskimálasjóðs má samkv. frv. hvíla á togurum 80–90%, en á vélbátum 75%. Að vísu getur komið til mála, ef fiskimálasjóður hefir nægilegt fjármagn fyrir hendi, að ætla honum einhverjar slíkar áhættulánveitingar sem þessar, en þó vill Framsfl. benda á, að eðlilegra mun að ætla fiskiveiðasjóði Íslands, sem þegar er starfandi, að auka lánveitingar sínar til þessara fyrirtækja, en að láta fiskimálasjóð annast slíkt, sem a. m. k. hingað til hefir aðallega verið ætluð styrktarstarfsemi.

Í sambandi við frv. til l. um útgerðarsamvinnufélög hefir Framsfl. líka í samræmi við þetta lagt til, að fiskiveiðasjóður lánaði út á vélbáta allt að 5/5 af kostnaðarverði, ef samvinnurekstur er á bátunum, og virðist það eðlilegra úrræði til hjálpar við endurnýjun vélbátaflotans en það úrræði, sem hér er stungið upp á.

Þá gerir frv. ráð fyrir, að atvmrh. sé heimilt að ákveða, að í stað þess að lána til togarakaupa allt að því 1/4 kaupverðs, megi sjóðurinn leggja fram þá fjárhæð sem stofnfé eða hlutafé í fyrirtæki, sem bæir eða kaupstaðir reka. Er þessu ákvæði auðsjáanlega smeygt inn í frv. til þess, að þau nýju útgerðarfyrirtæki, sem þannig yrðu sett á stofn, verði raunverulega rekin sem ríkisfyrirtæki. Undir þessum kringumstæðum myndi fiskimálasjóður, sem er sama og ríkissjóður, eiga hlutafé, sem nemur einum fjórða kaupverðs, en samkv. frv. myndi hlutaðeigandi bæjarfélag aðeins eiga sem svarar 10% af kaupverðinu. Mundi því yfirgnæfandi meiri hl. hlutafjárins koma frá fiskimálasjóði. Ef hægt verður í framtíðinni að efla fiskimálasjóð svo að hann reynist þess megnugur að styðja að endurnýjun togaraflotans, virðist einsætt, að það fé verði lagt fram sem lánsfé, en fiskimálasjóði eða ríkissjóði ekki blandað inn í reksturinn sem hluthöfum.

Þá eru fiskimálasjóði ætlaðar frekari lánveitingar, sem eru nokkuð annars eðlis. Honum er ætlað að ábyrgjast eða lána allt að 60% af stofnkostnaði frystihúsa, allt að 40% af stofnkostnaði síldar-, fiskimjöls- og karfaverksmiðja, allt með 1. veðrétti, auk þeirra 25%, sem gert er ráð fyrir, að lagt verði fram sem beinn stuðningur og áður er getið um. Þetta frv. gerir í raun og veru ráð fyrir því, að fiskimálasjóður verði nýr stofnlánsbanki fyrir sjávarútveginn, jafnframt því sem hann er styrktarstofnun, eins og áður er sýnt fram á. Til þessa get ég ekki séð nokkra ástæðu. við höfum fiskveiðasjóð Íslands, sem á að vera stofnlánsbanki fyrir útveginn, og það virðist alveg óeðlilegt að setja upp við hliðina á honum aðra slíka stofnun. Mér virðist miklu réttara, eins og gert er grein fyrir í frv., sem legið hafa fyrir á undanförnum þingum og flutt hafa verið af framsóknarmönnum hér í deildinni, að ef hægt er að útvega aukið fjármagn til stofnlána útgerðarinnar, þá sé því fjármagni haldið til fiskveiðasjóðs og starfsvið hans aukið. Ég get ekki varizt þeirri hugsun, að öll þessi ákvæði um lánveitingar og fyrirgreiðslur til sjávarútvegsins séu dregnar inn í frv. til þess, að það verði meira að vöxtum, stingi meira í augun, verði betri auglýsing. Mér finnst mjög eðlilegt að gera ráð fyrir því, að fiskveiðasjóður eða bankarnir lánuðu til þeirra fyrirtækja, sem frv. fjallar um, eftir að búið væri að styrkja þau að 1/4, ef fært reyndist, úr fiskimálasjóði, og eftir að stofnendur fyrirtækjanna hefðu lagt fram til þeirra sinn skerf. Reynslan hefir nú verið sú, að þegar átt hefir að koma upp slíkum fyrirtækjum, þá hefir alltaf fengizt þó nokkurt fé í því skyni, þrátt fyrir ýmsa örðugleika, annaðhvort bein peningaframlög eða vinnuframlag. Ég get ekki betur séð en að það eigi að vera hlutverk fiskveiðasjóðs og bankanna að lána þessi lán, og myndu þau áreiðanlega ekki verða meiri áhættulán en mörg önnur útgerðarlán á þessum tímum. Auk þess er ég sannfærður um það, að það er mjög óheppilegt, að sama stofnunin hafi með höndum styrkveitingar og lánveitingar. Ég held, að enginn vafi geti á því leikið, að það myndi reynast mjög skaðlegt fyrir stofnunina og leiða til þess, að litið yrði að meira eða minna leyti á allt fé, sem frá stofnuninni kæmi, öðrum augum en venjuleg lán, til tjóns fyrir stofnunina. Ákvæði frv. um að heimila fiskimálanefnd að takast á bendur ábyrgð fyrir þessi nýju fyrirtæki álít ég bæði skaðleg og óþörf. Í framkvæmdinni myndi vitanlega verða n svipað á þetta og venjulega ríkisábyrgð, þar sem fiskimálasjóður hefir ekkert á bak við sig annað en ábyrgð ríkissjóðs, og þær tekjur, sem Alþingi skapar honum. Fiskimálanefndin, sem ætti að veita þessar ábyrgðir, er ekki að neinn leyti skipuð fulltrúum Alþingis, og ríkisstj. á þar aðeins einn fulltrúa, formanninn, sem er fulltrúi atvmrh. Samkv. þessu frv. ætti slík stofnun að geta veitt stórkostlegar ábyrgðir, sem í eðli sínu yrði litið á sem ríkisábyrgðir, án þess að það komi nokkuð til kasta fjármálaráðuneytisins eða fjmrh., sem þó er falið af Alþingi á hverjum tíma að fara með umboð þess í fjármálum. Ég lít líka svo á, að auk þess að vera varhugaverð, ættu þessi ákvæði einnig að vera óþörf, og þykist hafa fært rök að því. Ég hefi sýnt fram á, að lánveitingar til þessara fyrirtækja er ekki unnt að telja áhættusamari en lánveitingar bankanna og fiskveiðasjóðsins eru yfirleitt, og þess vegna ekki ástæða til annars en að ætla þeim aðiljum að annast þessa starfsemi á venjulegum bankagrundvelli.

Aðalatriði málsins, efling fiskimálasjóðs með tekjum af útflutningsgjaldinu að miklu eða öllu leyti, er Framsfl. sammála, ef samkomulag gæti náðst um tekjuöflun til ríkisjóðs í staðinn. Ýms önnur atriði frv. hafa verið gagnrýnd, enda getur það vitanlega verið álitamál, til hverra nauðsynja sjávarútvegsins verja ber því fé, sem til sjóðsins rynni. Frv. þetta ber það með sér, að því hefir verið rubbað upp í flýti, enda kunnugt, að svo hefir verið gert. Það hefir ennfremur á sér, að mínu áliti, of mikinn auglýsingablæ, enda mun því fyrirfram varla hafa verið ætlaður framgangur á þessu þingi, fremur eiga að notast sem málefnagrundvöllur í kosningabaráttu þeirri, er flutningsmennirnir munu hafa reiknað með, eftir að sjáanlegt var, hvernig réðist um afgreiðslu Kveldúlfsmálsins. Það er öllum kunnugt, að Framsfl. a. m. k. hefir álitið það meginatriðið í öllu sínu starfi að reyna að forðast tekjuhalla á landsreikningi og skuldasöfnun við útlönd, og hafa tillögur stjórnarflokkanna fram að þessu verið miðaðar við það. Í frv. þeim, sem fram eru komin nú síðustu dagana af hálfu Alþfl., virðist mér önnur stefna vera uppi á teningnum. Í þessu frv. er t. d. ætlazt til, að 200 þús. kr. af útflutningsgjaldinu skuli ganga til fiskimálasjóðs þegar á þessu ári, án þess að nokkrar tekjur eigi að koma í staðinn. Í frv., sem liggur fyrir Ed. um togaraútgerðina, er gert ráð fyrir, að kola- og salttollurinn renni til þess að standa straum af lántökum, sem ríkissjóður á að taka til þess að stofnsetja ríkisútgerð, og er ekki heldur gert ráð fyrir, að ríkisjóður fái neinar tekjur í staðinn. Nú vita flm. frv. það þó mætavel, að þeir hafa ásamt framsóknarmönnum tekið ábyrgð á fjárhagsafkomu ársins 1937, með samþykkt fjárl. fyrir það ár. Og þeir vita það einnig, að síðan þau fjárlög voru afgr. er langt frá því, að tekjuvonir ríkisjóðs hafi aukizt, þvert á móti sýna tolltekjur ársins 1936, að tekjuvonir ríkissjóðs eru minni 1937 en fyrirfram var gert ráð fyrir. Samt virðist hv. flm. óhætt að rýra með sínum till stórkostlega tolltekjur ríkissjóðs þegar á þessu ári. Þetta kalla ég að renna frá þeirri stefnu, sem mörkuð hefir verið í þessum málum.

Þá er eigi síður eftirtektarvert, að í 4 frv., sem flutt eru af hv. þm. Alþfl., er gert ráð fyrir samtals 8 millj. kr. lántökum, og það er vitanlegt, að slíkar lántökur gætu ekki farið fram innanlands. Það yrði að leita út fyrir landsteinana og taka stórlán erlendis. Þessi frv. koma því í bága við þá stefnu í fjármálum, sem Framsfl. a. m. k. hefir beitt sér fyrir og fylgt hefir verið af fremsta megni af stjórnarflokkunum og ríkisstj. undanfarin ár. Framsfl. getur ekki fallizt á að breyta um stefnu í fjármálum. Flokksþing hans hefir samþ., að hann skuli halda þeirri sömu stefnu og fylgt hefir verið tvo undanfarin ár, að forðast lántökur erlendis, nema til fyrirtækja, sem eru fær um að rísa undir þeim sjálf. Sennilega verður ekki hægt að koma á nauðsynlegum breyt. án þess að leita að einhverju leyti eftir lánsfé utan að, og þó ekki nema til þeirra fyrirtækja og framkvæmda, sem stunda undir lánum, en till. Alþfl. um 8 millj. kr. lántöku er ekki í samræmi við þá varfærni, sem sýna þarf í þessum málum.